04. jún. 2012 - 10:45Gunnar Bender

Veiðiskapurinn og útiveran

,Ég var að byrja," sagði Gyða Guðmundsdóttir sem var einn af þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína á Þingvelli um helgina til að veiða. En hún var fljót að setja í bleikju við Ögursnáðan á Þingvöllum, þriggja punda fallega bleikju. Skömmu seinna veiddi hún aðra bleikju, heldur minni. ,,Veiðiskapurinn er svo skemmtilegur og útiveran ekki síður," sagði Gyða og hélt áfram að kasta flugunni. Fiskurinn var við en ekki í tökustuði.

 

Mynd. Það var fallegt við Þingvallavatnið í gærkvöldið eins og myndin ber með sér.

 
Svanhvít - Mottur
29.maí 2015 - 07:42 Gunnar Bender

Ekki svo mikið sem nart

,,Stimplaði mig inn loksins í sumarið en ég var farinn að halda ég myndi núlla þetta vorið... enda óteljandi túrarnir á Þingvellina orðnir án þess að fá svo mikið sem nart,, sagði Halldór Gunnarsson loksins kominn með veiðiglampa í augun.

,,Veiðin hefur farið afskaplega hægt af stað á Þingvöllum og hafa margir snúið til baka eftir mikið hark tómhentir. Það eru samt margir sem hafa uppskorið ágætlega, en þó engan vegin eins og í fyrra. Félagarnir voru flestir komnir með rígvæna fiska á land eftir töluvert hark. Kuldinn hefur verið að setja mikið strik í reikninginn þetta árið, en einnig hafa sum svæði utan þjóðgarðs verið betri en önnur.

Þá fór loks að hlýna smá og þar kom að því að loks kom gluggi þar sem fiskurinn fór að vaka og sýna sig í rokinu og náðum við að nýta okkur það. Aðstæður hafa samt mikið til hafa verið erfiðar frá opnun. Ég uppskar 3 á land og vænn þriðji sleit hjá mér í landgrunninu,“ sagði Halldór ennfremur.

 

29.maí 2015 - 07:36 Gunnar Bender

Skyndilokun á urriðaveiðum með beitu

Hér fyrir neðan er tilkynning frá Þingvallanefnd varðandi urriðaveiðar í landi þjóðgarðsins.

Vegna vorkulda og síðbúinnar göngu urriða er stangveiði með beitu ekki heimil eftir eins og áður var auglýst. Helstu ástæður fyrir þessari skyndilokun er sú að þessi maímánuður er sá kaldasti frá 1977 og því er allt lífríkið á eftir áætlun og því ber að bregðast við því til að vernda urriðastofninn.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á urriðastofninum í Þingvallavatni undanfarin ár og hætt er við því að stórt skarð yrði höggið í stofninn ef beitiveiði myndi hefjast þar 1. júní.  Ekki bætir úr skák að bleikjan er einnig á eftir áætlun og varla farin að sjást í vötnun landsins þannig að álag á þjóðgarðinn með beituveiði yrði enn meira fyrir vikið þar sem veiðiálag dreifist lítið á önnur vatnasvæði.

Skyndilokun á urriðaveiði með beitu fyrir landi þjóðgarðsins á Þingvöllum gildir til 15. júní. Aðeins er heimilt að veiða með flugu og öllum urriða skal sleppt.

 

Þjóðgarðsvörður

 

29.maí 2015 - 07:31 Gunnar Bender

Stefnir í bestu byrjun fyrr og síðar í laxveiðinni?

Svo virðist sem lax sé kominn víða í laxveiðiárnar, Norðurá, Þverá og Grímsá í Borgafirði. Þrátt fyrir að þessar veiðiár opni ekki strax eins og Þverá og Grímsá. Veiðimaður sem var við veiðar í Húseyjarkvísl fyrir skömmu setti vænan lax en missti hann eftir snarpa viðureign. 

Og veiðimenn hafa verið að kíkja í Elliðaárnar en ekki sé neitt ennþá enda áin vatnsmikil og erfitt að sjá í hana. Það er bara dagaspursmál hvenær laxinn lætur sjá sig í Elliðaánum.

Veiðimaður fékk sér labbitúr með Leirvogsá og þóttist sjá fisk en hvar ekki alveg viss

,,Ég var ekki 100%  viss að þetta væri lax en líklega.“

 

27.maí 2015 - 15:23 Gunnar Bender

Fiskurinn ekki í tökustuði

,,Það er gaman að kasta flugunni hérna í Hólmsánni, það elti 3-4 punda fiskur áðan tók ekki,“ sagði Atli Arason er við hittum hann við Hólmsá um helgina. Veðurfarið var sæmilegt en enginn fiskur að vaka.

,,Ég er búinn að fá nokkra hérna fyrr í sumar, það er fínt að veiða hérna. Æfa sig að kasta flugunni,“ sagði Atli og hélt áfram að kasta flugunni. Fiskurinn var kannski ekki alveg í tökustuði. En æfingin er góð, fiskurinn tekur.

24.maí 2015 - 23:36 Gunnar Bender

,,Hlakka til að eiga við hann aftur seinna“

,,Jæja, þá kom að því að bleyta í veiðigræjunum í fyrsta skiptið þetta árið,“ sagði varnartröllið Sigfús Sigurðsson og fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik í samtali við Veiðipressuna.

,,Nú er maður reyndar hálf farlama eftir hnjáliðaskipti aðgerð og hef þess vegna ekki farið í neina veiði þetta vorið.En við félagarnir hittumst rúmlega ellefu á föstudagskvöldið og renndum austur að Þingvallavatni. Þegar við komum austur þá var rok og rigning en við létum það ekki stoppa okkur,“ sagði Sigfús.

,,Við  stóðum við vatnið til rúmlega tvö um nóttina og enduðum blautir og kaldir inn í bústað. Það var sofið ágætlega út á laugardeginum og renndum okkur svo út að vatninu í fínu veðri. Félagi minn fór  á kajak og reyndi fyrir sér en ekki gekk það og á sama tíma var ég að lemja vatnið smá og gafst ég upp. Þá var stóllinn tekinn fram ásamt sökku og maðk. Svo sátum við vinirnir að nutum náttúrunnar og félagsskaparins í svolítinn tíma eða þar til eldri hjón úr öðrum bústað komu röltandi og fóru að forvitnast um kajakinn sem lá á bakkanum töluvert frá,“ sagði Sigfús ennfremur.

Sigfús sagði að þeir hefðu staðið þarna og verið að spjalla Þegar við stóðum það að spjalla var mér litið á stöngina og hún var öll í keng, rauk ég þá af stað og reyndi að komast sem fyrst að henni. En það gekk hægt á annarri löppinni, eflaust  mjög skondið að sjá aðfarirnar.

,,Þegar ég tek stöngina þá finn ég að þetta er ágætis fiskur og það eru fín átök í gangi. Hann tekur rokurnar út hverja af fætur annarri en þreytist vel á því og á endanum var þessum fallega hæng landað. Ég losaði út munnvikinu og vorum við félagarnir myndaðir saman og svo sleppti ég honum aftur og hlakka til að eiga við hann aftur seinna á þessu ári eða bara jafnvel seinna,“ sagði Sigfús ánægður með fyrsta veiðitúr sumarsins.

Mynd. Sigfús Sigurðsson með urriðann á Þingvöllum sem hann sleppti aftur eftir myndatökuna

 

24.maí 2015 - 16:30 Gunnar Bender

Styttist í opnun - en hvað mun gerast?

Það eru ekki nema tólf dagar þangað til laxveiðin hefst fyrir alvöru. Fyrstu laxveiðiárnar sem opna eru Norðurá, Straumarnir í Borgarfirði og Blanda. Fyrstu laxarnir hafa sést í Laxá í Kjós og Korpu. Þeir eru komnir á fleiri stöðum eins og Norðurá og Þverá í Borgarfirði.

En hvernig verður laxveiðin í sumar? Veiðin hefur aldrei verið eins mikið spurningamerki og núna, fáir vilja spá, og ennþá færri vilja spá um veiðitölur fyrir sumarið.

Fyrstu dagarnir í veiðinni munu kannski svara einhverju um laxveiðina, það mun skipta miklu máli hvernig eins árs laxinn mun skila sér í veiðiárnar.

 

22.maí 2015 - 15:25 Gunnar Bender

Búinn að hnýta helling í vetur

Það er margir sem bíða eftir veiðisumrinu víða um land. Einn af þeim veiðimaðurinn ungi Ólafur Jónsson á Reyðarfirði, sem við hittum í dag eystra.

,,Ég er búinn að hnýta helling í vetur,“ sagði Ólafur og sýndi blaðamanni flugurnar flottu sem hann hafði hnýtt og ætlaði að reyna með í sumar.

,,Það verður gaman að prufa og sjá hvað gerist. Ég ætla eitthvað með afa mínum í sumar og svo á kæjakinn minn sem ég keypti mér. Það verður gaman að veiða á honum í sumar,“ sagði Ólafur ennfremur.

Fátt er skemmtilegra en að veiða á flugur sem maður hefur hnýtt og kasta þeim fyrir lax og silung. Spurning er bara hvort hann tekur, það er málið.

 

22.maí 2015 - 14:20 Gunnar Bender

Skýrist á næstu dögum hverjir munu opna Norðurá

Það er víst búið að ákveða hverjir munu opna Norðurá  Í Borgarfirði en Einar Sigfússon sölustjóri veiðileyfa í ánni segir að það verði gert opinbert innan fárra daga tíðar hverjir það eru. 

Í fyrra opnuðu Sigmundur Davíð  Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ána og það vakti verulega athygli meðal þjóðarinnar. Bjarni fékk lax en Sigmundur ekki högg. 

Laxinn er líklega kominn í Norðurá en hann hefur ekki sést ennþá enda kannski ekki verið að skoða ána á hverjum degi.

22.maí 2015 - 14:15 Gunnar Bender

Langtímasamningur um Svalbarðsá í Þistilfirði

Veiðifélagið Hreggnasi ehf og Veiðifélag Svalbarðsár í Þistilfirði gengu nýlega frá langtímasamningi um leigu veiðiréttar á vatnasvæði árinnar.

Svalbarðsá hefur átt miklum vinsældum að fagna meðal veiðimanna síðastliðin ár. Meðalveiði undanfarinna sumra er um 400 laxar, en þar af hefur hlutfall stórlaxa í aflanum verið yfir 70%. Þá hefur meðalveiði á hverja dagsstöng verið um 2.5 laxar á stangardag, en aðeins er veitt á 2-3 stangir yfir þann stutta veiðitíma sem nýttur er árlega.

Hreggnasi ehf hefur komið að leigu Svalbarðsár allt frá árinu 2007. Þá reis nýtt og glæsilegt veiðihús við ána. Frá árinu 2009 hefur Svalbarðsá verið veidd undir „veiða og sleppa“ fyrirkomulaginu en við það hafa veiðitölur og seiðavísitala vaxið mjög til hins betra.

20.maí 2015 - 15:43 Gunnar Bender

Konur hnýta með meistara Klinken

Hans van Klinken, sem m.a. hannaði hina frægu Klinkhammer þurrflugu, verður með ókeypis námskeið í fluguhnýtingum fyrir konur í húsakynnum Stangveiðifélags Hafnarfjarðar, Flatahrauni 29 kl. 18 á morgun, fimmtudag. Áður en námskeiðið hefst heldur Hans stutt erindi um veiðar og umhverfisvernd en hann er eftirsóttur fyrirlesari um stangaveiði.

Auk þess að vera þekktur hnýtingameistari er Hans van Klinken með þekktustu veiðiblaðamönnum í heiminum og skrifar reglulega pistla sem birtir eru í mörgum helstu miðlum stangaveiðimanna í þremur heimsálfum. Frægasta flugan sem hann hefur hannað er Klinkhammer þurrflugan. Hann hefur hannað margar fleiri flugur sem þykja mjög góðar, t.d. Leadhead. Hans þykir sérlega líflegur fyrirlesari og hefur kennt fluguhnýtingar um allan heim.

,,Mér finnst skemmtilegast að kenna konum að hnýta, og vil fá fleiri konur inn í stangaveiðina. Þess vegna legg ég mesta áherslu á námskeið fyrir konur og hef haldið þau um allan heim,” segir Hans van Klinken. 

Námskeiðið er haldið á vegum Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar og kvennadeildar Stangaveiðifélags Reykjavíkur, en er opið konum utan félaganna. Hans van Klinken er staddur hér á landi á vegum Íslandsdeildar Contintental trout Conservation Fund, sem vinna að umhverfismálum innan stangaveiði.

Konur sem hyggjast hnýta sjálfar og fá leiðbeiningar frá Hans þurfa að taka með sér efni og eigin tæki, en að öðru leyti mun Hans fara ítarlega yfir hvernig helstu flugur hans, einsog Klinkhammer, eru hnýttar.

 

20.maí 2015 - 10:06 Gunnar Bender

Bleikjan að mæta í Breiðdalinn

Silungsveiðin er að víða að batna, veðurfarið hefur skánað og fiskurinn að gefa sig. Vötnin kringum Reykjavík hafa verið að gefa eins og Elliðavatn, Vífilstaðavatn, Kleifarvatn og Hlíðarvatn. En við skulum aðeins kíkja miklu austar.

,,Við fengum fína veiði í gærmorgun í bleikjunni en þær tóku Bleik og Bláa, BÍ BÍ og Súddan, þetta var gaman,“ sagði Súddi sem veiddi á stuttum tíma níu fallegar bleikjur niður í ós Breiðdalsár í gærmorgun. það hafði  aðeins hlýnað. Það virðist vera töluvert af bleikju á svæðinu og hún er að gefa sig aðeins.

 

18.maí 2015 - 12:01 Gunnar Bender

Þá fór silungurinn að taka

,,Við skelltum okkur í Selvallavatn um helgina. Það var norðanátt en ekki sami kuldinn og búið að vera,“ sagði Bjarni Júlíusson er við heyrum hvað hefði gerst í fyrsta veiðitúr sumarsins á nesinu.

,,Vatnið samt ennþá dálítið kalt en við lentum bara í fínni veiði. Það þurfti að finna réttu fluguna. Fyrst var Nobblerinn reyndur, Krókurinn, Beyglan, Héraeyra, Watson‘s fancy og ekki högg. En þegar gamli góði Peacockinn var settur undir, fór hann að taka.  Ég held að þarna verði veisla um leið og það fer að hlýna meira,“ sagði Bjarni ennfremur.

16.maí 2015 - 21:13 Gunnar Bender

Bubbi sér fleiri laxa í Kjósinni

Bubbi sá fyrsta laxinn í Laxá í Kjós fyrir nokkrum dögum og hann sá annan lax við brúna á þjóðveginum í dag líka. En svo virðist sem laxar  séu að skríða uppí Laxá í Kjós þessa dagana í þó nokkru mæli.

Frægt var á sínum tíma þegar Þórarinn Sigþórsson sá fyrir nokkrum árum helling af laxi fyrir opnun árinnar og var hún blá af laxi á vissum svæðum hennar. Sá tími er kannski að koma aftur. Fyrstu laxarnir hafa sést í henni 7.maí svo tíminn passar allavega.

13.maí 2015 - 16:11 Gunnar Bender

Bubbi sá fyrsta laxinn í Kjósinni

Tíminn er að koma í veiðinni, laxinn er á leiðinni og jafnvel komnir þeir fyrstu. Í Hvítá í Borgarfirði er hann á leiðinni upp ána, þó svo að maðurinn sjái hann ekki.   Bubbi Morhens er búinn að sjá fyrsta lax sumarsins en fiskinn sá hann í Laxá í Kjós í vikunni.

,,Já ég sá lax í Kvíslarfossi,“ sagði Bubbi Mothens í samtali við Veiðipressuna en hann er sá fyrsti sem sér lax á þessu sumri í laxveiðiánum.

,,Þetta var allavega einn lax,“ sagði Bubbi ennfremur. Já laxinn er að mæta, hans tími er kominn. Biðin styttist með hverjum deginum. 

12.maí 2015 - 16:24 Gunnar Bender

Fyrstu laxarnir að renna sér upp Hvítána

Þrátt fyrir kuldatíð eru fyrstu laxarnir að renna sér upp Hvítá í Borgarfirði þessa dagana, stóru laxarnir. Vatnið er gott í Hvítánni núna  eða eins og segir í bókum Björn J. Blöndal mætir stórlaxinn yfirleitt á þessum tíma og hefur gert í fjölda ára, jafnvel fyrr. 

Veiðimenn sem voru í Kjarrá fyrir tveimur árum lentu í því að lax sem þeir veiddu um miðjan júní var leginn. Sem þýðir jafnvel að hann hefur komið í lok apríl. Það vor var mjög hlýtt, öfugt við það sem er núna daga eftir dag.

10.maí 2015 - 08:50 Gunnar Bender

Simms dagar um helgina

,,Ég skrapp sem sagt í Kollafjörðinn um síðustu helgi  í góða veðrinu til þess að prófa nýjar stangir enda veðrið sem á fallegum sumardegi,“ sagði Ólafur Vigfússon  um ferð í blíðunni um síðustu helgi í Kollafjörðinn.

,,En  það verður þó að segjast eins og er að ég varð ekki var við mikið líf,“ sagði Ólafur ennfremur.

En um helgina eru Simmsdagar í Veiðihorninu og ýmislegt hægt að sjá þar og skoða. Í gær lögðu margir leið síðna í Veiðihornið að skoða.

 

 

09.maí 2015 - 15:00 Gunnar Bender

Fullt út úr dyrum hjá Stangveiðifélaginu

,,Þetta var bara frábært. Ingvi Hrafn talaði allavega í einn og hálfan tíma um Langá á Mýrum stanslaust  og Ási og Gunni voru líka góðir," sagði okkar maður í fjörinu hjá Stangó á síðasta opna húsi ársins semvar í gærkveldi og var mætingin mjög  góð.

En það styttist í að laxveiðin byrji fyrir alvöru og veiðimenn að setja sig í gírinn fyrir átök sumarins. Glæsilegir vinningar voru í boði í happdrættinu fyrir stórfé. 

02.maí 2015 - 22:27 Gunnar Bender

Fyrsta bleikjan komin á land

,,Þetta var skemmtilegt, hún tók í fyrsta kasti fluguna BÍBÍ,“ sagði Þröstur Elliðason leigutaki Breiðdalsár sem veiddi fyrstu bleikjuna á sumrinu við ós árinnar.

 ,, Við sáum fleiri fiska en þeir tóku ekki og þeir voru vænir,“ sagði Þröstur skömmu eftir að fiskurinn kom á land. Bleikjan er greinilega mætt. Hennar tími er komin.

Það er ekki hægt að segja að veðurfarið sé gott það fraus í lykkjunni, en það er spáð aðeins hlýrra. Það eru líka allir að bíða eftir því.

 

02.maí 2015 - 17:57 Gunnar Bender

,,Við erum að byrja veiðina,,

,,Við erum að byrja veiðina hérna í Brunná á eftir. Ég var hérna fyrir skömmu síðan og fengum þá bleikju og urriða,“ sagði  Matthías Hákonarson er við heyrðum í honum á bökkum árinnar.

,,Það eru fáir sem nýta sér vordaga ì Brunnà en þar veiði ég mest à vorin og eru urriðarnir og sjòbirtingarnir margir mjög stórir og sprækar bleikjur líka inn à milli. Einungis er veitt  um helgar í apríl og maí þannig að hver hópur fær ánna vel hvílda,,“ sagði  Matthías ennfremur.

Lausa daga er hægt að finna à aðeins 7500 kr stöngina innà kaupaleyfi.is og veiðivon er töluverð.

01.maí 2015 - 23:38 Gunnar Bender

Rúmur mánuður þangað til laxveiðin byrjar

 Það eru ekki nema rétt mánuður þangað til laxveiðin byrjar í Norðurá, Straumunum og Blöndu.  Fyrstu laxarnir eru að ganga í Hvítá í Borgarfirði þessa dagana , stóru laxarnir en enginn veit hvernig laxveiðin verður í sumar.

Fáir hafa viljað spá fyrir um veiðina. En einn af þeim sem er viss  um veiðina er séra Gunnlaugur Stefánsson formaður veiðifélags Breiðdalsár.

,,Þetta verður gott sumar fyrir veiðimenn, það er mín tilfinning,“ sagði Gunnlaugur og ætlaði að renna eitthvað fyrir lax í sumar.

Tíðarfarið er ekki gott víða ennþá, snjóaði í Breiðdal í morgun og erfitt að hafa áhuga á veiði í þessum kulda. Það átti samt að reyna með kvöldið, það hafi aðeins hlýnað. Það var heila málið.