Sérsveitin yfirbugaði trylltan ökumann í morgun

Lögreglumenn og sérsveit Ríkislögreglustjóra voru kölluð út á sjöunda tímanum í morgun eftir að tilkynnt var um sofandi par í bifreið á Hverfisgötu skammt frá gatnamótum við Snorrabraut. 

Í dagbók lögreglu kemur fram að þegar lögreglumenn og sérsveitin komu á vettvang hafi ökumaðurinn verið vakinn. Hann reyndi þá að aka bifreið sinni á brott og ók á tvo lögreglubíla. Áttu lögreglumenn á vettvangi fótum sínum fjör að launa að ekki var ekið á þá. 

Að sögn lögreglu brutu lögreglumenn báðar hliðarrúður bifreiðarinnar að framan og sprautuðu piparúða inn í bifreiðina. Ökumaður og farþegi voru yfirbuguð og voru þau vistuð í fangageymslu. Þau verða yfirheyrð síðar í dag. 

Skömmu áður, eða klukkan hálf sex, var óskað eftir aðstoð lögreglu í heimahús í vesturbænum. Þar hafði heimilisfólk orðið vart við karlmann inni í húsinu algerlega óboðinn. Þarna handtekinn erlendur ferðamaður sem farið hafði húsvillt. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.