23. jan. 2011 - 16:00Gunnar Guðbjörnsson

Frá Rúnari Þórissyni
Rúnar Þórisson, tónlistarmaður og gítarleikari hljómsveitarinnar Grafík, hefur sent Menningarpressunni eftirfarandi grein.
Á sama tíma og pólitísku menningarvitarnir sem nú sitja í borgarstjórn Reykjavíkur njóta þess að baða sig í sviðsljósinu í trú um að þeir séu að vinna góð verk fyrir borgina, ráðast þeir að einni helstu forsendu þess að þeir verma sína pólitísku stóla.
Hver hefði fyrir borgarstjórnarkosningar trúað því að fólkið sem það kaus og nú ræður í borginni – fólk sem sumt hefur persónulega notið góðs af listastarfsemi og tekið brosandi við styrkjum eða öðrum viðurkenningum á hátíðarstundu, - myndi ráðast að listastarfsemi með slíku offorsi sem nú er gert gegn tónlistarskólum í Reykjavík.
Það er verið að tala um 140 milljóna niðurskurð á þessu ári sem þýðir 30-40% niðurskurð frá hausti til áramóta. Hnífnum er svo stungið í bak skólanna þegar talað er um 11% niðurskurð á ársgrundvelli því hvernig eiga skólarnir að geta skorið niður í sínum rekstri aftur í tímann. Staðreyndin er sú að öll upphæðin verður dregin frá fyrstu mánuðina á næsta skólaári.
Undanfarið hafa opinberir aðilar veitt auknu fé til eflingar tónlistarstarfsemi og útrásar hennar en á sama tíma eru þeir að kippa undan helstu undirstöðu þessarar starfsemi. Almennt tónlistarnám er einn mikilvægasti hlekkurinn í því að hér hefur orðið til fjölbreytt flóra tónlistarmanna sem náð hefur vinsældum og athygli erlendis og eiga sinn þátt í að menningin velti árið 2009 um 191 milljarði króna sem er rúmlega 6% af heildarveltu þjóðarbúsins. Á Íslandi er algengt að fólk setji börn sín í tónlistarnám sem m.a. skýrist af því að miðstétt er fremur fjölmenn á Íslandi og hún hefur haft það frekar gott (þó vissulega hafi dregist saman síðustu ár). Þeir er sannarlega ófáir sem spila rokktónlist og hafa áður lagt stund á tónlistarnám og notið góðs af því í sköpun sinni. Má nefna Björk, Hjaltalín, Benna Hemm Hemm og fleiri sem m.a. hafa stundað framhaldsnám í Lisaháskóla Íslands, en námið þar verður ekki til nema fyrir tilstuðlan undistöðumenntunar almennra tónlistarskóla.
Það er ótrúlegt þegar menn sjá ekki samhengi hlutana. Einn þeirra sem nú situr við völd í borginni, - ekki viss um að hann hafi tónlistarmenntun að baki - hefur notið góðs af ávöxtum góðs gengis íslenskra tónlistarmanna og fékk m.a. útrásarverðlaun Reykjavíkur Loftbrúar árið 2006. Þó það sé ekki viðfangsefnið hér er ekki hjá því komist að sjá íroníuna í því að andúð fyrrum pönkara við ríkjandi stofnanir og hefðir er greinilega ekki eins hatrömm og áður, þeir sitja í borgarstjórn og njóta nú viðurkenningar þeirra sem andúðin beindist að í upphafi.Þeir búa líka að því að eiga rætur í jaðarhópi sem í upphafi 9. áratugar síðustu aldar með pönkinu tókst strax að skapa sér orð og að tryggja stöðu sína sem „neðanjarðarelíta“ hér á landi og hafa ekki glatað henni síðan. Það væri undarlegt ef þeir héldu stöðu sinni sem slíkir ef áform þeirra ná fram að ganga, nú orðnir dæmigerðir niðurskurðar pólítíkusar og embættismenn. Það er hreint ótrúlegt af þessum mönnum að þeir skuli með niðurskurðahnífnum ráðast hvað harðast að sprotanum í skapandi listum. Hefði ekki trúað því!