12. nóv. 2010 - 08:00Snæfríður Ingadóttir

Notaðir múmínálfar, nýtt hreindýraskinn og gamalt góss í Helsinki - MYNDBAND

Dillandi mannlíf og dót á Hakaniemi markaðnum.

Dillandi mannlíf og dót á Hakaniemi markaðnum. Pressan/Snæ

Það er hægt að gera góð kaup á ýmsum hlutum í Helsinki ekki síst ef markaðir eru eltir uppi. Ferðapressan fór á Hakaniemi markaðinn og mælir sterklega með honum.
 
Hakaniemi markaðurinn er haldinn utandyra fyrsta sunnudag hvers mánaðar milli kl.10 og 17. Þar má kaupa allskonar hluti; mat, fatnað, skran úr geymslum, handverk og gjafavöru. Til að mynda fást gamlar múmínálfafígúrur þarna á fínu verði og tréskartgripir. Auk þess má tylla sér niður í veitingatjöldum og fá sér kaffisopa, steiktan fisk og nýbakaðar vöfflur.

Kauppatori/Salutorget  er frægasti markaður Helsinkis og fara flestir ferðamenn beint þangað í leit að markaðsstemmingu. Mér fannst sá  markaður hinsvegar vera afar „túristalegur“. Þar má vissulega finna gott úrval af minjagripum og markaðurinn er staðsettur á skemmtilegum stað með útsýni yfir höfnina en miðað við Hakaniemi markaðinn þá vantaði alla ekta stemmingu á svæðið sem fékkst beint í æð á Hakaniemi.

Vöruúrvalið er líka meira á Hakaniemi markaðnum, mikið af eldri Finnum og skrýtnum týpum á rölti og engir brjálaðir sölumenn á svæðinu sem éta mann lifandi.  

Fyrir þá sem vilja upplifa finnskt mannlíf þá er Hakaniemi markaðurinn vel þess virði að heimsækja - en munið hann er einungis haldinn fyrsta sunnudag hvers mánaðar.

Ertu í verslunarhugleiðingum í Helsinki? Kíktu þá á þetta HÉR.

 


Left Right



14.jan. 2011 - 08:00 Snæfríður Ingadóttir

Zetor í Helsinki: Sveitaleg túristagildra sem svínvirkar - MYNDIR

Réttur nr. 15: Pylsa í sánabaði. Matseðill staðarins er á 19 tungumálum, þar á meðal á íslensku. Flestir ferðamenn í leit að finnskum mat í Helsinki rata inn á veitingastaðinn Zetor sem er sannkölluð sveit í borg. Ekki ómerkari menn en borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, hafa snætt þar enda maturinn, innréttingarnar og stemmingin á staðnum einstök.
06.des. 2010 - 08:00 Snæfríður Ingadóttir

Á djamminu í Helsinki: Magnaðir mojito-drykkir og dans upp á borðum -MYNDBAND

Stuðið er á Cuba Bar & Café í Helsinki. Þar fást mojito-drykkir með hinum undarlegustu bragðefnum, ískaldir og æðislegir.  Mojito-aðdáendur elska Cuba Bar & Café í Helsinki. Þar er hægt að fá fjölmargar mojito-tegundir, dansa upp á borðum og djamma fram á nótt. Ferðapressan kíkti á þennan vinsæla skemmtistað.
20.nóv. 2010 - 08:00 Snæfríður Ingadóttir

Hjólandi um Helsinki: Ferðamenn fá töff sixtís hjól til afnota

Finnsku Jopo reiðhjólin komu fyrst á markað árið 1965. Þau voru endurhönnuð árið 2000 og eru hrikalega vinsæl í heimalandinu enda fyrirtaks borgarhjól. Hér er greinahöfundur á einu slíku í Helsinki. Margar stórborgir hvetja gesti sína til hjólreiða og lána þeim hjól. Helsinki tekur sérstaklega vel á móti gestum sínum hvað þetta varðar því mörg hótel borgarinnar lána gestum sínum töff finnsk reiðhjól þeim að kostnaðarlausu. 
12.okt. 2010 - 01:30 Snæfríður Ingadóttir

Hörkugóð kaup í Helsinki: Hér færðu hönnunarvörur á hagstæðu verði - MYNDBAND

Timo Sarpaneva hannaði þessa kertastjaka sem kallast Festivo fyrir Iittala árið 1966. Stjakarnir eru dæmi um eftirsótta klassíska finnska hönnunarvöru en þeir fást notaðir á ágætis verði í Modern Design. Það er ekki hægt að fara til Helsinki án þess að koma heim með finnska hönnun. Hagsýnir fagurkerar geta gert virkilega góð kaup í borginni á merkjum á borð við  Iittala, Arabia, Marimekko og  Alto  - það er að segja kaupi þeir vörurnar notaðar. Ferðapressan segir þér hvert þú átt að fara.
11.sep. 2010 - 09:00 Snæfríður Ingadóttir

Karaókí-taxi í Helsinki: Syngdu „Hard Rock Hallelujah“ alla leiðina heim!

Heimferð í þessum bíl gæti orðið dýr, sérstaklega ef taka þarf auka rúnt til þess að klára lagið. Diskókúla er í loftinu og gott lagaúrval. Ef þú hefur gaman af karaókí þá er Helsinki rétta borgin fyrir þig. Ekki nóg með að karaókíbarir séu þar á hverju horni heldur er líka hægt að rúnta um á sérstökum karaókí-leigubílum þar sem farþegar geta  sungið alla leiðina heim.