14. jan. 2011 - 08:00Snæfríður Ingadóttir

Zetor í Helsinki: Sveitaleg túristagildra sem svínvirkar - MYNDIR

Réttur nr. 15: Pylsa í sánabaði. Matseðill staðarins er á 19 tungumálum, þar á meðal á íslensku.

Réttur nr. 15: Pylsa í sánabaði. Matseðill staðarins er á 19 tungumálum, þar á meðal á íslensku. Pressan/Snæ

Flestir ferðamenn í leit að finnskum mat í Helsinki rata inn á veitingastaðinn Zetor sem er sannkölluð sveit í borg. Ekki ómerkari menn en borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, hafa snætt þar enda maturinn, innréttingarnar og stemmingin á staðnum einstök.

Ferðapressan fór inn á veitingastaðinn í haust uppfull af fordómum en varð fyrir óvæntri ánægju.

Staðurinn er jú týpískur túristastaður sem minnst er á í öllum ferðamannabæklingum um Helsinki og matseðill staðarins er á hvorki meira né minna en 19 tungumálum – þar á meðal íslensku! Það leit því út fyrir að staðurinn væri svona týpísk túristagildra.

Undarlegar innréttingar og ósamstæð hnífapör
Þetta var á föstudagskvöldi og það óvænta við staðinn var að hann var alls ekki uppfullur af ferðamönnum heldur Finnum í svaka stuði og að heimamenn sæki stað sem stílar svona mikið inn á túrista eru vissulega meðmæli út af fyrir sig.

Maturinn var líka ótrúlega góður. Matseðill staðarins samanstendur af frekar sveitalegum mat eins og kjötkássu, kjötbollum og steiktri lifur. Allt er vel útilátið og enginn fer því svangur út. Við prófuðum réttina „Pylsa í sánabaðsfötu“ og  „Osta- og beikonkryddaður kjúklingur“ og vorum ánægð með hvorutveggja. Þjónustan var líka þægileg og góð.

Innréttingar staðarins eru kafli út af fyrir sig og eru vægast sagt afar frumlegar. Stemmingin er öll hin heimilislegasta. Það eru krumpaðir köflóttir dúkar á borðum og eldhúsrúllustandar. Hnífapörin eru ekki lögð á borð heldur ná gestir sér sjálfir í þau í krús á borðinu og ekkert er samstætt. Uppstoppaðar hænur og hreindýr, mjólkurbrúsar, traktorar í heilu lagi, tunnur og trjádrumbar eru meðal þess sem prýða staðinn.

Hægt er að velja á milli sæta á básum, borðum og við barinn, sem eru tveir. Sjálf sátum við inn í einskonar hænsnabúri og nutum matarins undir taktföstu  þungu finnsku rokki sem kom frá plötusnúði sem staðsettur var í einu horni staðarins en þar var líka ágætis dansgólf. Finnarnir voru í rokna stuði þarna og sungu með og dönsuðu þó klukkan væri ekki orðin 10. Þetta er því kjörinn staður fyrir þá sem vilja sameina mat og djamm sem og þá sem nenna ekki að tala of mikið við samferðamenn sína því bæði er nóg að skoða fyrir augað og bassinn yfirgnæfir samræður að miklu leyti.   

Föt fyrir reykingafólk
Eins og á öðrum veitingastöðum  borgarinnar er bannað að reykja inni en staðurinn býður reykingamönnum hinsvegar upp á stórt og gott útisvæði þar sem hægt er að tylla sér við traktor með rettu og glas. Eins er reykingafólki boðin yfirhöfn að láni um leið og farið er út á reykingasvæðið og því þarf fólk ekki að fara í fatahengið og ná í eigin yfirhafnir vilji það rétt skjótast í smók.

Í heildina er þetta skemmtilegur staður með kúreka-og sveitasniði, einskonar sveit í borg. Það sem í upphafi leit út fyrir að vera túristagildra af verstu gerð breyttist í áhugaverða upplifun. Heimilisfang staðarins er: Mannheimintie 3-5.

 
Left Right06.des. 2010 - 08:00 Snæfríður Ingadóttir

Á djamminu í Helsinki: Magnaðir mojito-drykkir og dans upp á borðum -MYNDBAND

Stuðið er á Cuba Bar & Café í Helsinki. Þar fást mojito-drykkir með hinum undarlegustu bragðefnum, ískaldir og æðislegir.  Mojito-aðdáendur elska Cuba Bar & Café í Helsinki. Þar er hægt að fá fjölmargar mojito-tegundir, dansa upp á borðum og djamma fram á nótt. Ferðapressan kíkti á þennan vinsæla skemmtistað.
20.nóv. 2010 - 08:00 Snæfríður Ingadóttir

Hjólandi um Helsinki: Ferðamenn fá töff sixtís hjól til afnota

Finnsku Jopo reiðhjólin komu fyrst á markað árið 1965. Þau voru endurhönnuð árið 2000 og eru hrikalega vinsæl í heimalandinu enda fyrirtaks borgarhjól. Hér er greinahöfundur á einu slíku í Helsinki. Margar stórborgir hvetja gesti sína til hjólreiða og lána þeim hjól. Helsinki tekur sérstaklega vel á móti gestum sínum hvað þetta varðar því mörg hótel borgarinnar lána gestum sínum töff finnsk reiðhjól þeim að kostnaðarlausu. 
12.nóv. 2010 - 08:00 Snæfríður Ingadóttir

Notaðir múmínálfar, nýtt hreindýraskinn og gamalt góss í Helsinki - MYNDBAND

Dillandi mannlíf og dót á Hakaniemi markaðnum. Það er hægt að gera góð kaup á ýmsum hlutum í Helsinki ekki síst ef markaðir eru eltir uppi. Ferðapressan fór á Hakaniemi markaðinn og mælir sterklega með honum.
12.okt. 2010 - 01:30 Snæfríður Ingadóttir

Hörkugóð kaup í Helsinki: Hér færðu hönnunarvörur á hagstæðu verði - MYNDBAND

Timo Sarpaneva hannaði þessa kertastjaka sem kallast Festivo fyrir Iittala árið 1966. Stjakarnir eru dæmi um eftirsótta klassíska finnska hönnunarvöru en þeir fást notaðir á ágætis verði í Modern Design. Það er ekki hægt að fara til Helsinki án þess að koma heim með finnska hönnun. Hagsýnir fagurkerar geta gert virkilega góð kaup í borginni á merkjum á borð við  Iittala, Arabia, Marimekko og  Alto  - það er að segja kaupi þeir vörurnar notaðar. Ferðapressan segir þér hvert þú átt að fara.
11.sep. 2010 - 09:00 Snæfríður Ingadóttir

Karaókí-taxi í Helsinki: Syngdu „Hard Rock Hallelujah“ alla leiðina heim!

Heimferð í þessum bíl gæti orðið dýr, sérstaklega ef taka þarf auka rúnt til þess að klára lagið. Diskókúla er í loftinu og gott lagaúrval. Ef þú hefur gaman af karaókí þá er Helsinki rétta borgin fyrir þig. Ekki nóg með að karaókíbarir séu þar á hverju horni heldur er líka hægt að rúnta um á sérstökum karaókí-leigubílum þar sem farþegar geta  sungið alla leiðina heim.