Áfall fyrir réttarríkið

Á kaffistofunni rákust menn á athyglisverða færslu Hreins Loftssonar, hæstaréttarlögmanns, útgefanda og fv. aðstoðarmanns forsætisráðherra.

Hreinn setti færsluna á Facebook-síðu sína og er birt hér í heilu lagi:

„Eftir lestur greinar Jóns Steinars Gunnlaugssonar „Réttarríki?“ tók ég mig til og las dóminn yfir Lárusi Welding fyrrverandi forstjóra Glitnis banka sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur rétt fyrir jólin. 

Eftir þann lestur er ég sannfærður um að það er eitthvað að hjá þeim dómstól sem kveður upp slíkan dóm. Ég er algjörlega sammála Jóni Steinari um þá niðurstöðu að dómurinn sé „mikið áfall fyrir þá sem vilja reyna að halda uppi réttarríki á Íslandi,“ svo vitnað sé orðrétt í greinina.

Lárus var dæmdur fyrir umboðssvik á grundvelli 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem er það lagaákvæði sem á við um slík brot. Orðalag ákvæðisins er svohljóðandi: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“

Í greinargerð með þessu ákvæði laganna – sem hefur verið óbreytt í 75 ár – er sérstaklega vakin athygli á að ákvæðið eigi ekki einungis við um eiginlegt umboð, heldur einnig aðra aðstöðu til að gera eitthvað er bindur annan mann. Seinni verknaðarþáttur ákvæðisins, „hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi“, gerir beinlínis ráð fyrir mistnotkun stöðuumboðs. Í þessu felst að hugtakið „umboð“ er þrengra en orðalag ákvæðisins.

Í ljósi framangreinds hefur einn helsti sérfræðingur landsins á þessu sviði, Jónatan Þórmundsson, fv. prófessor í refsirétti, sett fram skilgreiningu á umboðssvikum sem kennd er í háskólunum og hljóðar á þennan veg: „Umboðssvik fela í sér einhliða og ólögmæta misnotkun aðstöðu eða trúnaðar til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem annar maður eða lögaðili verður bundinn við, enda sé verkið af ásetningi unnið og í auðgunarskyni.“ 

Í þessari skilgreiningu felst, (1) að ásetningur til að misnota aðstöðu eða trúnað verður að vera til staðar og (2) misnotkunin verður að miða að auðgun fyrir viðkomandi eða einhvern annan. Bæði þessi atriði verða að vera til staðar svo unnt sé að sakfella fyrir brot gegn 249. greininni og saksóknara ber að sanna að svo hafi verið.

Gekk ekki misnotkun til

Varðandi fyrri þáttinn virðist mér veigamikil rök fyrir því að Lárus hafi alls ekki gengið það til að „misnota“ aðstöðu sína til tjóns fyrir bankann. Öðru nær. Honum virðist hafa gengið það til að draga úr áhættu bankans með lánveitingu til félagsins Stím í nóvember 2007. Framburður hans sjálfs og vitna bendir til að svo hafi verið. 

Ákvæði 249. gr. er tvíþætt eins og að framan greinir. Það felur í sér hið almenna stöðuumboð sem er svipað því sem á ensku er nefnt „fiduciary duty“. Það merkir að með starfi forstjóra í bankastofnun fylgir ábyrgð sem er ekki að öllu skrifuð í lög eða reglugerðir heldur lýtur að þeim skyldum sem tengjast þeim trúnaði sem fylgir því að vera fjárhaldsmaður, sjá til þess að rekstur og fjárreiður sem viðkomandi ber ábyrgð á sé almennt í lagi. 

Lárus virðist hafa verið að sinna þessu verki sínu og því verið í góðri trú þegar hann ásamt öðrum nefndarmönnum í áhættunefnd bankans tók ákvörðun um lánveitinguna ári fyrir hrun bankakerfisins haustið 2008. Erfitt er að ímynda sér að hann hafi þá verið í sambærilegri örvæntingu um framtíð bankans sem einkenndi verk sumra annarra bankastjóra sem hlotið hafa dóma fyrir umboðssvik á undanförnum misserum í aðdraganda hrunsins.

Dómurinn yfir Lárusi hvílir á þeirri forsendu að hann hafi farið út fyrir hið eiginlega umboð til lánveitinga en slíkt umboð er á ensku nefnt „mandate“. Hann hafi aðeins haft heimild til að lána einum aðila tiltekna fjárhæð en hann hafi farið út fyrir þá heimild. 

Í því efni verður að hafa í huga annars vegar að hann var að rækja hið almenna umboð sitt með lánveitingunni og hins vegar að ekki var um stórvægilegt frávik að ræða frá viðmiðunarmörkunum í því samhengi sem þarna var um að ræða. Þegar hann gerði sér grein fyrir frávikinu var lánveitingin borin undir stjórn bankans og samþykkt af henni eftirá.

Í mínum huga er ekki hægt að sakfella mann á þessum grundvelli fyrir umboðssvik. Í öllu falli er um mikið vafamál að ræða. Vafinn er það mikill að það hefði borið að sýkna hann vegna meginreglunnar um að allan vafa beri að meta sakborningi í vil.

Jón Steinar Gunnlaugsson fer ekki mörgum orðum um framangreind atriði í grein sinni. Meginefni greinar hans lýtur að því skilyrði 243. gr. almennra hegningarlaga að fyrir brot gegn ákvæði 249. gr. laganna skuli aðeins refsa að það sé framið í auðgunarskyni. Færir hann afar sannfærandi rök fyrir því að lánveitingin og viðskiptin sem tengdust henni hafi dregið úr fjárhagslegri áhættu Glitnis upp á a.m.k. tvo milljarða króna en ekki aukið við hana eins og refsiákvæðið gerir kröfu um. Bendir Jón Steinar á að Lárus Welding hafi ekki haft neinn persónulegan ávinning af lánveitingunni og um það hafi ekki verið deilt.

Ég þekki ekki Lárus Welding nema mjög lítillega. En eftir að hafa lesið dóminn og í ljósi greinar Jóns Steinars Gunnlaugssonar hef ég mikla samúð með honum og fjölskyldu hans. Þetta er ungur og öflugur einstaklingur sem lent hefur í þessum hremmingum og ég á þá von heitasta honum til handa að Hæstiréttur Íslands sýkni hann þegar málið verður tekið þar fyrir.“