22. júl. 2009 - 17:46Ágúst Borgþór Sverrisson

Vildi ekki flytja frá Íslandi - Pressan spjallar við aðalleikkonuna úr Menn sem hata konur

Dansk-sænska kvikmyndin Menn sem hata konur er frumsýnd nú um stundir á Íslandi en myndin hefur vakið mikla athygli víða um heim allt frá því hún var frumsýnd í Svíþjóð í febrúar. Aðalleikkonan í myndinni, Noomi Rapacé, er af þeim sökum að breytast úr tillölulega lítt þekktri sænskri leikkonu í alþjóðlega kvikmyndastjörnu.

Blaðamaður Pressunnar hitti Noomi að máli í sólbjörtum glerskála á 8. hæð Nordica hótelsins við Suðurlandsbraut þar sem er frábært útsýni yfir borgina auk fjallasýnar, og spurði leikkonuna fyrst út í tengsl hennar við Ísland. Þess má geta að Noomi talar prýðilega íslensku og fór viðtalið að mestu leyti fram á móðurmálinu. Stundum hikaði Noomi við og spurði út í rétta málnotkun, og einstaka sinnum var skipt yfir í ensku. - Noomi er blátt áfram og vingjarnleg í framkomu, hún kom blaðamanni fyrir sjónir sem einlæg manneskja með sannkallaða ástríðu fyrir starfi sínu en minni áhuga á athyglinni og glamúrnum sem því fylgir.

„Ég bjó með móður minni og stjúpföður að Flúðum frá 5-8 ára aldurs en mamma var gift íslenskum manni. Ég vildi alltaf búa á Íslandi, ég vildi vera Íslendingur en ekki Svíi, og varð mjög ósátt þegar þau ákváðu að flytja aftur til Svíþjóðar. En svo var ég í sveit hjá ömmu minni á Flúðum öll sumur frá því ég var 9 til 14 ára.“

Blaðamaður víkur að persónunni Lisbeth Salander sem Noomi gerir svo eftirminnileg skil í kvikmyndinni: „Ég las einhvers staðar að þú sem leikkona laðaðist að dekkri hliðum mannlífsins. Engu að síður hlýtur hlutverk Salanders að hafa verið mjög erfitt [í myndinni eru t.d. mjög sláandi ofbeldis- og kynlífsatriði]?

„Jú, auðvitað var það erfitt. En það er alltaf þannig að þegar ég er að lesa handrit til að kynna mér hlutverk og finn persónu sem mér finnst að sé ómögulegt að túlka að þá verð ég alltaf að taka hlutverkið! Þá verð ég að gera þetta! Og það var þannig með Salander. Fyrst las ég handrit sem Englendingur hafði skrifað og ég vildi breyta því. Mér fannst hún of veikgeðja í því handriti, ég vildi hafa hana sterka og ég vildi ekki að hún væri með anorexíu, mér fannst það ekki passa við öll aksjónatriðin í myndinni, allt sem hún gerir í átökum. En annars vinn ég alltaf þannig - og þetta hlutverk var engin undantekning - að ég þarf að finna hluta af persónunni í mér sjálfri. Ég þarf að kafa í sjálfa mig og verða þessi persóna. Ég get bara leikið á tilfinningalegum forsendum, ég get ekki gert það bara tæknilega.“

 Blaðamanni verður af og til starsýnt á handleggi Noomi, sem eru sterklegir, hún er einhvern veginn í senn annars vegar grönn og fíngerð og hins vegar kraftaleg. „Ertu sterk, eins og Salander?“

„Já og svo undirbjó ég mig líka þannig fyrir hlutverkið. Með réttu mataræði og stífum æfingum, til dæmis tie boxing og kick boxing.“

Við ræðum áfram um þessa eftirminnilegu persónu, Lisbeth Salander, og þegar blaðamaður hættir sér of langt í slíku tali, setur Noomi vísifingur fyrir munninn til merkis um að við megum ekki ljóstra upp of miklu um efni myndarinnar af tillitssemi við væntanlega áhorfendur, en óhætt er að segja að myndin er bæði hörkuspennandi og verulega sláandi á köflum, beinlínis óþægileg áhorfs. En freistandi er að leyfa því að fljóta með að Noomi segir að persónan sem hún leikur svo vel, Lisbeth Salander, taki mikla áhættu þegar hún hleypir ástinni inn í líf sitt. Hún hafi þróað með sér gífurlega hörku sem er hennar leið að lifa af eftir ofbeldisfulla æsku. Það sé óvenjulegt og hættulegt fyrir hana að verða ástfangin og þess vegna sé eðlilegt að hún nálgist ástina á dálítið sérkennilegan hátt, hún hagi sér kannski öðruvísi en aðrir við slíkar aðstæður.

En blaðamaður vill beina talinu að Noomi sjálfri. „Þú varst þar til nýlega frekar lítið þekkt sænsk leikkona en ert núna að verða alþjóðleg stjarna. Hvað finnst þér um það?“

„Mig hefur aldrei langað til að verða celebrity. En ég elska vinnuna. Mér finnst stundum þreytandi að eyða miklum tíma í viðtöl og að koma fram í sjónvarpi og þess háttar. En það eru líka góðar hliðar á þessu og þess vegna er ég að reyna að finna ákveðinn balans, hvað ég á að leyfa sviðsljósinu að vera mikið á mér. Núna er ég til dæmis búin að fá hlutverk í franskri mynd sem ég er mjög spennt fyrir, bara út á þessa athygli sem ég hef fengið, án hennar hefði leikstjórinn ekki vitað um mig. En annars er ég mjög sjálfsgagnrýnin, eftir hverja mynd finn ég í huganum alltaf eitthvað sem ég hefði getað gert betur og er þá ákveðin í að hafa þá þætti í huga í næstu mynd. Ég held að þetta eigi ekki eftir að breytast hjá mér.“

 „Hvernig hlutverk leikurðu í frönsku myndinni?“

 „Ég leik konu í glæpafjölskyldu. Bróðir hennar er glæpaforingi.“

Það kemur eftirvæntingarglampi í augu Noomi sem augljóslega er mjög spennt fyrir hlutverkinu. - „En varðandi frægðina, gætirðu hugsað þér að gerast leikkona í Hollywood?“

„Eiginlega ekki því mér finnst í hreinskilni sagt ekki bestu myndirnar vera gerðar þar. Bestu myndirnar eru óháðar bandarískar myndir og svo evrópskar.“ 

Noomi er hrifin af bæði dönskum og frönskum kvikmyndum. En hvað með sænska kvikmyndagerð?“

„Ég vona að Svíar séu að ná sér á strik. Það hefur verið mikið um léttvægar myndir, svona „happy“-myndir. Ég vona að nú sé sænsk kvikmyndagerð að verða bitastæðari.“