14. ágú. 2009 - 14:00Daði Andersen

Kerrupúl: Nýjasta nýtt í líkamsrækt

Heitasta líkamsræktarnýjungin þessa dagana nefnist kerrupúl og byggir á amerískri fyrirmynd. Halla Björg Lárusdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, sem nýflutt er hingað til lands frá Bandaríkjunum, segir námskeiðið mjög vinsælt þar ytra en hún og Melkorka Árný Kvaran íþróttakennari og matvælafræðingur bjóða nú mæðrum kerrubarna upp á þessa nýjung. „Við eigum samtals sjö börn,“ segir Halla.

Kerrupúl byggir á kraftgöngu, styrktaræfingum og stöðvaþjálfun þar sem kerran og annað umhverfi nýtist við þjálfunina.  Um alhliða æfingakerfi er að ræða þar sem barnið fær að koma með og njóta samverunnar með móður og öðrum börnum. „Námskeiðið fer fram utandyra í Laugardalnum og leggjum við áherslu á þá vellíðan sem því fylgir að anda að sér fersku lofti,“ bætir Halla við. „Við einfaldlega klæðum okkur eftir veðri.“

Halla segir námskeiðið  í raun upplagt fyrir íslenskar konur og íslenskar aðstæður. Enda sé mun meiri hefð fyrir útiveru og útisvefni barna hér á landi en í Bandaríkjunum. Sömuleiðis henti veðurfar hér betur á margan hátt.

„ Við leggjum mikla áherslu á að nýbakaðar mæður rækti bæði líkama og sál og aðstoðum mæður við að öðlast þann styrk sem þær þurfa á að halda. Félagslegi þátturinn er mikilvægur og við sjáum að mæðurnar byrja strax að hópa sig saman. Hreyfing er svo stór hluti af andlegri heilsu, sérstaklega hjá nýbökuðum mæðrum.“

Halla segir móttökurnar hafa verið ákaflega góðar. Nú þegar sé boðið upp á tvö námskeið en 15 - 20 konur eru saman í hóp. Börnin eru flest undir eins árs aldri. Nánari upplýsingar má nálgast á www.kerrupul.is

Left Right