Reiðin í samfélaginu

Það hefur verið mikil reiði í samfélaginu allt frá hruni og ekkert bendir til að sú reiði sé eitthvað á undanhaldi, ef marka má umræður síðustu daga og vikna.

Haukur Magnússon frumkvöðull og verslunarmaður í Ávaxtabílnum gerir ástandið að umtalsefni á fésbókarsíðu sinni og segir:

„Ímyndið ykkur hvað margir fagna því að geta verið reiðir. Þegar upp koma mál, sem hægt er að vera reiður yfir, þá líður þessu fólki vel. Ef eitthvað upplýsist síðan, sem hefði átt að geta slegið á reiðina, þá hefur það engin áhrif - þetta fólk er búið að taka sér sína reiðistöðu og berst fyrir henni með kjafti og klóm.

Ég kýs að fjalla ekki um einstök mál hér, því það myndi afvegaleiða það sem ég er að hugsa. Það er þessi ofboðslega reiði í samfélaginu, sem er umhugsunarefnið.

Stjórnmálamenn verða að sjálfsögðu fyrir þessari reiði enda vart hægt að gefa betri höggstað á sér. En þeir eru svo sannarlega ekki saklausir af þessari reiði uppbyggingu í samfélaginu. Þegar hrunið varð, skapaði það að sjálfsögðu mikla reiði. Stjórnarandstaðan varð reið og þegar hún komst til valda, varð hin nýja stjórnarandstaða reiðari og reiðari með hverri tilraun sem nýja stjórnin kom upp með til að finna lausn á vandanum.

Tökum sem dæmi Icesavemálið - og enn aftur burtséð frá einstaka sjónarmiðum. Ég spyr bara, hvernig gat slíkt mál verið flokkaskipt? Hafði ekkert að gera með þessar rótgrónu stjórnmálaskoðanir um vinstri og hægri - eða miðjuna ef því er að skipta. Var einfaldlega afar flókið mál, sem hefði átt að leysa með samstöðu.

Þegar "vinstri stjórnin" fer frá og verður að stjórnarandstöðu, þá verður hún að sjálfsögðu alveg bálreið út í allt sem nýja stjórnin reynir til að færa hlutina í samt horf.

Þetta hefur ekkert með stjórnmálaskoðun að gera - áhyggjuefnið er hvort þessi reiði sé búin að taka sér slíka bólfestu í samfélaginu að hún sé komin til að vera. 

Reiði er fjandsamleg öllum, sem leyfa henni að ná tökum á sér. Hefur ekki aðeins vond sálfræðileg áhrif heldur einnig líkamleg. Hvað þá ef um stóran hluta þjóðar er að ræða.

Eigum við ekki allavega að reyna að létta aðeins á þessu?“

Á kaffistofunni segja menn amen á eftir efninu.