22. nóv. 2009 - 13:05Marta María

Íslenska barnafatamerkið Ígló selur vörur sínar til Danmerkur

Mynd: Gunnar Svanberg

Íslenska barnafatamerkið Ígló kom með sína  fyrstu barnalínu í sumar og hlaut góðar viðtökur. Eigendur fyrirtækisins, Helga Ólafsdóttir fatahönnuður og Lovísa Ólafsdóttir viðskiptafræðingur, eru ánægðar með viðbrögðin. „Við vorum mjög stoltar þegar Frjáls verslun valdi Ígló eitt af áhugaverðustu sprotafyrirtækjunum. Nú er Ígló að hreiðra um sig í Danmörku og munu vörurnar okkar verða seldar í nokkrum verslunum þar í landi fljótlega,“ segir Helga en unga kynslóðin hefur tekið Ígló fagnandi.

Helga og Lovísa sitja ekki með hendur í skauti því nú hefur úlpulína bæst í Íglólínuna. „Stelpuúlpurnar koma í bleikum og súkkulaðibrúnum lit en strákaúlpurnar koma í bláum og súkkulaðibrúnum. Þetta eru mjög notalegar og krúttlegar úlpur,“ segir Helga. Úlpurnar eru flísfóðraðar og með endurskinsmerkjum að framan og aftan. Svo eru vasar framan á þar sem börn geta geymt öll sín leyndarmál.

Helga sótti innblástur í eskimóa þegar hún hannaði úlpurnar. „Stelpuúlpan er einskonar anorakkur en hún er rennd alveg í sundur í hliðinni. Mér finnst skipta máli að börnin geti klætt sig úr úlpunni sjálf. Stelpuúlpan er með loðkraga á hettu og ermum. Strákaúlpan er síð með stórri hettu og stroffi á ermunum. Hettan á úlpunni á að vera góð vörn gegn kulda, roki og rigningu, sérstaklega ef húfan gleymist heima.“

Flíspeysulínan sló algerlega í gegn og nú er hægt að fá tvo nýja liti í flíspeysunum. „Skærrauði liturinn var svo vinsæll hjá okkur að ég hannaði tvo nýja galla þar sem sá litur er í aðalhlutverki. Annarsvegar skærrauður og blár og skærrauður og fjólublár.“

Left Right