22. maí 2012 - 11:39Gunnar Bender

,,Sáum ekki lax í Kjósinni"

,,Auðvitað er maður orðinn spenntur að byrja veiðina, þetta verður gott sumar," sagði Teitur Örlygsson er veiði bar á góma á leiknum í Grindavík í gærkvöldi þar sem Stjarnarn vann Grindavík.

,,Kíkti í Kjósina fyrir fáum dögum en sáum ekki lax en það sást vel í ána. Það var ekki mikið vatn í henni enda hefur verið kalt síðustu daga. Ég held að þetta verði gott sumar," sagði Teitur í lokin.
(11-15) Þ. Þorgrímsson: Korkparket - feb
12.feb. 2016 - 13:20 Gunnar Bender

Gæti trúað því að laxinn gangi snemma

,,Ég er orðin gífurlega spennt fyrir sumrinu, eflaust aðeins of með tilliti til þess að enn er þó nokkur tími þar til,“ segir Valgerður Árnadóttir er við spurðum hana um sumarið, sem styttist í.

Valgerður segist hafa notað veturinn mikið til að skrifa veiðigreinar, nýlokið við eina um Grænland í Sportveiðiblaðið og er núna að ljúka við aðra um hitch með smáatriðin í huga, af hverju/hvenær/hvar. Það hefur því haldið huganum algjörlega við veiðar þrátt fyrir snjókomuna utandyra.

,,Ég sperrtist öll upp þegar ég sá hvað Skotland virðist fara vel af stað og mér líst alveg rosalega vel á sumarið hérna heima. Ég gæti vel trúað því að við eigum gott veiðiár í vændum, það þýðir ekkert annað en að vera bara bjartsýn og hlakka til komandi sumars. Ég gæti alveg eins trúað því að laxinn gangi snemma í árnar en að veðrið verði ekkert mikið hlýrra en seinustu ár,“ sagði Valgerður í lokin.

11.feb. 2016 - 10:28 Gunnar Bender

Fallegt við Elliðavatn - biðin er erfið

Það eru rétt ríflega 60 dagar þangað til Elliðavatn opnar fyrir veiðimenn en vatnið er næstum allt ísilagt þessa dagana og mjög  fáar vakir á því. Veiðimenn eru farnir að kíkja á stöðuna einn og einn fugl hefur komið sér fyrir á vatninu en ekki mikið meira. Labbitúr við vatnið í gær bjargaði deginum.

Á Reynisvatni var heldur meira líf, dorgveiðimaður var út á miðju vatninu og var að draga inn fisk sem  ekki var stór, enda sleppti hann honum aftur óni vökina.

Þjóðin er greinilega farinn að hreyfa sig, veðurfarið hefur batnað og daginn er tekið að lengja. Kindalegur veiðimaður kastaði flugunni á Hólmsá en lét sig hverfa við mannaferðir en hefur örugglega komið aftur og kastað og kastað flugunni. Þetta er nú ekki glæpur, biðin er erfið.

09.feb. 2016 - 11:06 Gunnar Bender

Leirvogsá á lausu eftir þetta sumar

Veiðifélag Leirvogsár hefur auglýst ána til leigu eftir þetta sumar en Stangaveiðifélag Reykjavíkur hefur haft ána á leigu til fjölda ára. Áin er leigð til þriggja ára og það verða örugglega margir sem eiga eftir að bjóða í ána enda áin feikna vinsæl.  

Í fyrra veiddust 706 laxar en árið áður veiddust 303 laxar. Veitt er bæði  á maðk og flugu í henni, en maðkurinn hefur verið bannaður í lax mörgum veiðiám hin síðari árin.

Í Leirvogsá má bleyta í maðki eins og maður vill.

08.feb. 2016 - 12:08 Gunnar Bender

Fjör á Skorradalsvatni

Dorgveiðimenn eru duglegir að stunda veiðina þessa dagana,ísinn er traustur og veiðivonin töluverð á vötnunum.  Þeir Halldór Atli Þorsteinsson og Róbert Vilhjálmsson  fóru á Skorradalsvatnið fyrir fáum dögum.

,,Við voru tveir ég og Róbert, það beit á hjá okkur fiskur en við náðum honum ekki upp strax,“ sagði Halldór Atli Þorsteinsson og bætti við.

,, Róbert þurfti að fara með hendina ofan í gatið sem ekki er stór og rífa fiskinn á tálknum upp upp, hann var allur flæktur þar í girninu,“ sagði Halldór Atli ennfremur.

Mynd af dorgveiðiferðinni á Skorradalsvatni.

04.feb. 2016 - 15:46 Gunnar Bender

Fyrsta Opna hús ársins hjá SVFR

Á morgun, föstudaginn 5. febrúar, verður fyrsta Opna hús ársins hjá SVFR. Kvöldið fer fram í húsakynnum Stangaveiðifélagsins að Rafsstöðvarvegi 14 og opnar kl 20.00.

Dagskrá kvöldins er nokkurn veginn svohljóðandi:

20:15, Þorgils Helgason fer yfir veiðistaði Haukadalsár 
20:54, Ólafur Finnbogason fer yfir sína fimm uppáhalds veiðistaði. 
21:19, Skemmtinefndin verður með skemmtilega myndagetraun. 
21:43, Snögg og laggóð yfirferð yfir Þverá við Haukadalsá í máli og myndum. 

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.


31.jan. 2016 - 18:47 Gunnar Bender

Ísinn þykkur á vötnum landsins og staðan góð

Aðstæður til dorgveiða er frábær þessa dagana eftir að frostið hefur farið  í 6 til 10 stig  á hverjum degi. Ísinn er þykkur og staðan góð á vötnum landsins enda fara veiðimenn víða til veiða. 

,,Við fórum ferð í vikunni, fyrst í Svínadal og útá Snæfellnes, fengum nokkra fiska. Ísinn er verulega þykkur, 70 cm,“ sagði veiðimaður sem var að koma úr dorgveiði.

Ragnar Högnason og félagar hafa verið duglegir að stunda Skagaheiðina og veiða vel. Enda þekkja þeir svæðið vel.

 

27.jan. 2016 - 20:09 Gunnar Bender

Ýmislegt girnilegt í boði

,,Nú er formleg vetrardagskrá Stangaveiðifélags Akureyrar að fara í gang,“ sagði Guðrún Una Jónsdóttir formaður Stangaveiðifélags Akureyrar, er við spurðum um stöðuna fyrir norðan.

,,Dagskráin verður með líku sniði og síðustu ár þar sem boðið verður upp á fyrirlestra, kastkennslu og hnýtingarkvöld þar sem við fáum valinkunna kappa til að fara yfir hlutina með okkur,“ sagði Guðrún Una ennfremur.

Fyrsti fyrirlesturinn verður þann 1. Febrúar í Golfskálanum að Jaðri en þar mun Jón Helgi Björnsson formaður Landssambands veiðifélaga fjalla um stórtæk áform um sjókvíaeldi við Ísland.  Fyrirlesturinn hefst klukkan 20:00 og er öllum opinn.Stangveiðimenn eru að vonum uggandi yfir áformum Fjarðalax um uppbyggingu frekara eldis ekki síst á 8000 tonna sjókvíaeldi rétt utan Hörgárósa í Eyjafirði.

Aðrir viðburðir sem komnir eru á vetrardagskrá SVAK eru eftirfarandi:

Mánudaginn 15. febrúar verður hnýtingakvöld í Zontahúsinu klukkan 20:00
Sunnudaginn 21. Febrúar verður kastkennsla í Íþróttahöllinni klukkan 10:30. Konur eru sérstaklega boðnar velkomnar í tilefni konudagsins.
Sunnudaginn 28. Febrúar verður kastkennsla í Íþróttahöllinni klukkan 10:3
Sunnudaginn 6. Mars verður kastkennsla í Íþróttahöllinni klukkan 10:30
Mánudaginn 14. Mars verður hnýtingakvöld í Zontahúsinu klukkan 20:00
Mánudaginn 4. Apríl verður hnýtingakvöld í Zontahúsinu klukkan 20:00

Þegar líða fer á vorið verða fleiri fyrirlestrar í boði og upplýsingar um þá verða birtar á heimasíðu félagsins www.svak.is og á fjésbókarsíðu Félagsins.

Boðið verður upp á stangir í kastkennslunni en að sjálfsögðu er óhætt að mæta með eigin stöng og æfa sig fyrir sumarið.

Á hnýtingarkvöldunum verður boðið upp á efni og verkfæri auk leiðsagnar þannig að það er tilvalið fyrir þá sem hafa áhugann en vantar grunninn að koma og læra af reyndari mönnum. Þemakvöld og samkeppni um flottustu SVAK fluguna.

Fyrirlestrar,hnýtingar- og kastkennslan verður öllum opin óháð félagsaðild og er ókeypis en vilji menn ganga í félagið er hægt að gera það á heimasíðu félagsins www.svak.is og öðlast þannig afslátt á veiðileyfakaupum í gegn um heimasíðuna.

,,Vonumst til að sjá sem flesta á viðburðum SVAK í vetur,“ sagði Guðrún Una Jónsdóttir formaður Stangaveiðifélags Akureyrar.

26.jan. 2016 - 13:21 Gunnar Bender

Hrútafjarðará uppseld

Hrútafjarðará er einfaldlega uppseld, reyndar í framhaldi af metveiði síðasta árs í henni upp á 850 laxa vildu öll holl halda  sínum dögum aftur.

Minnivallalækur er mikið bókaður í júní og júlí að vanda en vorið  og síðsumar hefur ennþá töluvert af lausum hollum.

Breiðdalsá er meira bókuð líka en það má sjá þó stangir lausar í júlí og örfáar í ágúst. September er með töluvert meira af lausum dögum, þó er veiðin oftar en ekki mjög drjúg þá á haustin.

Af Jöklusvæðum er Jökla I og Fögruhlíðará ágætlega bókuð í júlí og ágúst, en örfáar stangir þó lausar hér og þar flestar vikurnar í þessum mánuðum. Meira er laust þar í september. Svæðin ofar í Jöklu eða Jökla II og III eiga mikið af lausum stöngum eins og er.

26.jan. 2016 - 09:47 Gunnar Bender

Biðin styttist með hverjum deginum

Biðin eftir að veiðitíminn byrji fyrir alvöru styttist með hverjum deginum, sjóbirtingveiðin,vatnaveiðin og svo loksins laxveiðin. Það eru nákvæmlega 65 dagar  þangað til sjóbirtingsveiðin byrjar og ekki mínúta meira.

,,Ég fer í Varmá í apríl,  en auðvitað er maður orðinn spenntur að byrja að veiða," sagði Jón Skelfir er hann fór yfir stöðuna hvað væru margir dagar þangað til veiðin byrjaði fyrir alvöru.

Veiðimenn hafa verið duglegir að hnýta, æfa sig fyrir sumarið og segja veiðisögur sem eru misgáfulegar, það er bara svona alltaf. En biðin styttist og það er heila málið fyrir alla.

22.jan. 2016 - 10:44 Gunnar Bender

Bleikjan er hverfa fyrir fullt og allt

Í nýjasta eintaki Veiðimannsins sem mér tókst að krækja mér í dag og er leiðinni til áskrifenda innan tíðar, er að finna ýmislegt góðgæti fyrir augað. Og líka annað miður eins og stöðu bleikjunnar í vatnakerfinu okkar.

Eða eins og segir.,,Silungsveiðimenn hafa talað um þetta árum saman að bleikjan sé að hverfa, fræðimenn hafa staðfest þetta með rannsóknum en samt er furðu lítið vitað um ástæður og rannsókna er svo sannarlega  þörf. Bleikjan er að hverfa.“

Talað er við Guðna Guðbergsson hjá Veiðimálastofnun og hann fer yfir stöðuna á bleikjunni, hann segir.

,,Þær rannsóknir sem fyrir liggja benda til að fækkun bleikju stafi af því að nýliðun hennar hafi misfarist,“ segir Guðni meðal annars.

Og Elli Steinar segir.,,Ekki drepa síðustu bleikjuna.“

Þetta er fróðlegur lestur í Veiðimanninum og þarfur, staðan er svakalegt og síðasta bleikjan gæti verið drepin innan fárra ára. Það er því miður staðan. Látum það ekki gerast.

20.jan. 2016 - 21:40 Gunnar Bender

6 punda bolti á dorginu

Margir eru farnir að stunda dorgveiðina þessa dagana og einn af þeim er Ragnar Högnason á Skagaströnd. Og hann var á veiðislóðum á Skagaheiðinni og veiddi vel. Við heyrðum aðeins í honum hljóðið.

,,Við  skruppum í heiðina í dag  og veiddum  í tveimur  litlum  tjörnum sem hafa ekki nafn og fengum 8 urriða í annari og svo fékk ég þennan 6 punda í hinni  á leiðinni heim," sagði Ragnar ennfremur. En Ragnar og fleiri eru duglegir að stunda heiðina, fiskurinn er fyrir hendi og útiveran er góð.

 

17.jan. 2016 - 13:16 Gunnar Bender

Mikið um tveggja ára lax

Guðni Guðbergsson fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun er í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið um helgina og kemur víða við. Hann segist reikna með að veiðin  næsta sumar verði í meðallagi. En af meðaltali hafa veiðst um 40 þúsund laxar á ári hérlendis frá árinu 1974 í veiðánum. 

Guðni á von á stór laxasumri. Það bendir til þess segir Guðni að það verði mikið af tveggja ár laxi.

Viðtalið við Guðna er fróðlegt enda tekið að veiðimanninum Trausta Hafliðasyni, sem  sett  hefur í þá nokkra í veiðiánum víða um land.

15.jan. 2016 - 10:20 Gunnar Bender

Þingvallavatn næstum íslaust

Þrátt fyrir kaldann vetur og kulda er Þingvallavatn næstum íslaust  þessa dagana eins og það leit út í dag. Einn og einn útlendingur var á labbi við vatnið sem  lítur vel út þessa dagana. Margir bíða spenntir sumrinu, byrja veiðina í vatninu og renna fyrir stóra urrriðan.

Urriðinn hefur látið sig hverfa úr Öxaránni og útí vatnið. Staðan er fín við vatnið þegar rétt 100 dagar eru þangað veiðimenn byrja að veiða flugunni í vatninu.

15.jan. 2016 - 10:01 Gunnar Bender

Veiðistaðavefurinn - frítt inn fyrir alla

Halldór Gunnarsson er heilinn á bak Veiðistaðavefurinn sem  hefur opnað fyrir almenning á slóðinni http://www.veidistadir.is, það er frítt inn og frjálst sætaval.

- Halldór hvað er í gangi En hvað er Veiðistaðavefurinn og fyrir hverja er hann?

,,Veiðistaðavefurinn sameinar það sem alltaf hefur vantað fyrir stangveiði á Íslandi. Að hafa allar upplýsingar um alla veiðistaði aðgengilegar á einfaldan og þægilegan máta, á einum stað.
Hann er fyrir alla, hvort sem verið er að leita að stórri og flottri laxveiðiá, eða lítið og rólegt silungavatn," sagði Halldór.

- En til hvers?

Það er hægt að finna þetta allt á netinu ef maður leitar! - sem er vissulega rétt, en markmið Veiðistaðavefsins er að hjálpa veiðimönnum og veiðiáhugafólki að finna hlutina strax, án þess að eyða hálfu eða heilu kvöldi í að leita út um allt með misjöfnum árangri.

Og í raun að tengja allt það efni sem er út um allt á netinu, inn á einn og sama staðinn., hvort sem um er að ræða myndklippur, blog pósta úr ýmsum áttum, myndir, veiðitölur, vinsælar flugur, og svo margt fleira.

Þungamiðja Veiðistaðavefsins er einnig að bjóða veiðimönnum að leggja orð í belg hvað varðar hin ýmsu veiðisvæði, og gefa ummæli og stjörnur. Stjörnugjöfin mun svo sýna heilarstigagjöf fyrir hvert svæði fyrir sig.

Góð umsögn hjálpar veiðiréttarhöfum og veiðileyfasölum að sjá að þeir séu að gera góða hluti. Slæm umsögn getur einnig hjálpað til að segja frá því að úrbóta sé þörf. - hálfgert IMDB veiðimannsins.
Veiðistaðavefurinn er faglegur vettvangur veiðimanna og verður ekki liðið að niðrandi eða dónalegar umsagnir séu settar inn. Umsagnir verða því ritskoðaðar. Veiðistaðavefurinn gerir hinsvegar ekki athugasemdir við slæmum umsögnum, og lítilli stjörnugjöf, enda er það stjörnugjöf heildarinnar sem ræður stigagjöf hvers veiðisvæðis.

Veiðistaðavefurinn er einnig gerður til að gera veiðiréttarhöfum og veiðileyfasölum auðveldara að gera veiðistaði sína sýnilegri, auka upplýsingaflæði til áhugasamra veiðimanna, og auka sölu veiðileyfa. Þetta er gert með sérstakri gullskráningu svæðisins.

Takmarkið að skrá öll helstu veiðisvæði landsins áður en yfir líkur, með myndefni, vídeo klippum, vinsælum flugum á viðkomandi stað, veiðikortum, verð veiðileyfa, myndaalbúmum, veðrinu á staðnum, staðsetningu á korti, fjarlægðir frá höfuðborginni, eða öðrum stöðum, veiðitölum síðustu ára með fallegum gröfum og fleira og fleira. Þetta er nýtt í þeirri flóru af veiðitengdu efni á netinu og bíður upp á spennandi möguleiki.

Nú þegar eru skráð um 300 veiðivötn og ár með mismundandi mikið af upplýsingum. Stefnt er að fyrir vorið verði þessi tala komin í 400 ~ 500.Þessi tala mun svo hækka eftir því sem líður á árið.Þessi vefur er hreint einkaframtak og er ekki fjármagnað af neinu fyrirtæki eða stofnun. Því er jafnræðis og hlutleysis algerlega gætt.

Framtíðarmarkmiðin eru háleit og munu næstu skref í þeirri áætlun líta dagsins ljós síðar á árinu.
Vefur sem þessi er engan vegin í líkingu við það sem er fljótandi um Internetið í dag, og því um hreina nýjung í flóruna fyrir hungraða veiðiáhugamenn að ræða.

,,Veiðistaðavefurinn er ekki söluvefur, heldur frír upplýsingavefur fyrir alla sem hafa gaman að veiði, eða þá sem vilja stíga sín fyrstu skref í veiði og þurfa að fá upplýsingar um veiðisvæði landsins.Í tilefni að opnun vefsins setti Veiðistaðavefurinn í gang glæsilega ljósmyndakeppni á Facebook vef sínum http://www.facebook.com/veidistadavefurinn og eru glæsileg verðlaun í boði í 10 flokkum. Það er því ekki slæm hugmynd að kíkja í myndaalbúmið og senda flottar myndir í keppnina sagð," Halldór og við óskum til hamingju með vefinn.

12.jan. 2016 - 11:38 Gunnar Bender

Gríðarleg aukning er í fjölda umsókna

Nú er úthlutun veiðileyfa að hefjast hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur (SVFR) en umsóknarfrestur rann út á miðnætti að kvöldi 10. janúar. Gríðarleg aukning er í fjölda umsókna á milli ára því umsóknir eru um 80% fleiri en í fyrra, þrátt fyrir að félagsmönnum hafið fækkað lítið eitt á milli ára.

Framboð félagsins er svipað og fyrir ári, Steinsmýrarvötn hverfa á braut en Þverá við Haukadalsá kemur ný inn í söluskrá.  

Það er alltaf sami áhuginn á Elliðaánum, þær munu seljast upp í úthlutun eða því sem næst, eins og undanfarin ár. Það verður dregið um leyfin í Elliðaánum fimmtudaginn 28. janúar fyrir opnum tjöldum í húsnæði SVFR við Rafstöðvarveg. Bjarni Júlíusson, fyrrverandi formaður félagsins mun halda þar um stjórntaumana eins og áður.

Það er líka sótt gríðarlega vel um Hítarána, hún hefur verið gjöful undanfarin ár og félagsmenn geta eldað sjálfir í Lundi á ákveðnum tímabilum. Þá virðast félagsmenn SVFR taka Haukadalsánni býsna vel og er mikið sótt um leyfi í henni. Eins er Gljúfurá eftirsótt, sem og Andakílsá,  Bíldsfell í Sogi, Gufudalsá og Fáskrúð.

Langáin er vel seld og virðast félagsmenn hafa tekið breytingum á leyfðu agni síðasta sumar ákaflega vel en eingöngu má veiða á flugu í Langá. Meira er sótt um daga í september en áður enda um mjög hagstæð veiðileyfi að ræða miðað við veiðivon. Þá eru urriðasvæðin fyrir norðan í þokkalegum gír. Forsalan í haust gekk vonum framar og svo virðist sem ársvæði SVFR séu betur seld nú en oft áður. Kannski engin furða sé litið til þess hversu vel veiddist í ám félagsins á síðasta sumri.

Ljóst er að salan í sumar verður góð en salan nú er meiri en á sama tíma í fyrra.

11.jan. 2016 - 16:01 Gunnar Bender

Langtímasamningur um Varmá – Þorleifslæk

Stangaveiðifélag Reykjavíkur og Veiðifélag Varmár – Þorleifslækjar hafa skrifað undi langtímasamning um leigu árinnar til ársins 2025. Í samningnum felst m.a. að aðstaða veiðimanna verður bætt en ráðist verður í byggingu veiðihúss við ána í sumar. Átak verður gert í veiðistaðamerkingum fyrir sumarið, veiðivarsla verður efld og betra skipulagi komið á skiptingar veiðisvæða.

Í Varmá er sjóbirtingur alls ráðandi en þar má einnig veiða bleikju og jafnvel lax. Birtingarnir í Varmá geta orðið ógnarstórir og því ekki seinna vænna en að bóka stefnumót við þá. Veiðitímabilið er langt, það hefst 1. apríl og veitt er út 20. október. Veiðileyfi eru á hagstæðu verði og stutt að fara enda nýtur áin sívaxandi vinsælda.

Hér er griðastaður fluguveiðimanna en rétt er að taka fram að til þess að hlúa að fiskistofnum þessa viðkvæma vatnasvæðis skal öllum fiski skal sleppt fyrir 1. júní. Eftir það er kvótinn einn fiskur á hverja stöng á dag og eftir það má að veiða og sleppa að vild.

Í Veiðimanninum sem kemur út í janúar er að finna netta veiðistaðalýsingu sem auðveldar veiðimönnum sem vilja reyna sig í Varmá að taka þar fyrstu skrefin. Einnig veitir Björn Níelsson formaður árnefndar SVFR við Varmá okkur innsýn í þetta magnaða veiðivæði.

10.jan. 2016 - 21:57 Gunnar Bender

Víða hægt að veiða á ís þessa dagana

 ,,Ég kíkti aðeins upp af Hafravatni og þetta er allt að koma enda spáð frosti næstu daga,“ sagði dorgveiðimaður sem við heyrum í í gær og hann var að byrja dorgveiðina, en það er víða hægt að veiða á ís þessa dagana.

Hérna rétt fyrir utan Reykjavíkur, austur fyrir fjall, fyrir vestan , norðan og austan, vötn eru víða sem hægt er að  veiða á.  Það þarf bara að biðja um leyfi og ná síðan í stöngina og borinn, fiskurinn er undir ísnum

Veiðimenn voru út á Reynisvatni í dag í góðu veðri en frosti. Sástu þeir útá vatninu og fengu allavega einn fisk þegar fylgst var með þeim. Tveggja punda regnbogi.

09.jan. 2016 - 12:01 Gunnar Bender

Ótrúlegur niðurskurður hjá veiðifélaginu

Eftir marga fundi og mikið brölt hefur veiðifélag Laxar á Ásum valið Stulla kokk til að selja veiðileyfin fyrir veiðifélagið 2017. Fyrst voru valdir tíu aðilar og skoðaðir í bak og fyrir, en síðan skorið niður í þrjá og valinn einn úr þeim hópi.

Flestir þeir sem selja veiðileyfi eða koma eitthvað nálægt þessu voru í tíu manna hópunum. En síðan hófst niðurskurðurinn og eftir stendur Stulli.

Svona hefur aldrei verið gert áður svo vitað sé í veiðiheiminum og hefði kannski átt að gera líka í Norðurá í Borgarfirði þegar Einar Sigfússon var valinn. En koma tímar koma ráð.

06.jan. 2016 - 22:42 Gunnar Bender

Stulli kokkur selur veiðileyfi í Laxá í Ásum

Laxá á Ásum hafa konungbornir og frægir sem ófrægir sótt heim til margra ára og notið þar nálægðar við íslenska náttúru. Framundan eru miklar breytingar á þjónustu og sölufyrirkomulagi veiðileyfa auk þess sem nýr rekstraraðili tekur við á næsta ári.

Rarik er að leggja niður Laxárvatnsvirkjun sem nýtt hefur vatnið í efri hluta árinnar frá 1932. Að sögn Páls Árna Jónssonar, formanns veiðifélags Laxár á Ásum, þýðir þetta að vatnsmagnið í efri helmingi árinnar muni þrefaldast.

,,Vatnið sem í rúma 8 áratugi hefur streymt um vélar virkjunarinnar og í ána 7 km fyrir neðan útfallið úr Laxárvatni rennur hindrunarlaust í öllum árfarveginum. Heildarlengd árinnar með fullu rennsli er eftir niðurlagningu virkjunarinnar 15 km í stað 8 km áður. Auk þess er ósasvæðið 3 km og heildarveiðisvæðið því 18 km. Þetta leiðir af sér fjölgun veiðistaða auk þess sem veiðistaðir sem voru vatnslitlir þegar leið á veiðisumarið batna. Þá hefur breytingin í för með sér endurheimt búsvæða í efri helmingi árinnar, sem leiðir af sér meiri seiðaframleiðslu. Afleiðingin verður væntanlega enn aukin laxgengd á komandi árum.” segir Páll.


Nýir veiðistaðir líta dagsins ljós

Á undanförnum árum hefur verið veitt á tveimur svæðum í ánni, ósasvæðinu og aðalsvæði árinnar. Veiðifélagið hefur tekið ákvörðun í ljósi niðurlagningar virkjunarinnar að sameina ósasvæðið og aðalsvæðið frá og með veiðisumrinu 2017 og verður þá veitt á fjórar stangir eins og var fyrir tíma virkjunarinnar.

,,Laxá á Ásum er ein af fengsælustu laxveiðiám landsins. Veiðifélagið hefur í gegnum árin lagt sífellt meiri áherslu á að auka þjónustu við veiðimenn og ætlar sér að taka enn ríkari þátt í uppbyggingu árinnar. Markmið okkar er tvíþætt: Að Laxá á Ásum verði í hópi allra bestu veiðiáa hvað varðar veiði, þjónustu og aðstöðu og að áin verði sem best nýtt sem sjálfbærum hætti eins og hún hefur verið frá ómunatíð. “ segir Páll.

Síðustu árin hefur um 80% af veiddum löxum verið sleppt. Almennt er opnað fyrir laxveiði í ánni í kringum 20. júní, en hún hef­ur löngum verið gjöf­ul­asta laxveiðá lands­ins sé miðað við veiði á hverja stöng. Fjöldi laxa á síðasta veiðitímabili var 1.795, sem þýðir nálægt 10 löxum á stangardag að meðaltali.

Fimm stjörnu þjónusta í glæsilegu veiðihúsi

Samningar við núverandi rekstraraðila renna út á næsta ári og er þeim þökkuð ágæt samvinna. Stjórnin ákvað í framhaldi af þessum breytingum að ganga til samninga við Sturlu Birgisson, matreiðslumeistara og veiðimann, um rekstur á ánni frá 2017-2021. Samningurinn felur í sér að Sturla sér um sölu veiðileyfa, markaðssetningu og rekstur á glæsilegu veiðihúsi árinnar. Húsið var byggt árið 2012 og ætlunin er að stækka og endurbæta það enn frekar til þess að geta veitt veiðimönnum enn betri þjónustu.

,,Við erum afskaplega heppnir að fá Sturlu til samstarfs við okkur en með samningnum við hann verður þjónusta við veiðimenn aukin og boðið verður upp á fimm stjörnu þjónustu allan veiðitímann. Þá er átt við morgunmat, hádegismat og dýrindis kvöldmat eins og Sturlu einum er lagið,” segir Páll.

Samfélagsleg ábyrgð

Laxá á Ásum hefur í gegnum árin gefið  mikla veiði.  Stjórn veiðifélagsins leggur áherslu á að ganga vel um og varðveita sjálbæran laxastofn árinnar. Aðgengi að ánni er auðvelt og í hana gengur gríðarlegt magn af laxi ár hvert. Það er mikilvægt að réttu skilyrðin séu fyrir hendi og er ekki að ástæðulausu að hróður árinnar hefur borist víða.


 

05.jan. 2016 - 10:15 Gunnar Bender

Helvíti var þetta meiriháttar gott

,,Konan mín gaf mér fluguveiðistöng í jólagjöf, þessa fínu stöng og allan pakkann. Ég fór út í garð og æfi mig aðeins með stöngina,“ sagði veiðimaður sem vildi frekar sleppa því að nafnið hans yrði birt.

,, Að fara út í garð dugði bara ekki, ég varð að fá meira út úr stönginni en þetta. Náði mér kuldagalla og stakk stönginni inni  bíl og keyri upp í Hvalfjörð. Dreif mig út og læddist bakvið næsta hóla. Frábært veður og smá gola. Kastaði á ána nokkrum sinnum og ekkert gerðist enda desember. Stöngin var meiriháttar og nokkur köst, en engin hreyfing. Færði mig frá hólnum og kastaði,  en festi fluguna í klaka og kastaði  aftur og lét reka niður hylinn,“ sagði veiðimaðurinn.

Og hann hélt áfram.

,,Allt í einu þessi svaka taka, dró fiskinn inn varlega og losaði úr honum og sleppti. Læddist uppí bíl og lét mig hverfa upp Kjósaskarðið, dagurinn var fullkominn, Helvíti  var þetta meiriháttar gott,“ sagði veiðimaðurinn. Stöngin hafði verið reynd í desember og fiskur á. Enginn trúði honum þegar heim var komið ekki einu sinni konan hans. En dagurinn var frábær.