12. maí 2010 - 08:00Steingrímur Sævarr Ólafsson

Ein fjölmargra sjálfsmynd af Van Gogh
Fyrir áhugamenn um listir og söfn þá er af nógu að taka í Amsterdam. Meira að segja fyrir mann eins og mig, sem telst nú seint í flokki áhugasömustu manna um málverk og listasögu, er aðdráttarafl safnanna í Amsterdam of mikið og ég stenst aldrei mátið að kíkja inn á safn eða tvö.
Það yrði að æra óstöðugan að birta lista yfir öll þau söfn sem í borginni eru. Ég ætla því að leyfa mér að nefna bara örfá til sögunnar, en það eru líka söfn sem óhætt er að segja að jafnvel ferðamaðurinn í helgarferð ætti að geta eytt tíma í að heimsækja milli verslunarferða og veitingstaða.
Ríkissafnið geymir fjölda ómetanlegra listaverka sem áhugamenn um allan heim leggja mikið á sig til að að skoða og þar er auðveldlega hægt að eyða heilum degi án þess að láta sér leiðast. Að rölta þar á milli og drekka í sig hvert meistaraverkið á fætur öðru er einhver besta andlega næring sem hægt er að finna og hér verður ekki nægilega sterkt að orði kveðið með hversu ómetanleg reynsla það er að sjá og upplifa með eigin augum þau mannanna verk sem hæst ber á listasviðinu. Má minna á Rembrandt í þessu sambandi?
Og það á ekki síður við um Van Gogh safnið. Stærsta safn málverka eftir Vincent van Gogh er þar að finna og auðveldlega er hægt að rekja sig í gegnum feril þessa einstaka listamanns, þróun hans seem listamanns og bera saman við verk annarra samtímalistamanna. Þar má einnig finna teikningar hans, bréf og yfirlit yfir áhrifavalda, samferðarmenn og vini. Er hægt að sleppa þessu safni? Mitt svar er einfalt; nei.
Meðal annarra áhugaverðra safna má nefna
Andspyrnusafnið sem geymir blóðuga en mikilvæga sögu andspyrnuhreyfingar Hollendinga gegn hernámi nasista í síðari heimsstyrjöldinni, hús Önnu Frank,
Töskusafnið víðfræga og síðast en ekki síst
Hasssafnið. Þar fá gestir og gangandi fræðslu og upplýsingar um sögu og notkun kannabisplöntunnar, en gestir til Amsterdam komast fljótt að því að umburðarlyndi gagnvart efninu hefur aldeilis sett sitt mark á borgina. Læknisfræðileg, trúarleg og mennilegar notkun kannabisefnisins, umhverfisleg, landbúnaðarleg og iðnaðarleg hliðin er einnig upplýst. Söfn sem þetta er erfitt að finna á öðrum stöðum en í Amsterdam.