Mörgu er um manninn slett

A kaffistofuna barst nýskeð skemmtilegur kveðskapur um landskunnan lögmann og fv. dómara, sem ástæða er til að leyfa fleirum að njóta.

Lögmaðurinn og fyrrverandi hæstaréttardómarinn er Jón Steinar Gunnlaugsson, málafylgjumaður mikill og virkur gagnrýnandi á kerfið og tilhneigingu til þess að verja sjálft sig og tilvist sína. Á dögunum var Jón Steinar í heilmiklu spjalli á Hringbraut við Sigmund Erni Rúnarsson og meðal áhorfenda var Rúnar Kristjánsson, skáld á Skagaströnd.

Rúnar hefur svona fremur verið vinstra megin í lífinu og Jón Steinar meira í hægrinu, en skáldið var svo ánægðt með Jón Steinar í spjallinu við Sigmund Erni, að hann samdi nokkrar vísur.

„Það er tilbreyting fyrir gallharðan vinstri mann að yrkja með þessum hætti um gallharðan hægri mann,“ sagði Rúnar.

En hér fylgir svo kveðskapurinn.Ort að gefnu tilefni um 
Jón Steinar Gunnlaugsson 

Jón minn Steinar stæltur er,
stendur fast á sínu.
Fjörlífskosti frækna ber,
fylgir hægri línu.

Oft þó verði orðstír manns
umdeildur á Fróni,
finna má á ferli hans
frumkraft sem í ljóni.

Mörgu er um manninn slett,
má það heyra lengi.
Hann fór inn í Hæstarétt
en hlaut þar lítið gengi.

Fáleg viðbrögð fékk hann þar,
fæstu mátti breyta.
Allt þar merkti frosið far,
fylgja ráðuneyta.

Ekki vildi hann aðlagast
eða við það ríma,
að verða í kerfi að fjötrast fast
feyskju liðins tíma.

Frekar gat hann frelsið virt,
fann sinn mesta létti,
er hann kvaddi kerfið stirt,
komst frá Hæstarétti.

Enn í mál hann frækinn fer,
forðast engar kvaðir.
Flestir vita að hann er
átta barna faðir.

Heimaverkin hafa því,
hægt mun það að sanna,
ekki verið vanrækt í
veröld lífs og anna.

Áfram sæll á sinni leið,
sífellt hress í anda,
sjái hann málin sigurgreið,
sókndjarfur að vanda.

Arnarvængja þrunginn þyt
þrátt á lífsins sviði,
megi hann fyrir vaxtað vit
verða fólki að liði. 

Reynslubolti í röskum gír,
ráðakænn og djarfur, 
haldi velli hugarskýr,
heillum landsins þarfur.

Áfram mun því sitthvað sagt,
síst með tungu í hafti,
karlinn sá á sinni vakt
seint mun halda kjafti !
 
                                              Rúnar Kristjánsson