05. jún. 2012 - 23:24Gunnar Bender

Fyrsti dagurinn gaf 16 laxa

,,Þetta er bara frábært. Fiskurinn er greinilega komin víða um ána og 16 laxar fyrsta daginn er meiriháttar," sagði Bjarni Júlíusson formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur en þessi byrjun í ánni lofar góðu með sumarið og laxveiðina yfir höfuð. Fiskurinn er greinilega mættur.

 

Formaðurinn spáði 27 laxa veiði, það verður örugglega. Jafnvel miklu meira. Dagurinn í dag var frábær og allir eru laxarnir vænir og fallegir.

 

,,Maður skelfur eftir fyrsta lax sumarins, tilfinningin er góð," sagði Árni Friðleifsson og hann bætti um betur seinni partinn.

 

Mynd. Félagarnir Bjarni Júlíusson og Árni Friðleifsson létttir í lund eftir góðan dag í Norðurá.

 
22.maí 2015 - 15:25 Gunnar Bender

Búinn að hnýta helling í vetur

Það er margir sem bíða eftir veiðisumrinu víða um land. Einn af þeim veiðimaðurinn ungi Ólafur Jónsson á Reyðarfirði, sem við hittum í dag eystra.

,,Ég er búinn að hnýta helling í vetur,“ sagði Ólafur og sýndi blaðamanni flugurnar flottu sem hann hafði hnýtt og ætlaði að reyna með í sumar.

,,Það verður gaman að prufa og sjá hvað gerist. Ég ætla eitthvað með afa mínum í sumar og svo á kæjakinn minn sem ég keypti mér. Það verður gaman að veiða á honum í sumar,“ sagði Ólafur ennfremur.

Fátt er skemmtilegra en að veiða á flugur sem maður hefur hnýtt og kasta þeim fyrir lax og silung. Spurning er bara hvort hann tekur, það er málið.

 

22.maí 2015 - 14:20 Gunnar Bender

Skýrist á næstu dögum hverjir munu opna Norðurá

Það er víst búið að ákveða hverjir munu opna Norðurá  Í Borgarfirði en Einar Sigfússon sölustjóri veiðileyfa í ánni segir að það verði gert opinbert innan fárra daga tíðar hverjir það eru. 

Í fyrra opnuðu Sigmundur Davíð  Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ána og það vakti verulega athygli meðal þjóðarinnar. Bjarni fékk lax en Sigmundur ekki högg. 

Laxinn er líklega kominn í Norðurá en hann hefur ekki sést ennþá enda kannski ekki verið að skoða ána á hverjum degi.

22.maí 2015 - 14:15 Gunnar Bender

Langtímasamningur um Svalbarðsá í Þistilfirði

Veiðifélagið Hreggnasi ehf og Veiðifélag Svalbarðsár í Þistilfirði gengu nýlega frá langtímasamningi um leigu veiðiréttar á vatnasvæði árinnar.

Svalbarðsá hefur átt miklum vinsældum að fagna meðal veiðimanna síðastliðin ár. Meðalveiði undanfarinna sumra er um 400 laxar, en þar af hefur hlutfall stórlaxa í aflanum verið yfir 70%. Þá hefur meðalveiði á hverja dagsstöng verið um 2.5 laxar á stangardag, en aðeins er veitt á 2-3 stangir yfir þann stutta veiðitíma sem nýttur er árlega.

Hreggnasi ehf hefur komið að leigu Svalbarðsár allt frá árinu 2007. Þá reis nýtt og glæsilegt veiðihús við ána. Frá árinu 2009 hefur Svalbarðsá verið veidd undir „veiða og sleppa“ fyrirkomulaginu en við það hafa veiðitölur og seiðavísitala vaxið mjög til hins betra.

20.maí 2015 - 15:43 Gunnar Bender

Konur hnýta með meistara Klinken

Hans van Klinken, sem m.a. hannaði hina frægu Klinkhammer þurrflugu, verður með ókeypis námskeið í fluguhnýtingum fyrir konur í húsakynnum Stangveiðifélags Hafnarfjarðar, Flatahrauni 29 kl. 18 á morgun, fimmtudag. Áður en námskeiðið hefst heldur Hans stutt erindi um veiðar og umhverfisvernd en hann er eftirsóttur fyrirlesari um stangaveiði.

Auk þess að vera þekktur hnýtingameistari er Hans van Klinken með þekktustu veiðiblaðamönnum í heiminum og skrifar reglulega pistla sem birtir eru í mörgum helstu miðlum stangaveiðimanna í þremur heimsálfum. Frægasta flugan sem hann hefur hannað er Klinkhammer þurrflugan. Hann hefur hannað margar fleiri flugur sem þykja mjög góðar, t.d. Leadhead. Hans þykir sérlega líflegur fyrirlesari og hefur kennt fluguhnýtingar um allan heim.

,,Mér finnst skemmtilegast að kenna konum að hnýta, og vil fá fleiri konur inn í stangaveiðina. Þess vegna legg ég mesta áherslu á námskeið fyrir konur og hef haldið þau um allan heim,” segir Hans van Klinken. 

Námskeiðið er haldið á vegum Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar og kvennadeildar Stangaveiðifélags Reykjavíkur, en er opið konum utan félaganna. Hans van Klinken er staddur hér á landi á vegum Íslandsdeildar Contintental trout Conservation Fund, sem vinna að umhverfismálum innan stangaveiði.

Konur sem hyggjast hnýta sjálfar og fá leiðbeiningar frá Hans þurfa að taka með sér efni og eigin tæki, en að öðru leyti mun Hans fara ítarlega yfir hvernig helstu flugur hans, einsog Klinkhammer, eru hnýttar.

 

20.maí 2015 - 10:06 Gunnar Bender

Bleikjan að mæta í Breiðdalinn

Silungsveiðin er að víða að batna, veðurfarið hefur skánað og fiskurinn að gefa sig. Vötnin kringum Reykjavík hafa verið að gefa eins og Elliðavatn, Vífilstaðavatn, Kleifarvatn og Hlíðarvatn. En við skulum aðeins kíkja miklu austar.

,,Við fengum fína veiði í gærmorgun í bleikjunni en þær tóku Bleik og Bláa, BÍ BÍ og Súddan, þetta var gaman,“ sagði Súddi sem veiddi á stuttum tíma níu fallegar bleikjur niður í ós Breiðdalsár í gærmorgun. það hafði  aðeins hlýnað. Það virðist vera töluvert af bleikju á svæðinu og hún er að gefa sig aðeins.

 

18.maí 2015 - 12:01 Gunnar Bender

Þá fór silungurinn að taka

,,Við skelltum okkur í Selvallavatn um helgina. Það var norðanátt en ekki sami kuldinn og búið að vera,“ sagði Bjarni Júlíusson er við heyrum hvað hefði gerst í fyrsta veiðitúr sumarsins á nesinu.

,,Vatnið samt ennþá dálítið kalt en við lentum bara í fínni veiði. Það þurfti að finna réttu fluguna. Fyrst var Nobblerinn reyndur, Krókurinn, Beyglan, Héraeyra, Watson‘s fancy og ekki högg. En þegar gamli góði Peacockinn var settur undir, fór hann að taka.  Ég held að þarna verði veisla um leið og það fer að hlýna meira,“ sagði Bjarni ennfremur.

16.maí 2015 - 21:13 Gunnar Bender

Bubbi sér fleiri laxa í Kjósinni

Bubbi sá fyrsta laxinn í Laxá í Kjós fyrir nokkrum dögum og hann sá annan lax við brúna á þjóðveginum í dag líka. En svo virðist sem laxar  séu að skríða uppí Laxá í Kjós þessa dagana í þó nokkru mæli.

Frægt var á sínum tíma þegar Þórarinn Sigþórsson sá fyrir nokkrum árum helling af laxi fyrir opnun árinnar og var hún blá af laxi á vissum svæðum hennar. Sá tími er kannski að koma aftur. Fyrstu laxarnir hafa sést í henni 7.maí svo tíminn passar allavega.

13.maí 2015 - 16:11 Gunnar Bender

Bubbi sá fyrsta laxinn í Kjósinni

Tíminn er að koma í veiðinni, laxinn er á leiðinni og jafnvel komnir þeir fyrstu. Í Hvítá í Borgarfirði er hann á leiðinni upp ána, þó svo að maðurinn sjái hann ekki.   Bubbi Morhens er búinn að sjá fyrsta lax sumarsins en fiskinn sá hann í Laxá í Kjós í vikunni.

,,Já ég sá lax í Kvíslarfossi,“ sagði Bubbi Mothens í samtali við Veiðipressuna en hann er sá fyrsti sem sér lax á þessu sumri í laxveiðiánum.

,,Þetta var allavega einn lax,“ sagði Bubbi ennfremur. Já laxinn er að mæta, hans tími er kominn. Biðin styttist með hverjum deginum. 

12.maí 2015 - 16:24 Gunnar Bender

Fyrstu laxarnir að renna sér upp Hvítána

Þrátt fyrir kuldatíð eru fyrstu laxarnir að renna sér upp Hvítá í Borgarfirði þessa dagana, stóru laxarnir. Vatnið er gott í Hvítánni núna  eða eins og segir í bókum Björn J. Blöndal mætir stórlaxinn yfirleitt á þessum tíma og hefur gert í fjölda ára, jafnvel fyrr. 

Veiðimenn sem voru í Kjarrá fyrir tveimur árum lentu í því að lax sem þeir veiddu um miðjan júní var leginn. Sem þýðir jafnvel að hann hefur komið í lok apríl. Það vor var mjög hlýtt, öfugt við það sem er núna daga eftir dag.

10.maí 2015 - 08:50 Gunnar Bender

Simms dagar um helgina

,,Ég skrapp sem sagt í Kollafjörðinn um síðustu helgi  í góða veðrinu til þess að prófa nýjar stangir enda veðrið sem á fallegum sumardegi,“ sagði Ólafur Vigfússon  um ferð í blíðunni um síðustu helgi í Kollafjörðinn.

,,En  það verður þó að segjast eins og er að ég varð ekki var við mikið líf,“ sagði Ólafur ennfremur.

En um helgina eru Simmsdagar í Veiðihorninu og ýmislegt hægt að sjá þar og skoða. Í gær lögðu margir leið síðna í Veiðihornið að skoða.

 

 

09.maí 2015 - 15:00 Gunnar Bender

Fullt út úr dyrum hjá Stangveiðifélaginu

,,Þetta var bara frábært. Ingvi Hrafn talaði allavega í einn og hálfan tíma um Langá á Mýrum stanslaust  og Ási og Gunni voru líka góðir," sagði okkar maður í fjörinu hjá Stangó á síðasta opna húsi ársins semvar í gærkveldi og var mætingin mjög  góð.

En það styttist í að laxveiðin byrji fyrir alvöru og veiðimenn að setja sig í gírinn fyrir átök sumarins. Glæsilegir vinningar voru í boði í happdrættinu fyrir stórfé. 

02.maí 2015 - 22:27 Gunnar Bender

Fyrsta bleikjan komin á land

,,Þetta var skemmtilegt, hún tók í fyrsta kasti fluguna BÍBÍ,“ sagði Þröstur Elliðason leigutaki Breiðdalsár sem veiddi fyrstu bleikjuna á sumrinu við ós árinnar.

 ,, Við sáum fleiri fiska en þeir tóku ekki og þeir voru vænir,“ sagði Þröstur skömmu eftir að fiskurinn kom á land. Bleikjan er greinilega mætt. Hennar tími er komin.

Það er ekki hægt að segja að veðurfarið sé gott það fraus í lykkjunni, en það er spáð aðeins hlýrra. Það eru líka allir að bíða eftir því.

 

02.maí 2015 - 17:57 Gunnar Bender

,,Við erum að byrja veiðina,,

,,Við erum að byrja veiðina hérna í Brunná á eftir. Ég var hérna fyrir skömmu síðan og fengum þá bleikju og urriða,“ sagði  Matthías Hákonarson er við heyrðum í honum á bökkum árinnar.

,,Það eru fáir sem nýta sér vordaga ì Brunnà en þar veiði ég mest à vorin og eru urriðarnir og sjòbirtingarnir margir mjög stórir og sprækar bleikjur líka inn à milli. Einungis er veitt  um helgar í apríl og maí þannig að hver hópur fær ánna vel hvílda,,“ sagði  Matthías ennfremur.

Lausa daga er hægt að finna à aðeins 7500 kr stöngina innà kaupaleyfi.is og veiðivon er töluverð.

01.maí 2015 - 23:38 Gunnar Bender

Rúmur mánuður þangað til laxveiðin byrjar

 Það eru ekki nema rétt mánuður þangað til laxveiðin byrjar í Norðurá, Straumunum og Blöndu.  Fyrstu laxarnir eru að ganga í Hvítá í Borgarfirði þessa dagana , stóru laxarnir en enginn veit hvernig laxveiðin verður í sumar.

Fáir hafa viljað spá fyrir um veiðina. En einn af þeim sem er viss  um veiðina er séra Gunnlaugur Stefánsson formaður veiðifélags Breiðdalsár.

,,Þetta verður gott sumar fyrir veiðimenn, það er mín tilfinning,“ sagði Gunnlaugur og ætlaði að renna eitthvað fyrir lax í sumar.

Tíðarfarið er ekki gott víða ennþá, snjóaði í Breiðdal í morgun og erfitt að hafa áhuga á veiði í þessum kulda. Það átti samt að reyna með kvöldið, það hafi aðeins hlýnað. Það var heila málið.

 

01.maí 2015 - 12:40 Gunnar Bender

Fékk forláta flugustöng og hólk sem afi hans smíðaði

Daníel Máni á Blönduósi fékk betur flotta flugustöng í fermingagjöf um síðustu helgi þegar afi hans Jón Albert Óskarsson gaf honum stöng og hólk sem hann hafði smíðað fyrir fermingarbarnið.

Og þetta vakti ekki neina smá ánægju hjá fermingarbarninu. Handfangið er úr korki, rósavið og hreindýrshorni. Sage stöng (plankinn). Stöngin er svo merkt með nafni Daníels. Nafnið er grafið í hólkinn sem er búinn til úr gegnheilu parket.

Fermingabarnið var rosalega  ánægt með stöngina og mun örugglega reyna hana fljótlega þegar fer að  hlýna í kringum Blönduós og fiskurinn að taka.

 


29.apr. 2015 - 09:59 Gunnar Bender

Hótelstýra með veiðibakteríu

Gyða Sigríður Einarssdóttir hefur tekið við rekstri Hótel Húnavalla. Fyrir hana er svæðið tilvalið enda má segja að hótelið sé í hjarta veiðiparadísar fyrir norðan. Við hittum Gyðu og tókum hana tali.

„Þetta verður vonandi bara skemmtilegt að taka við hótelinu á Húnavöllum yfir sumar tímann, en ég búin að fá það til leigu næstu tíu árin. Þarna er stutt í alvöru veiði," sagði Gyða Sigríður Einarsdóttir í samtali, þegar styttist í veiðina og veiðisumarið.

Gyða Sigríður er ein af þeim sem þykir gaman að renna fyrir lax og veiða silung en hún hefur veitt marga sjóbirtinga og nokkra laxa í gegnum árin, vítt og breitt
um landið.

„Staðurinn er fallegur og stutt í veiðilendur, t.d. út á Skaga, en þar eru mörg góð veiðivötn og lækir. Einnig er stutt i vötn eins og Hópið, Laxárvatn og Svínavatn sem eru stutt frá hótelinu.Laxveiðiár eru allt í kring þarna og má þar nefna ár eins og Blanda, Laxá Refasveit, Svartá, Laxá á Ásum, Vatndalsá og Víðidalsá svo dæmi séu tekin. Svæðið hefur upp á mikla möguleika að bjóða og stutt í náttúruna, hvort sem það er veiðiskapur eða annað skemmtilegt."

Heldurðu að þú komist eitthvað í veiði samhliða hótelrekstrinum?

„Ég mun örugglega skreppa með synina að veiða og þá líklega í silung, jafnvel út á Skaga eða inn í Langadal í Móbergstjörnina, en þar er gaman að renna fyrir bleikjur hefur mér verið sagt og mig langar til að prófa,” sagði Gyða Sigríður.

„Ég reyni alltaf að fara að veiða á hverju sumri í laxi enda veiði skemmtileg," sagði Gyða og laumaði að okkur einni veiðisögu í lokin en sögusviðið er Grenilækur.

,,Mér dettur þessi veiðisaga núna  þar sem við veiddum í svarta myrkri. Þetta var í október, rétt fyrir lokun veiðitímabilsins í sjóbirtingnum, fyrir 18 árum síðan. Við vorum tvö að veiða með og áttum saman tvær stangir í Grenilæk. Það var mjög kalt þennan dag, hvít jörð um morguninn og ýmist rigning eða slydda yfir daginn. Við urðum lítið vör yfir daginn og ákváðum að færa okkur upp efsta veiðistaðinn á svæði fimm, Hávarðarhyl, undir kvöld í ljósaskiptunum. Strax í fyrsta kasti var sjóbirtingur á og þannig gekk þetta í rúma klukkustund og sumir létu virkilega hafa fyrir sér með löngum löndunartíma og miklum sporða köstum. Við notuðum bílljósin til að hafa einhverja birtu síðasta klukkutímann í fjörinu. Þetta er klárlega aflamet hjá mér á skömmum tíma og var stærstisjóbirtingurinn var 13 pund” sagði," Gyða Sigríður að lokum.

Á Húnavöllum er boðið upp á gistingu í 28 herbergjum ásamt svefnpokaplássi í sameiginlegu rými. Tjaldstæði, útisundlaug, heitur pottur, leiksvæði fyrir börn, úti sparkvöllur og íþróttahús sem mikið er notað fyrir ættarmót, er á staðnum.
29.apr. 2015 - 09:49 Gunnar Bender

Síðasta opna húsið hjá SVFR

Eftir rúma viku verður síðasta opna húsið hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og þar mun Ingvi Hrafn Jónsson sjónvarpsstjóri renna í gegnum Langá á Mýrum  eins og honum er einum lagið.

En Ingvi Hrafn þekkir Langá manna best eftir að hafa veitt og leigt ána til fjölda ára. Enda hafa fáir séð eins marga laxa í ánni í gengum tíðina og Ingvi Hrafn. Frásögin verður örugglega krydduð með mörgum góðum veiðisögum af bökkum árinnar. Við höfum líka heyrt að talað verði fram og til baka um Haukadalsá í Dölum á þessu síðasta húsi.

26.apr. 2015 - 12:47 Gunnar Bender

Kuldatíðin stöðvar ekki veiðimennina

Þrátt fyrir kuldatíð og áframhaldandi sömu spá. stoppar það ekki veiðimenn. Veiðimenn hafa verið duglegir á Þingvöllum og veiðin  hefur verið allt í lagi.

,,Ég var fyrir fáum dögum og veiddi fjóra en það var kalt, tveir voru yfir 10 pund,“ sagði veiðimaður sem ég hitti á förnum vegi. Í Þorsteinsvík hefur gengið ágætlega og nokkrir vænir komnir á land.

Fáir voru við Elliðavatn í fyrradag einn og einn en veiðin var ekki mikil. Við Hlíðarvatn í Selvogi var verið að tína rusl og renna aðeins um helgina. Veiðin byrjar þar 1.maí formlega. 

 

24.apr. 2015 - 10:44 Gunnar Bender

Landssamband Stangaveiðifélaga hefur sent ráðherra harðort bréf

Landssamband stangaveiðifélaga (LS) vill með bréfi þessu koma á fram færi sjónarmiðum sínum varðandi dreifingu norskra laxastofna hér á landi, meðal annars vegna fyrirhugaðs laxeldis í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði.

Þann 24. mars 2015 sendi Landssamband veiðifélaga þér bréf þar sem gerð er krafa um að lokað verði fyrir eldi á norskum eldislaxi í Eyjafirði og Ísafjarðardjúpi.  Í bréfinu er vísað til samkomulags frá október 1988 sem stjórnvöld og allir hagsmunaaðilar stóðu að með undirritun sinni.  Landssamband stangaveiðifélaga var aðili að þessu samkomulagi og tekur undir allar kröfur Landssambands veiðifélaga sem fram koma í bréfi þeirra.  Landssamband stangaveiðifélaga krefst þess að samkomulagið verði virt og að Eyjafirði og Ísafjarðardjúpi verði lokað fyrir eldi á laxi af norskum uppruna.

Nýlegt dæmi þar sem laxar sluppu úr kvíum á Vestfjörðum og veiddust í Patreksfirði í júlí 2014 sýnir að lítið má út af bregða ef ekki á illa að fara. Skýrsla Veiðimálastofnunar frá því í september sama ár staðfestir að þeir tugir laxar sem voru rannsakaðir voru allir með nokkuð þroskaða kynkirtla og virðast flestir hafa stefnt á hrygningu það haustið. Þetta eru váleg tíðindi, ekki þarf að fjölyrða um afleiðingarnar ef kynblöndun norskra eldislaxa og íslenska laxastofnsins yrði að veruleika. Fjöldi laxa sem sluppu í þessu tilfelli eru á reiki, ekki er loku fyrir það skotið að þeir skipti þúsundum og eigi jafnvel eftir að sjást á svipuðum slóðum í sumar.

Oft er sagt að náttúran eigi að njóta vafans, það á svo sannarlega við í þessu efni. Við gerum þá lágmarkskröfu til stjórnvalda að ráðuneytið virði það samkomulag sem við stóðum að í góðri trú og fulltrúi ráðuneytisins undirritaði ásamt öllum hagsmunaaðilum.  Með lokun þeirra svæða sem að framan greinir fyrir eldi á frjóum norskum laxi er stigið skref í þá átt að vernda íslenska laxastofna.  Sú skylda hvílir lögum samkvæmt einnig á stjórnvöldum.

 
F.h. Landssambands stangaveiðifélaga
Viktor Guðmundsson formaður LS
23.apr. 2015 - 13:21 Gunnar Bender

Kalt við Elliðavatn – fiskar ekki í tökustuði

Veiðimenn eiga góðar minningar frá veiðum í Elliðavatni og þar hefja margir þeirra veiðiferillinn. Það var einmitt í morgun sem vatnaði var opnað formlega á þessu tímabili. Nokkrir veiðimenn voru mættir á staðinn þegar fréttamann bar að garði. Það var létt yfir mönnum þrátt fyrir kuldann, menn báru sig vel og fannst fyrir mestu að draga fram veiðigræjurnar og renna fyrir fisk.

,,Ég er búinn að vera út á engjunum í allavega tvo tíma en ekki orðið var ennþá, það er alls ekki ekki svo kalt,, sagði Daníel Karl Egilsson, sem var við veiðar í Elliðavatni í morgun en var ennþá fisklaust þegar við hittum hann.,

Daníel Karl sagði Útiveruna góða og hann ætlaði að reyna annarsstaðar í vatninu," sagði veiðimaðurinn  og hélt á aðrar slóðir við vatnið.

Þegar við komum við vatnið voru ekki margir kannski 6-7 að veiða, reyna en fiskurinn var alls ekki í tökustuði enda ekki nema þriggja stiga hiti við vatnið. Geir Thorsteinsson var á þessum slóðum snemma í morgun og veiddi fimm góða fiska. Það var aðeins veiði.En hvar var sumarið?