08. jún. 2010 - 11:00Snæfríður Ingadóttir

8 hlutir sem þú verður að smakka í Amsterdam: Má bjóða þér smá bleikt á brauðið?

Litríkt sykurskraut er notað sem álegg ofan á brauð í Hollandi.

Litríkt sykurskraut er notað sem álegg ofan á brauð í Hollandi.

Litríkt kökuskraut ofan á brauð, pönnukökur með sírópi og hollenskur lakkrís er meðal þess sem ferðamenn í Hollandi verða að smakka.

Sykurskraut á brauðið
Hagelslag chocoladevlokken(súkkulaði sykurskraut) og  muisjes (sykurhúðaður anís) er vinsælt álegg á morgunverðarborðið. Þetta álegg, sem lítur út eins og kökuskraut, er stráð ofan á brauðsneiðar með smjöri og bæði börn og fullorðnir elska það. Það er gamall siður að færa vinum kruðu með muisjes ofan á þegar viðkomandi eignast barn; ljósblátt muisjes fyrir strák en bleikt muisjes fyrir stelpur.

Síld
Í stað pylsuvagna má víða finna “síldarvagna” og eru Hollendingar afar hrifnir af þessu silfri hafsins. Síldin, sem er velt upp úr hráum lauk, er borðuð í heilu lagi. Menn taka hana upp á sporðinum og sporðrenna henni eins og selir með því að halla höfðinu vel aftur.

Vla mjólkurbúðingur

Þessi búðingur er kannski eins frægur í Hollandi og skyrið á Íslandi. Búðingurinn er seldur í fernum og það er hægt  að fá hann með allskonar bragði.

Stroopwafel
Stroopwafel- kökurnar eru meðlæti sem svíkur engan. Kökurnar eru á stærð við bollaop og eru þær lagaðar á bollann svo þær hitni frá kaffinu eða teinu. Kökurnar eru svona týpísk “túristavara” til þess að taka með heim frá Hollandi og fást t.d. á flugvellinum.

Zoute drop

Hollenskur lakkrís fæst bæði saltur og sætur og er mjög góður.

Erwtensoep

Matarmikil baunasúpa með kjöti, fleski og grænmeti. Er á borðum hjá  Hollendingum heima við sérstaklega þegar kólna fer í veðri. Verður bara betri eftir því sem hún er hituð oftar upp. Fæst víða á veitingastöðum.

Súrínamískur matur
Í Amsterdam má finna sérstaka súrínamíska skyndibitastaði en Súrinam er gömul nýlenda Hollendinga í Suður- Ameríku. Súrínamísk matarhefð er því sterk í landinu enda fékk Súrinam ekki sjálfstæði fyrr en 1975. Prófið sérstaklega “Moksi meti” (kjötréttur sem samanstendur af nokkrum kjöttegundum, anís, hrísgrjónum og brúnbauna sósu) og Roti (mjög þunnar flatkökur).

Hollenskar pönnukökur
Hollendingar borða pönnukökur jafn oft og Íslendingar borða pitsu. Pönnukökurnar eru eins og hver annar skyndibiti og margar fjölskyldur hafa þær í kvöldmat og hrúga þá fleski, eplum, osti o.fl. ofan á og hella svo dökku sýrópi (stroop) yfir. Pönnukökurnar eru einnig borðaðar sem sætindi, þá með kirsuberjum, ávöxtum, rjóma og fleiru.  Hollenskar pönnukökur eru eins og stórar íslenskar lummur og fást á kaffihúsum eða á þar til gerðum pönnukökuhúsum, „Pannenkoekenhuis“.

Left Right28.jún. 2010 - 06:10 Snæfríður Ingadóttir

Töff hönnunarhótel í Amsterdam: Klósettið út á miðju gólfi í gegnsæju röri -MYNDIR

Á Citizen M hótelinu í Amsterdam pissar maður í klósett sem er staðsett í gegnsærri súlu út á miðju gólfi á hótelherberginu. Hönnunin er smart, en þú vilt kannski ekki deila slíku herbergi með hverjum sem er. Á Citizen M hótelinu í Amsterdam snýst allt um rétta „lúkkið“.  Herbergin eru pínuítil en afar nýtískuleg með opnu salerni og sturtu. Með hverju herbergi fylgir lítið tæki sem passar upp á að rétta stemmingin sé á staðnum.

21.jún. 2010 - 13:00 Snæfríður Ingadóttir

Fullkominn dagur í Amsterdam: Framúrstefnulegir skartgripir, bíó og pönnukökur

Það er margt spennandi að gerast í hönnun í Amsterdam, ekki síst í skartlist. Mörg skartgripagallerí selja afar framúrstefnulega hluti. „Allir sem fara til Amsterdam verða að fá sér hollenska pönnuköku með stroop,“ segir Rannveig Gissurardóttir kennari í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum. Sjálf þræðir hún líka alltaf skartgalleríin þegar hún er í borginni og fer gjarnan í bíó.
14.jún. 2010 - 17:30 Steingrímur Sævarr Ólafsson

Hvað er hægt að gera í Amsterdam?

Síkjasiglingar eru frábær leið til að skoða Amsterdam Fyrir utan frábær söfn, fjölbreytta flóru veitingastaða og ótrúlegt magn skemmtistaða og pöbba - er fjölmargt hægt að gera í hinni margbreytilegu Amsterdamborg. Þar er fátt sem er ómögulegt.
22.maí 2010 - 11:45 Steingrímur Sævarr Ólafsson

Amsterdam – Frá kaffibolla til „kaffihúsa“ og allt þar á milli

Þú veist alveg hvenær þú ert í Rauðahverfinu Viltu bjór, Sjéniver, eða  reykja kannabis? Viltu sitja á útikaffihúsum og sötra léttvín, fá þér ekta hollenskan bjór eða dansa við dúndrandi diskó eða teknó?  Rjúkandi espresso eða borða hasskökur?  Það er sama hverju leitað er að, Amsterdam býður upp á það í skemmtanalífinu.
19.maí 2010 - 08:30 Snæfríður Ingadóttir

Stærsti flóamarkaður Amsterdam: Inni á veturna, úti á sumrin

Um 700 sölubásar eru á stærsta flóamarkaði Amsterdam, IJ-Hallen. Einu sinni í mánuði er risastór flóamarkaður haldinn í norðurhluta Amsterdam. Markaðurinn er stærsti flóamarkaður borgarinnar og þar er hægt að kaupa allt milli himins og jarðar. Ekki spillir umhverfið fyrir þar sem markaðurinn er haldinn í iðnaðarhverfi sem gaman er að skoða.
16.maí 2010 - 08:00 Steingrímur Sævarr Ólafsson

Amsterdam – Borg bragðlaukanna

Persónuleg þjónusta er í hávegum höfð á Blue Pepper Viltu indónesískan, argentínskan, tælenskan, japanskan, indverskan eða hollenskan sælkeramat?  Safaríkar steikur eða gómsæta grænmetisrétti? Þá þarftu ekki að leita lengi í Amsterdam því fáar borgir hafa jafn marga og jafn fjölbreytta veitingahúsaflóru á jafn litlu svæði.  Það eru yfir 1000 veitingastaðir í borginni sem þjóna bragðlaukunum eins og best verður á kosið og verðið er jafn mismunandi og staðirnir eru margir.
12.maí 2010 - 08:00 Steingrímur Sævarr Ólafsson

Amsterdam – Menningar-, safna- og listaborg

Ein fjölmargra sjálfsmynd af Van Gogh Fyrir áhugamenn um listir og söfn þá er af nógu að taka í Amsterdam.  Meira að segja fyrir mann eins og mig, sem telst nú seint í flokki áhugasömustu manna um málverk og listasögu, er aðdráttarafl safnanna í Amsterdam of mikið og ég stenst aldrei mátið að kíkja inn á safn eða tvö.
10.maí 2010 - 15:00 Steingrímur Sævarr Ólafsson

Amsterdam – Litla stóra borgin

Þeir kunna að nota ljós og liti í Amsterdam Það er óhætt að segja að fáar borgir í Evrópu séu jafn líflegar og stífluborgin við ánna Amstel. Fyrir þá sem ekki hafa leitt hugann að því, þá er nafnið Amsterdam einmitt dregið af orðunum „dam“ eða stífla og ánni Amstel – og ætti því kannski frekar að heita Amsteldam.
08.maí 2010 - 13:00 Snæfríður Ingadóttir

Kaffi og hvaðeina: Kaffihús þar sem allt er til sölu

EItt skemmtilegasta kaffihús Amsterdam er Latei. Þar er allt til sölu. Á kaffihúsinu Latei í Amsterdam færðu ekki bara gott kaffi, kökur, súpur og samlokur heldur geturðu nánast keypt allt sem er þar inni. Borðin, bollarnir, ljósin, myndirnar á veggnum – allt er til sölu.