18. des. 2010 - 09:00Björg Magnúsdóttir

Fjórir músíkalskir dredda-drengir: Myndi aldrei tíma kjuðunum á bræður mína!

Bræðurnir í aksjón!

Bræðurnir í aksjón!

Fjórir skuggalega líkir bræður. Fimm hljóðfæri og fimm raddir. Óteljandi dreddar í hári. Trommarinn Aron Bjarnason er næstelstur fjögurra tónelskra bræðra sem eru saman í hljómsveitinni Tilviljun? Í samtali við Pressuna segir hann bræðurna Bjarnasyni bestu vini og að hann myndi aldrei tíma að henda trommukjuðum sínum í einhvern þeirra.

Bræðurnir spila og syngja víðs vegar um bæinn á aðventunni. Birkir (14 ára) spilar á píanó og hljómborð, Markús (16 ára) og Elías (22 ára) spila báðir á gítar og bassa og Aron (20 ára) spilar á trommur.
Við syngjum allir líka. En um jólin erum við bara instrumental. Við spilum klassísk jólalög, íslensk og erlend. Síðan erum við líka með jazz- og funk lög sem eru ekkert tengd jólunum. Aðalatriðið er að við spilum bara eitthvað sem er groove í, skemmtilegt beat og lifandi tónlist.
Aron segir alla bræðurnar semja bæði lög og texta. Í kringum jólahátíðina koma þeir fram undir nafni hljómsveitar sinnar Tilviljun? Hana skipa fleiri en bræðurnir eru einir í spileríi um hátíðarnar. Aron útskýrir að pælingin á nafni sveitarinnar sé sú spurning hvort við séum hér á jörð af tilviljun eða hvort við trúum því að við séum hér til þess að þjóna æðri tilgangi. Aron segir að tilgangurinn með Tilviljun? sé að fólk fái notið tónlistar.
Við höfum hæfileika á þessu sviði og viljum nota þá til þess að gera eitthvað gott.
Hann segir að stærsti áhrifavaldur þeirra bræðra sé lofgjörðarhljómsveitin Jesus Culture sem Tilviljun? er líka, nema þegar þeir bræðurnir spila dinner-, jazz- og jólatónlist.
Síðan höfum við allir fílað tónlist með soul- og groove fíling í. Það getur verið að það komi frá tíma okkar í Eþíópíu, þar sem við bjuggum í 8 ár, en þar var mikið lagt upp úr takti og trommuslætti. Fólk dansaði, klappaði og sló á allt sem það sá. Bob Marley hafði líka sín áhrif.

Við erum þrír bræðurnir sem búum enn undir sama þaki og æfum þess vegna oft. Heimilið er stútfullt af hljóðfærum. Foreldrar okkar hafa gaman af þessu, mamma spilar á þverflautu en pabbi er vanur að segja að hann hafi gefið okkur alla hæfileika sína. Ef systir okkar byggi ekki í Noregi væri hún klárlega í hljómsveitinni líka enda búin með 6. stig á þverflautu og píanói.

Systir bræðranna, Ingunn, ber ábyrgð á hári bræðranna fjögurra, sem eru allir með mislangar dredda-fléttur. Þegar fjölskyldan bjó í Eþíópíu lærði Ingunn hárlistina.

Dreddarnir eru algert trade-mark. Ég lagði til að hljómsveitin fengi nafnið dread-serious... en sú hugmynd fékk ekki nægilegan hljómgrunn.

Aron hefur verið með sína dredda í 6 ár en yngri bræður hans skemur.
Ég held að enginn okkar sé að fara að klippa þá bráðlega. Þetta er orðinn partur af persónuleika okkar. Við fáum samt alltaf sömu spurningarnar frá fólki um dreddana: hvernig þværðu þetta? Þværðu þetta? Sumir hafa spurt hvort ég sofi með þá og hvort þetta sé ull. Ég hef oft pælt í því að prenta út bol með algengustu spurningunum og svörum og ganga alltaf í honum,
segir Aron hlæjandi. Hann segir að það sé hrein snilld að vera með þremur bræðrum í hljómsveit.

Ef það er eitthvað sem er mikilvægt fyrir hljómsveit er að meðlimir séu hreinskilnir og geti gagnrýnt. Ég get til dæmis sagt við Elías að eitthvað sé alveg ógeðslegt hjá honum og hann fer ekkert að grenja. Síðan er nóg fyrir mig að blikka augunum og þá vita bræðurnir að við förum í annan kafla. Við skiljum hvorn annan, erum miklir félagar og tengjum mikið sem hjálpar okkur að vera þéttir. Það hefur nánast aldrei gerst að við lendum í rifrildum þó við séum auðvitað stanslaust að skjóta á hvorn annan og stríða. En það er ekkert verið að henda trommukjuðum, enda myndi ég ekki tíma þeim á bræður mína.

Eins og fyrr segir verða bræðurnir út og suður yfir hátíðarnar og hafa ákveðið að gefa 15% af launum sínum fyrir giggin til Hjálparstarfs kirkjunnar.
Left Right