31. júl. 2009 - 12:00Marta María

Lambaskankar í leirpotti

Lambaskankar eldaðir í leirpotti.

Lambaskankar eldaðir í leirpotti. Mynd: Marta María

Fyrir nokkrum árum fór ég á matreiðslunámskeið þar sem heilsusamlegir réttir voru helsta viðfangsefnið. Námskeiðið var bæði fræðandi og dúndurskemmtilegt. Eftir námskeiðið var ég alveg friðlaus þangað til ég var búin að fjárfesta í leirpotti sem settur er inn í ofn. Ég sé ekki eftir að hafa keypt hann því í honum er hægt að búa til marga girnilega rétti án þess að þurfa að hafa mikið fyrir matreiðslunni. Þetta snýst svolítið um að setja hráefnið í pottinn og láta það malla í ofninum. Á meðan maturinn sér um að elda sig sjálfur er hægt að gera marga dásamlega hluti. Á dögunum prófaði ég að setja lambaskanka í leirpottinn.

Réttur fyrir fjóra

4 lambaskankar
½ dl olía
2 laukar, skornir í strimla
1 hvítlaukur
1 paprika
4 tómatar
1 brokkolíhöfuð
1 dós niðursoðnir tómatar
Salt
Pipar
1 msk Basilíka
2 sellerístilkar
2 bollar vatn

Byrjið á því að láta heitt vatn buna í leirpottinn svo hann mýkist upp. Síðan er olíunni dreift yfir þannig að ekkert festist við. Lambaskönkunum er raðað á botninn. Síðan er laukurinn skorinn í strimla og stráð yfir. Hvítlaukurinn er afhýddur og rifin sett yfir. Síðan er paprikan skorin í bita ásamt tómötunum, brokkolíinu og selleríinu. Síðan er niðursoðnu tómötunum bætt út í. Að lokum er kryddið sett út í.

Síðan er lokið sett á leirpottinn, ofninn stilltur á 180 gráður og maturinn látinn malla í sirka tvo tíma. Ef þið eigið ekki leirpott þá má nota steikingarpott í staðinn.

Á þessum árstíma er gott að hafa nýjar íslenskar kartöflur með eða hýðishrísgrjón.