Fátt nýtt undir sólinni

Aflandsfélög og skattaskjól eru mikið til umræðu í samfélaginu, eins og kunnugt er.

Sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Guðmundur Magnússon, sem starfar nú sem blaðamaður á Morgunblaðinu, bendir á það á fésbókarsíðu sinni, að umræðan um þessi efni sé bæði gömul og ný.

Guðmundur segir:

„Fátt er víst nýtt undir sólinni:

Árið 1936 geymdi Richard Thors, forstjóri Kveldúlfs, stærsta útgerðarfélags á Íslandi, 30 þúsund pund á leynireikningi í Westminster Bank í London. Reikningurinn var skráður á vin hans Ole Lokvik, enda bönnuðu íslensk lög mönnum að eiga bankareikninga utanlands á þessum tíma. Aftur á móti átti Richard skjal í fórum sínum undirritað af vini hans sem staðfesti að peningarnir væru í raun og veru eign Richards.

Framreiknað samkvæmt breskri neysluvísitölu og yfirfært í íslenskan gjaldeyri nemur upphæðin á núvirði um 330 milljónum króna.

Þetta fé hafði Richard eignast með því að selja félagi, sem hann átti að helmingi með leynd, saltfskinn sem Kveldúlfur flutti til Suður-Evrópu og endurselja svo. Aldrei voru greiddir skattar af þessu.“

Hvað ætli margir Íslendingar eigi slíka reikninga í dag?