Stóra snertingarmálið

Athygli Kaffistofunnar var vakin á því að fimmtudaginn 14. janúar s.l. hafi verið kveðinn upp í Hæstarétti dómur í stórbrotnu sakamáli (mál nr. 266/2015). Maður nokkur hafði verið ákærður fyrir brot gegn almennum hegningarlögum með því að hafa staðið á gangstétt í námunda við skemmtistað í Kópavogi og handleikið á sér getnaðarliminn. Virðast ekki aðrir hafa séð þessi ósköp gerast en þrír lögreglumenn í bifreið sem þarna var í nánd. Maðurinn sagðist hafa verið að kasta af sér þvagi. Hafi hann í lokin hrist liminn til að „losa sig við síðustu 2,3,4 dropana“.

Á kaffistofunni datt fastagestum í hug að hugsanlega hefði manninum verið unnt að kasta af sér þvagi án þess að snerta á sér liminn. Þá hefði samt verið betra fyrir hann að vera lítið klæddur eða jafnvel nakinn, því annars hefði skapast aðkallandi hætta á að slettur hefðu komið á föt hans. Við mat á þessu sakarefni hlýtur svo einnig að koma til athugunar hversu saknæmt það sé almennt að karlmaður snerti á sér liminn. Virðist það í fljótu bragði standa honum nær að snerta hann heldur en öðrum, þó að í vissum tilvikum kunni hann að vilja óska eftir þátttöku annarra í snertingunni. Allir hljóta samt að sjá hve háskaleg svona snerting er fyrir tilfinningalíf annarra, svo ekki sé talað um þriggja lögregluþjóna sem fyrir tilviljun sjá snertinguna án þess þó að fá að taka þátt í henni.

Það vafðist því ekki fyrir héraðsdómaranum í þessu snertingarmáli að dæma manninn til refsingar fyrir þá glæpsamlegu háttsemi að snerta á sér liminn og hrista hann þannig að lögreglumenn sáu. Dæmdi hann manninn í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Sá dómari sem kvað upp dóminn hefur fengið á sig viðurnefni, sem helgast af því hversu fús hann hefur jafnan verið til að beita refsivaldi ríkisins gegn samborgurum sínum og þá án þess að draga af sér við ákvörðun refsinga.

En guði sé lof að til skuli vera Hæstiréttur! Rétturinn sá var ekki í neinum vandræðum með að vinda ofan af þessari vitleysu og sýkna manninn af ákærunni um að hafa snert sjálfan sig þegar hann hafði þvaglát. Heyr!