29. sep. 2009 - 15:00Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Bankarnir brjóta eigin reglur - og komast upp með það

Í byrjun september birti Fjármálaráðuneytið „Eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum“ á vefsíðu sinni. Í inngangi þessa 10 blaðsíðna plaggs er tekið fram, að vegna þess að nú eigi ríkið eignarhluti í nokkrum fjármálafyrirtækjum þyki æskilegt og óhjákvæmilegt að skilgreina vel hlutverk og ábyrgð ríkisins sem eiganda sem og markmið með eignarhaldi ríkisins.

Hver skyldu svo markmiðin vera?

Þrjú meginmarkmið eru skilgreind. Ríkið vill stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og öflugs fjármálakerfis, sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags. Það vill byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði og það vill fá arð af því fé, sem það leggur til íslenskra fjármálafyrirtækja. Þetta er allt mjög gott og blessað eins langt og það nær.

Undirmarkmiðin eru fjögur. Það á að tryggja samkeppni á fjármálamarkaði til framtíðar. Fjármálastofnanir ríkisins eiga að haga starfsemi sinni þannig, að rekstur þeirra sé skilvirkur, markvisst sé unnið að endurskipulagningu og stuðlað að nýsköpun og þróun starfseminnar. Þá er áréttað að bankar og fjármálastofnanir, sem ríkið á eignarhluti í, þjóni markvisst heimilum og fyrirtækjum í landinu. Í þessum tilgangi skal sérstök áhersla lögð á að gera fólki kleift að standa við skuldbindingar sínar og styðja við lífvænleg fyrirtæki. Að lokum er tekið fram að við sölu á eignarhlutum ríkisins skuli lögð áhersla á að eignaraðild í fjármálafyrirtækjum verði dreifð.

Það er í sjálfu sér ekkert að þessum markmiðum. Þau eru mjög almennt orðuð og það markverðasta við þau er að það skuli hafa tekið næstum því heilt ár, frá því ríkið tók yfir nánast allt bankakerfið í landinu, þar til einhver vísir að stefnumörkun hins nýja eiganda varð til.

Áframhaldandi lestur plaggsins veldur hins vegar miklum vonbrigðum. Það er greinilegt að „Eigendastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum“ er skrifuð af embættismönnum fyrir embættismenn. Þýðingarlaust orðagjálfrið ætlar allt lifandi að drepa og engin leið er að draga neinar ályktanir um eigendastefnu ríkisins út fráþessu plaggi. Skilvirknin, sem þarna kemur fram, minnir um margt á kvikmyndina um „Ástrík í Rómarborg“ þar sem Gallarnir vösku voru sendir frá einum glugga til annars í kerfinu til að fá úrlausn sinna mála þannig að á endanum varð hringavitleysa úr öllu saman.

Enda er skilvirknin í íslenska bankakerfinu í dag slík, að skrifræðissérfræðingar í heimsklassa mættu vera stoltir af sköpunarverkinu.

Bankastjórar í krafti hvers?

Það vekur athygli, að ríkið sjálft virðist lítið fara eftir eigendastefnu sinni. Hefur t.d. starf einhvers bankastjóra verið auglýst hjá ríkinu? Ekki held ég það. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Kaupþings, var settur í það starf skömmu eftir hrun. Hann virðist helst hafa unnið það sér til ágætis að hafa verið vel tengdur forystumönnum Sjálfstæðisflokksins. Varla var hann ráðinn vegna afburðaárangurs í bankakerfinu, en tæpu ári áður en hann var ráðinn bankastjóri Kaupþings var hann látinn fara frá Icebank (Sparisjóðabankanum) eftir að hafa skuldsett þann banka upp í rjáfur.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, virðist helst hafa það sér til ágætis að hafa starfað innan Glitnis fyrir hrun og verið svo heppin að bankinn gekk aldrei frá kúluláninu, sem hún átti að fá til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Hún hefur afrekað það að stýra tveimur nafnabreytingum á Íslandsbanka – fyrst yfir í Glitni fyrir hrun og svo aftur yfir í Íslandsbanka eftir hrun. Ekki var hún valin til starfsins eftir auglýsingu.

Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Landsbankans, var ekki ráðinn eftir auglýsingu. Hann réð sig sjálfur eftir að Elín Sigfúsdóttir sagði starfi sínu lausu fyrr á þessu ári. Það er raunar algerlega óskiljanlegt að bankaráð Landsbankans skuli ekki hafa nýtt tækifærið, sem gafst þegar Elín óskaði eftir að láta af störfum, til að auglýsa stöðu bankastjóra lausa til umsóknar.

Er það eitthvað minni eða betri spilling, þegar embættismenn og kommissarar olnboga sig að kjötkötlunum en þegar auðkýfingar ráðskast með fjármálafyrirtæki sín?

Hver hefur valið þá sem sitja í bankaráðum ríkisbankanna?

Hver hefur ráðið skilanefndir bankanna? Hver setur bankaráðum og skilanefndum reglur og fylgist með því að farið sé eftir þeim? Eigendastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum fjallar í löngu máli um hitt og þetta varðandi rekstur, stjórnun og gegnsæi í fjármálastofnunum ríkisins en það er því miður allt froðusnakk. Ekki síst þegar horft er til þess að bankarnir og skilanefndirnar fara sínu fram og gefa hverjum þeim, sem gagnrýnir framgöngu þeirra og starf, langt nef.

Staðreyndin er sú, að ríkisbankakerfið á Íslandi, sem samanstendur af ríkisbönkunum og skilanefndum gömlu bankanna, er á methraða að verða subbulegt spillingarkerfi.

Landsbankinn þverbrýtur eigin reglur

Bankarnir sjálfir þykjast alheilagir og hafa í einhverjum tilfellum komið sér sjálfir upp vinnureglum, sem í orði kveðnu eiga að tryggja gegnsæi og forða spillingu. Þegar á reynir er lítið hald í þeim reglum vegna þess að bankarnir fara einfaldlega ekki eftir sínum eigin reglum.

Þó að ríkisbankakerfið hér á landi samanstandi af öllum ríkisbönkunum og skilanefndum gömlu bankanna er ekki úr vegi að líta sérstaklega á Landsbankann, sem vegna Icesave svikamyllu gamla Landsbankans mun án efa verða í beinni eigu íslenska ríkisins um langa hríð.

Landsbankinn hefur komið sér upp reglum um aðgerðir gagnvart fyrirtækjum í erfiðleikum. Í inngangi að reglunum er sérstaklega vísað í álit Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008, sem beinir því til viðskiptabanka í eigu ríkisins að við „ákvarðanir sem áhrif geta haft á framtíð fyrirtækja og samkeppni á Íslandi verði höfð hliðsjón af 10 meginreglum. Helstu meginreglur álitsins snúa að því að raska samkeppni sem minnst þegar kemur að endurskipulagningu fyrirtækja, auk þess að tryggja gegnsæi og hlutlægni við úrvinnslu mála eftir því sem kostur er.“

Landsbankinn skiptir aðgerðaáætlun vegna rekstrarhæfra fyrirtækja í þrjá flokka eftir því hve vandi þeirra er alvarlegur.

Fyrsti flokkur (A) kveður á um skuldbreytingu og frestun afborgana að hluta eða öllu leyti. Sérstaklega er tekið fram að við skuldbreytingu geti komið til hækkunar vaxtakjara.

Annar flokkur (B) kveður á um frekari skuldbreytingu. Þarna býður bankinn upp á að fresta jafnvel greiðslu vaxta og tekur skýrt fram að slík skuldbreyting geti leitt til hækkunar vaxtakjara líkt og í A. Þá er vikið að þeim möguleika, að hluta skulda verði breytt í víkjandi lán eða hlutafé og ef lánum sé breytt í hlutafé skuli það nema 35-45 prósentum heildarhlutafjár jafnframt því, sem tekið verði veð í hlutum annarra hluthafa til að auðveldlega sé hægt að taka fyrirtækið yfir með hröðum og skilvirkum hætti. Bankinn hyggst sem sé ekki ganga inn í hlutafélög öðru vísi en að hafa kverkatak á öðrum hluthöfum.

Þriðji flokkurinn (C) kemur til þegar bankinn tekur yfir fyrirtæki (væntanlega í krafti stöðu sinnar eftir að hafa nýtt sér leið B til að ná yfirburðastöðu gagnvart öðrum hluthöfum í einhverjum tilfellum). Leið C verður einungis farin þegar um stærri fyrirtæki er að ræða.

Landsbankinn setur sér skýrar reglur varðandi aðkomu að fyrirtækjum, sem hann eignast hlut í vegna skuldbreytingar. Þar er sérstaklega kveðið á um stjórnarsetu. Bankinn segist áskilja sér rétt til að eiga fulltrúa í stjórn en bætir við að „Almennt mun bankinn fremur nýta sér áheyrnarrétt en skipa fulltrúa í stjórn...“.

Landsbankinn setti í maí á fót sérstakt eignaumsýslufélag til að halda utan um hluti, sem bankinn eignast í fyrirtækjum í fjárhagserfiðleikum. Félag þetta heitir Vestia ehf. og framkvæmdastjóri þess er Steinþór Baldursson, sem áður var forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans um árabil. Þórður Ólafur Þórðarson, sem einnig hefur starfað hjá Landsbankanum, starfar ásamt Steinþóri hjá Vestia.

Svo sem gefur að skilja eru verkefni Vestia ærin. Ætla skyldi að helstu stjórnendur félagsins hefðu nóg á sinni könnu. Þeir Steinþór og Þórður virðast hins vegar vera miklar hamhleypur til verka. Nýverið hafa þeir tekið sæti í stjórnum tveggja fyrirtækja, sem Landsbankinn hefur verið að leysa til sín hluti í. Hér er um að ræða Teymi og Geysir Green Energy – engin smáfyrirtæki.

Þórður er stjórnarformaður Teymis og Steinþór óbreyttur stjórnarmaður. Þeir eru báðir óbreyttir stjórnarmenn hjá GGE. Þetta þykir vel af sér vikið hjá þeim félögum, en almennt er talað um að menn, sem ekki gegna öðrum störfum, geti með góðu móti sinnt 4-5 stjórnarsetum. Þeir Steinþór og Þórður láta sig lítið muna um að sitja í tveimur krefjandi stjórnum auk þess að annast daglegan rekstur Vestia, sem fer sívaxandi eftir því sem fleiri fyrirtæki lenda í vandræðum gagnvart Landsbankanum.

Það er einnig athyglisvert að stjórnarseta þeirra félaga gengur beint gegn yfirlýstri stefnu Landsbankans varðandi stjórnarsetu í fyrirtækjum, sem bankinn eignast með umbreytingu skulda í hlutafé.

Það þarf ekki að koma á óvart þó að bönkunum gangi illa að framfylgja stefnu stjórnvalda um að aðstoða heimilin, eða auglýsa stöður bankastjóra og annarra framkvæmdastjóra, þegar þeir geta ekki einu sinni farið eftir sínum eigin reglum.

Það er vert að velta því fyrir sér hvort bankaráð Landsbankans hefur lagt blessun sína yfir þessa stjórnarsetu starfsmanna bankans í trássi við starfsreglur bankans. Eða eru starfsreglur Landsbankans bara eitthvað ofan á brauð?

Nýr spillingaraðall

Í skjóli íslenska ríkisins er að verða til ný forréttindastétt, sem skákar í skjóli óskilvirkni og ógegnsæis ríkisrekstrar. Í ríkisrekstri er það nefnilega svo að það er enginn eigandi. Stjórnendurnir virðast fara sínu fram og gefa eigendum og eftirlitsaðilum langt nef og jafnvel löngutöng ef því er að skipta.

Hverjir eru svo þessi stjórnendur? Jú, þetta eru að stórum hluta þeir sömu og fleyttu rjómann ofan af þeirri vitleysu og spillingu, sem viðgekkst innan bankakerfisins fyrir hrun að viðbættum nokkrum ríkisbubbum, sem í skjóli pólitískra tengsla hafa náð að olnboga sig að kjötkötlunum.

Á Íslandi er að verða til elíta, sem baðar sig í peningum almennings og gefur skítinn einan fyrir þennan sama almenning og þær hörmungar, sem íslensk heimili og fyrirtæki eru að ganga í gegnum í kjölfar hrunsins, sem bubbarnir bera ábyrgð á.

Slæmt var bankakerfið fyrir hrun, en spillingin undir pilsfaldi ríkisins og með þegjandi samþykki þess er algerlega óþolandi.
01.okt. 2009 - 17:15 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Fjárlagafrumvarp Steingríms J. byggir á óskhyggju

Sérstök orku- umhverfis- og auðlindagjöld eiga að færa ríkissjóði 16 milljarða í tekjur á næsta ári. Þetta eru nýir skattar, sem ekki hafa þekkst hér á landi áður. Algerlega á eftir að skilgreina þessa skattheimtu að öðru leyti en því að hún á að skila umræddum 16 milljörðum á árinu. Ekkert mat er lagt á það hverjar afleiðingar þessarar skattheimtu geta orðið á orku- og auðlindanotendur. Nokkuð ljóst er þó öllum þeim, sem það vilja sjá, að einhvers staðar þarf að taka þessa 16 milljarða. Í fjárlagafrumvarpinu virðist vera gert ráð fyrir því að peningarnir annað hvort vaxi á trjánum eða falli af himnum ofan.
30.sep. 2009 - 18:15 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Icesave bjargaði Ögmundi - ríkisstjórnin líka hólpin

Svarið við þessum spurningum er, að afsögn Ögmundar Jónassonar snerist ekki á nokkurn hátt um Icesave. Icesave var hins vegar tilvalin tylliástæða fyrir Ögmund að nota fyrir afsögn sinni. Með þeim hætti getur hann slegið sig til riddara fyrir að hafa fylgt samvisku sinni. Svo fer Ömmi frændi bara í frí eða kallar inn varamann, þegar Icesave málamiðlunin verður tekin til atkvæða á Alþingi. Þannig hleypir hann því máli í gegn. Ögmundur mun svo svara gagnrýni á það að hann hafi hleypt Icesave í gegn með því að benda á að hann hafi nú fórnað heilu ráðherraembætti til að geta fylgt samvisku sinni án þess að fella ríkisstjórnina.
10.sep. 2009 - 09:05 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ræða Obama í nótt: Mótum framtíðina en óttumst hana ekki

Fyrirfram var vitað að ræðan í nótt yrði einhver hin mikilvægasta á forsetaferli Obama. Heilbrigðismál eru eitt helsta baráttumál hans og ljóst að, þegar kreppu og fjármálahruni sleppir, verða það heilbrigðismálin, sem munu skera úr um það hvort hann hefur haft erindi sem erfiði í þessu valdamikla og erfiða embætti. Það þarf engum að koma á óvart þó að Obama setji heilbrigðismál í öndvegi. Svartir íbúar Bandaríkjanna eru ríflega tíu hundraðshlutar þjóðarinnar. Rúmlega helmingur þeirra, sem ekki hafa sjúkratryggingar, eru hins vegar svartir. Umbætur í heilbrigðismálum eru því hluti af réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum.
08.sep. 2009 - 16:30 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Viljum við missa þetta fólk? Megum við missa það?

Það mun á endanum kosta Ísland miklu meira að gera ekkert fyrir heimilin en að viðurkenna vandann og taka myndarlega á honum – jafnvel þó að það þýði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Bretar og Hollendingar og einhverjir fleiri fari í fýlu út í okkur. Fulltrúar AGS þurfa ekki að búa í þessu landi og deila kjörum með þjóðinni. Ríkisstjórnin hagar sér eins og hún telji sig líka undanþegna því að deila kjörum með þjóðinni.
03.sep. 2009 - 09:40 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Þetta eru andlitin á bak við skuldirnar, kæra Jóhanna

Bankinn þeirra, sem er einn af nýju ríkisbönkunum, bauð þeim upp á þá lausn mála, að hann leysti húsið til sín fyrir 25 milljónir, ef þau gætu komið með góðar tryggingar fyrir afganginum af skuldinni, sem stóð í 70 milljónum. Þá væri örugglega hægt að semja um eitthvað greiðsluplan á 45 milljónunum, sem út af stóðu. Þetta var sama húsið og bankinn hafði metið á 60 milljónir 5 árum fyrr.
27.ágú. 2009 - 14:50 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ætlum við að drepa okkur?

Við verðum eitthvað að gera til að snúa af þeirri braut, sem við erum á. Það er sérlega óheppilegt að peningar safnist upp í bönkum, þegar þeirra er þörf til að drífa áfram hagkerfið. Þess vegna er mjög mikilvægt að afnema strax verðtrygginguna og lækka vexti niður á það stig, sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Við Íslendingar erum í dýpstu efnahagslægð, sem gengið hefur yfir nokkurt vestrænt ríki í áratugi, en keyrum vaxtastefnu eins og við séum að berjast við ofurþenslu. Þessu verðum við að hætta.
21.ágú. 2009 - 13:44 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hverjir ættu að biðjast afsökunar - og á hverju?

Úr hópi bankamanna færi sennilega vel á því að eigendur opg stjórnendur Landsbankans færu fremstir í flokki og bæðu íslensku þjóðina afsökunar á framferði sínu. Stjórnendur og ábyrgðarmenn Seðlabankans ættu að gera slíkt hið sama. Það er ekki vitað til þess að einn einasti seðlabanki, annar en Seðlabanki Íslands, hafi orðið tæknilega gjaldþrota vegna erfiðleika á fjármálamörkuðum. Flestir seðlabankar högnuðust á kreppunni vegna þess að þá jukust útlán þeirra og þar með vaxtatekjur. En, vel að merkja, aðrir seðlabankar en sá íslenski tóku tryggingar fyrir útlánum sínum.
13.ágú. 2009 - 14:05 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Fellur ríkisstjórnin? Hverjir yrðu þá ráðherrar?

Líklegt verður að telja að forsetinn sé búinn að koma sér upp nafnalista yfir þá, sem hann hefði áhuga á að kalla til ef hann neyðist til að setja á fót utanþingsstjórn. Hér á árum áður var altalað að til væri listi með nöfnum manna, sem kallaðir yrðu til í utanþingsstjórn, en oft munaði litlu að t.d. Kristján Eldjárn neyddist til að grípa til þess úrræðis þegar stjórnmálamenn gátu ekki komið sér saman um stjórnarmynstur.

Efsta nafn á þeim lista var nafn Jóhannesar Nordal, þáverandi seðlabankastjóra. Hann skyldi vera forsætisráðherra. Einnig var nafn Jónasar Haralz á listanum, en honum var ætlað að sjá um efnahags- og fjármál. Báðir eru þessir menn á lífi í dag og við góða heilsu að best er vitað. Þeir eru hins vegar orðnir mjög fullorðnir báðir og þrátt fyrir góða kosti beggja verður ekki leitað til þeirra að þessu sinni.

10.ágú. 2009 - 10:39 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Sjálfseyðingarhvöt Íslendinga

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur sagt að það gangi ekki að bankaleynd sé notuð til að fela markaðsmisnotkun og Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, telur rétt að láta hagsmuni bankaleyndar víkja fyrir almannahagsmunum. Þetta er athyglisverð afstaða af hálfu forráðamanna ríkisstjórnar og almannavalds. Halda ráðherrarnir virkilega að bankaleynd skýli lögbrotum? Til hvers halda þeir að FME og efnahagsbrotadeild séu, og til hvers halda þær stöllur að embætti sérstaks saksóknara hafi verið stofnað? Treysta þær kannski ekki „kerfinu“? Vilja þær dómstól götunnar? Er þetta uppbyggilegt framlag til endurreisnar Íslands?
06.ágú. 2009 - 12:04 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Köld eru kvennaráð

Þessari stjórn varð hins vegar á í messunni þegar hún kom aftan að forstjóra bankans og gróf undan honum með bókun sinni. Svona gera stjórnir fyrirtækja ekki! Annað hvort nýtur forstjórinn trausts og fullkomins stuðnings stjórnar eða stjórnin finnur sér annan forstjóra. Svo einfalt er það. Í þessu tilfelli kemur stjórnin í bakið á forstjóranum og fer með rangt mál í bókun sinni. Í því tilviki er það ekki forstjórinn, sem á að víkja, heldur stjórnin í heild sinni eða þeir stjórnarmenn, sem bera ábyrgð á því að hafa blekkt hina.
30.júl. 2009 - 10:57 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Íslendingar borga ekki Icesave...einir!

Ítrekað er hefur verið sýnt fram á að við Íslendingar ráðum ekki við að greiða Icesave. Þeir sem halda öðru fram lifa í einhverjum sýndarheimi þar sem hagvöxtur verður hærri næstu 15 árin en hann hefur verið á nokkru 15 ára tímabili í sögu þjóðarinnar. Þessum mikla hagvexti fylgir, í sýndarheiminum, jákvæður vöruskiptajöfnuður, sem er langt yfir því, sem nokkurn tíma hefur náðst yfir lengra tímabil en eitt ár í senn. Þetta er nauðsynlegt til að afla gjaldeyris til að borga Icesave. Gallinn er sá, að í þessu felst mótsögn. Miklum hagvaxtarskeiðum fylgir gjarnan vöruskiptahalli. Helsta leiðin til að koma í veg fyrir vöruskiptahalla er að hneppa atvinnu- og efnahagslífið í helsi hafta, sem núverandi ríkisstjórn virðist svo sannarlega ætla að gera. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar, að haftabúskapur hefur reynst máttlaus uppspretta hagvaxtar. Hér stöndum við sennilega frammi fyrir annarri Catch-22 stöðu.
23.júl. 2009 - 10:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hin vanhelgu vé Davíðs, Kjartans og Björgólfsfeðga

Það er ánægjuefni ef erlendir bankar hefja starfsemi hér á landi þó að aðdragandinn hafi því miður þurft að verða algert hrun íslenska efnahags- og bankakerfisins. Landsbankinn verður hins vegar áfram í eigu ríkisins. Staða hans er of hryllileg til að til greina komi að erlendir kröfuhafar taki hann yfir.

17.júl. 2009 - 13:57 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Umsóknin samþykkt - hvað nú?

Nú stendur íslenska ríkisstjórnin frammi fyrir nokkrum vanda. Annar stjórnarflokkurinn hefur haft það að sinni stefnu að Ísland gangi í ESB. Þessi stefna Samfylkingarinnar er í grunninn ekki runnin upp úr þörf okkar fyrir nýjan og traustan gjaldmiðil. Samfylkingin skilgreinir sig sem evrópskan jafnaðarmannaflokk og vill sem slík sitja við Evrópuborðið með hinum. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Líklegt er að meirihluti þeirra Íslandinga, sem styðja aðild að ESB, geri það á þeim forsendum að það þjóni hagsmunum okkar að komast inn í gjaldmiðilssamstarfið.
03.júl. 2009 - 09:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Icesave margfalt verri en Versalasamningurinn

Icesave samningurinn, sem ríkisstjórn Íslands reynir nú að fullvissa þing og þjóð um að sé besti samningur, sem við Íslendingar eigum völ á, leggur mun þyngri byrðar á herðar Íslendinga en Versalasamningurinn að lokinni Fyrri heimsstyrjöldinni lagði á herðar þýsku þjóðarinnar.
26.jún. 2009 - 12:35 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Þarf alltaf að byrja að skera á Grensás?

Á næstu þremur árum þurfum við Íslendingar að loka tæplega 200 milljarða fjárlagagati. Þetta verðum við að gera með því annað hvort að afla nýrra tekna eða að skera niður útgjöld. Í ljósi þeirrar stöðu, sem íslenskt efnahagslíf er nú um mundir, er líklegt að tekjuöflun muni lítið duga. Við okkur blasir því niðurskurður.

Fyrir nokkru var greint frá því að sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu myndi byrja á því að draga úr starfsemi Grensásdeildarinnar, sem hefur skilað ómetanlegu starfi í endurhæfingu þeirra, sem orðið hafa fyrir áföllum vegna slysa og veikinda. Fátt kemur á óvart í þessu. Þegar spara á í heilbrigðiskerfinu er yfirleitt byrjað þar sem síst skyldi. Með þeim hætti tekst stjórnendum heilbrigðiskerfisins gjarnan að búa til samúð með kerfinu úti í þjóðfélaginu og kalla fram kröfu um að ekki verði sparað þar.

19.jún. 2009 - 11:50 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Spron var tekinn af lífi

Laugardaginn 21. mars setti Fjármálaeftirlitið (FME) skilanefnd yfir SPRON. Þetta var lokaleikurinn í tryllingslegri baráttu um líf og dauða vinsælasta viðskiptabanka landsins.

12.jún. 2009 - 14:35 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Trúgirni og átrúnaður Íslendinga

Íslendingar hafa löngum liðið fyrir mikla trúgirni sína. Veröld Íslendinga er gjarnan svart hvít en ekki í gráskala og hvað þá í lit. Menn eru annað hvort góðir eða vondir. Hið sama gildir um málefnin.
05.jún. 2009 - 12:51 Björn Ingi

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ó vakna þú mín Þyrnirós...

Á Íslandi ríkir sofandaháttur. Seðlabankinn sefur, ríkisstjórnin sefur. Meira að segja þjóðin virðist sofa – eða er hún e.t.v. dofin?
22.maí 2009 - 10:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hvernig varð Seðlabankinn gjaldþrota?

Á haustdögum horfðum við á stóru bankana þrjá hrynja rétt eins og fúnir spítnakofar hefðu orðið fyrir jarðýtu. Síðan þá höfum við þurft að horfa á eftir þremur öðrum bönkum. Þannig eru fallnir sex íslenskir bankar; Landsbankinn, Glitnir, Kaupþing, Straumur, Sparisjóðabankinn og Spron. Það er mismikil eftirsjá eftir þessum bönkum. Sumir þeirra voru klárlega komnir í þrot og var ekki viðbjargandi. Öðrum virðist hafa verið synjað um fyrirgreiðslu, sem einhvers staðar og einhvern tíma hefði þótt eðlileg. Kaupþing var keyrt í þrot með ofbeldisverknaði breskra stjórnvalda.