12. nóv. 2010 - 08:00Snæfríður Ingadóttir

Dillandi mannlíf og dót á Hakaniemi markaðnum. Pressan/Snæ
Það er hægt að gera góð kaup á ýmsum hlutum í Helsinki ekki síst ef markaðir eru eltir uppi. Ferðapressan fór á Hakaniemi markaðinn og mælir sterklega með honum.
Hakaniemi markaðurinn er haldinn utandyra fyrsta sunnudag hvers mánaðar milli kl.10 og 17. Þar má kaupa allskonar hluti; mat, fatnað, skran úr geymslum, handverk og gjafavöru. Til að mynda fást gamlar múmínálfafígúrur þarna á fínu verði og tréskartgripir. Auk þess má tylla sér niður í veitingatjöldum og fá sér kaffisopa, steiktan fisk og nýbakaðar vöfflur.
Kauppatori/Salutorget er frægasti markaður Helsinkis og fara flestir ferðamenn beint þangað í leit að markaðsstemmingu. Mér fannst sá markaður hinsvegar vera afar „túristalegur“. Þar má vissulega finna gott úrval af minjagripum og markaðurinn er staðsettur á skemmtilegum stað með útsýni yfir höfnina en miðað við Hakaniemi markaðinn þá vantaði alla ekta stemmingu á svæðið sem fékkst beint í æð á Hakaniemi.
Vöruúrvalið er líka meira á Hakaniemi markaðnum, mikið af eldri Finnum og skrýtnum týpum á rölti og engir brjálaðir sölumenn á svæðinu sem éta mann lifandi.
Fyrir þá sem vilja upplifa finnskt mannlíf þá er Hakaniemi markaðurinn vel þess virði að heimsækja - en munið hann er einungis haldinn fyrsta sunnudag hvers mánaðar.
Ertu í verslunarhugleiðingum í Helsinki? Kíktu þá á þetta HÉR.