14. des. 2010 - 23:05Gagnrýni

Björg Magnúsdóttir: Takk útrásarvíkingar - Nei, takk Lára Björg!

Lára Björg var krýnd ungfrú 10. bekkur í æsku.

Lára Björg var krýnd ungfrú 10. bekkur í æsku. María Guðrún Rúnarsdóttir

Takk útrásarvíkingar

Lára Björg Björnsdóttir

Útgefandi: Sena


Takk útrásarvíkingar eftir Láru Björgu Björnsdóttur er einhver alferskasta bók sem ég hef lesið í langan tíma. Hugmyndirnar í henni bullsjóða, eru (vonandi) stórlega ýktar á köflum og súrrandi klikkaðar lýsingar eru hvergi sparaðar. Textinn er stundum svo grillaður og fyndinn að það er ekki annað hægt en að staldra við og þurrka fruss af blaðsíðum sem spýtist óhjákvæmilega úr munni lesenda sem engjast um af hlátri við lesturinn.

Það er verulega fyndið að lesa lýsingar Láru Bjargar á sínu eigin lífi og skoðunum. Að hún vilji sjá gljáfægða grillpalla um sumur í hábjörtu báli, að hún hafi, sem barn, kastaði blautu sundhandklæði til systur sinn til þess að draga hana upp ísi þakta brekku og að vinahópur hennar hafi birgt sig upp af ólíklegum matvörum veturinn 2008-2009. Textinn er ljóslifandi, útþaninn af gríni og ekki leynir sér að höfundur er skrambi ritfær. Bókin er í einu orði sagt ofurskemmtileg! Tvö dæmi:
Ég er alltaf jafn gáttuð að ég skuli vera á lífi eftir innkaupaferðir í Bónus. Mér finnst fólk jafnan vera þangað komið í þeim eina tilgangi að myrða hvert annað. Ýmist með dónaskap og hreinni illmennsku eða bara í kerruklessuakstri.
Og bein tilvitnun í eina vinkonuna um ljótt drasl sem nágrannar sanka að sér í útigörðum:
…og síðan draga þau kannski fram járnbaujur og jafnvel bara gömul tundurdufl frá Seyðisfirði og skella á hlaðið hjá sér eða svalirnar bara! Þetta getur eyðilagt líf fólks, fagurfræðilega.
Þó að bókin sé ein löng og svívirðilega fyndin raunasaga Láru Bjargar eftir hrun íslenska fjármálakerfisins er alvarlegur undirtónn í henni. Til að mynda þegar höfundur fjallar um stöðu kynjanna á ónefndum vinnustað og aðbúnað handa börnum með fötlun í íslensku samfélagi.

Takk útrásarvíkingar! Takk fyrir að hafa orsakað að Lára Björg skrifaði bók. Með því hafið þið bætt fyrir hluta voðaverka ykkar.

 31.ágú. 2016 - 14:00 Kynning

Nýjar bækur: NORN!

Pabbi hefur eignast kærustu. Hún er með sítt hár, sítt, grænt og úfið hár. Og skemmdar tennur. Vörtur. Uppmjóan hatt. Það er brennisteinslykt af henni. Hún er NORN!
20.jan. 2016 - 11:00

Játning Karls Ágústs: Vil vita hvað ég sé fyrir mörgum öryrkjum

„Ég hef lifað af ritlist í um það bil 35 ár. Ég lagði það á mig að mennta mig sérstaklega í þessari grein og ná mér í meistaragráðu. Ég hef meira að segja kennt blásaklausum ungmennum þetta vafasama fag í rúm 15 ár í þremur þjóðlöndum og sumir af nemendum mínum hafa jafnvel náð athygli á ritvellinum, illu heilli eða góðu,“
27.okt. 2015 - 10:44

Leiðinlegur hversdagsleiki eða hættuleg glæpabraut

Inn í myrkrið er óvenjuleg spennusaga að því leyti að hún er að mestu sálræn. Þó að vissulega gerist miklir atburðir inn á milli þá er sagan fyrst og fremst raunsæ lýsing á manni sem hefur misst tökin á lífinu og sogast æ lengra inn myrkrið. Helsta togstreitan er á milli þess hvort að aðalpersónan Óskar, sem er fastur í ástlausu hjónabandi sem er ekkert nema vaninn einn, kjósi að halda sig við örugga en leiðinlega hversdagsleikann eða velji hina spennandi en hættulegu óvissu sem fylgir glæpalífinu.
06.apr. 2015 - 13:45

Erfið æska, framhjáhald, svik og vanræksla í úthugsuðu verki

Bonita Avenue eftir Peter Buwalda er fyrsta bók höfundar er um margt mjög áhugaverð, ágeng og spennandi og er það ótrúlegt að þetta sé frumraun Buwalda. Hann hefur starfað lengi sem blaðamaður og ritstjóri, þannig að hann er ekki alls óvanur skriftum, en þessi saga er samt mjög faglega skrifuð og fléttan bæði flókin og vel unnin.
24.mar. 2015 - 01:13

Fimm stjörnu farsi í Hveragerði

Eftir mjög erfiða byrjun á þessari annars ágætu helgi skellti ég mér í Leikhús í Hveragerði föstudagskvöldið 20. mars og fylgdist með sýningunni á farsanum Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan sem leikfélagið sýnir þessi misserin. Ingrid Jónsdóttir er leikstjóri verksins.
20.jan. 2015 - 18:09

LOLITA: Útsmoginn og falskur Humbert svífst einskis í 5 stjörnu verki

Bókin Lólíta er fyrir löngu talin helsta bókmenntaverk síðustu aldar og það ekki að ósekju. Að lesa þessa bók er eins og skella sér til sunds, fara á bólakaf og koma ekki upp fyrr en þér er þrotinn kraftur og önd.
27.des. 2014 - 18:47

Sjálfstætt fólk – hefðbundnari sýning en búist hafði verið við

Jólafrumsýning Þjóðleikhússins í ár var ný leikgerð á Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness. Það var spenna í leikhúsgestum fyrir frumsýninguna enda einhvern veginn búið að planta þeirri hugmynd í fjölmiðlum að hér væri á ferðinni byltingarkennd uppfærsla í höndum leikstjóra sem óhikað færi sínar eigin leiðir, óttalaus um móttökur áhorfenda og stjörnulausa dóma. Þessi grallaralega markaðssetning olli því kannski að það tók áhorfendur dálítinn tíma að gefa sig á vald sögunnar.
16.des. 2014 - 19:55 Kristjón Kormákur Guðjónsson

Hálfsnert stúlka Bjarna með því betra sem er að finna í flóðinu í ár

Bjarni Bjarnason hefur fyrir margt löngu skapað sér sess sem einn af betri núlifandi rithöfundum þjóðarinnar. Bjarni hefur hingað til verið þekktastur fyrir verðlaunaverk sitt Borgin á bak við orðin, sem kom út árið 1998 og Endurkomu Maríu sem Ormstunga gaf út árið 1996. Höfundur hefur síðan þá vaxið með hverri bók. Ekkert verk hefur þó vakið jafn mikla athygli og þau verk sem nefnd eru hér að ofan. Hálfsnert stúlka Bjarna er þó með hans betri verkum og minnir nokkuð á þá  bækur sem komu honum á kortið. Þess má geta að útgáfuréttur á bókinni hefur þegar verið seldur til Bretlands.
12.des. 2014 - 20:43

Draumar, atvinnuleysi, fátækt og drykkjuskapur í Vonarlandi Kristínar

Verk Kristínar Steinsdóttur þekkja flestir, en ferill hennar sem barnabókahöfundar er bæði langur og farsæll.
09.des. 2014 - 10:57 RaggaEiríks

Ofbeldissamband skáldkonu og siðblindingja: Ragga rýnir í nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur

Ég ætlaði aðeins að glugga í bókina og klára hana kannski seinna. Ég lagðist í rauðan leðursófa og byrjaði að lesa, ég þurfti oft að skipta um stellingu því lesturinn fór alveg inn í mig. Ég gat ekki lagt bókina frá mér.
08.des. 2014 - 21:14 RaggaEiríks

Hold og heitir kroppar: sirkus Íslands sýnir jólakabarett

Ég er agalega mikil sirkusmanneskja. Ég elska loftfimleika og þegar ég varð lítil varð ég algjörlega innblásin og uppnumin ein áramótin af atriði í Billy Smart þar sem tvö börn í hvítum sokkabuxum gengu um og sýndu jafnvægiskúnst á stórum hvítum kúlum.
01.des. 2014 - 14:05 RaggaEiríks

Ragga les bók: KATA eftir Steinar Braga: Er maðurinn kona?

Margir höfðu varað mig við Kötu, sagt að hún væri svakaleg/erfið/átakanleg/sjokkerandi. Nokkrir höfðu líka sagt að allt þetta kvenlega innsæi væri alls ekkert undarlegt miðað við þá staðreynd að höfundurinn hefði búið með bráðskýrri skáldkonu á meðan hann skrifaði bókina.
30.nóv. 2014 - 17:39 Ragnheiður Eiríksdóttir

Ragga fer í leikhús: Hilmir Snær svitnar - Beint í æð í Borgarleikhúsinu

Verkið Beint í æð, sem sýnt er um þessar mundir á stóra sviði Borgarleikhússins, tikkar í öll farsaboxin í bókinni. Á sviðinu eru fernar dyr, misskilningur hrúgast á misskilning ofan, skarpir en þó fyrirsjáanlegir brandarar eru endurteknir í sífellu...
28.nóv. 2014 - 12:40 Kristín Clausen

Frábærir svarthvítir dagar

Jóhanna Kristjónsdóttir hefur afrekað margt og mikið um ævina, hún hefur verið blaðamaður, rithöfundur og unnið þrekvirki við að kynna Miðausturlönd fyrir Íslendingum, bæði með skrifum sínum og ferðalögum. Þá skrifaði hún mjög merka bók um hjónaband sitt og Jökuls Jakobssonar leikritahöfundar, Perlur og steinar, þar sem erfiðleikum vegna alkóhólisma var lýst af hispursleysi en líka samúð og skilningi.
25.nóv. 2014 - 00:26

Ofsi - Sturlungasaga með stæltum krafti og kjarki

Það er ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir verkefnavali leikhópsins Aldrei óstelandi. Að setja saman sína eigin leikgerð upp úr Ofsa Einars Kárasonar, þannig að sagan gangi upp með einfaldri sviðsmynd og fjórum leikurum, er mikið hættuspil. Fyrir áhorfendur var sýningin því ekki aðeins spennandi vegna hins magnaða söguþráðs og meitlaða texta, flestir biðu líka í ofvæni eftir útfærslunni.
24.nóv. 2014 - 15:42 Ragnheiður Eiríksdóttir

Ragnheiður fer í leikhús: OFSI

Leikhópurinn Aldrei óstelandi frumsýndi Ofsa, sem byggt er á samnefndri skáldsögu Einars Kárasonar, sunnudagskvöldið 23. nóvember.
18.okt. 2014 - 19:00

Karitas – í baráttu við sviðið

Bryndís Loftsdóttir skrifar Það er vandasamt verk að sviðsetja vinsælar skáldsögur en vel þess virði þegar best tekst til. Karitas án titils, skáldsaga Kristínar Marju Baldursdóttur kom út árið 2004 og framhaldið, Óreiða á striga árið 2007. Bækurnar nutu báðar gríðarlegra vinsælda og hafa auk þess verið þýddar á fjölmörg tungumál.  Það kemur því ekki á óvart að áfram sé glímt við sögu Karítasar, að þessu sinni á stóra sviði Þjóðleikhússins.
03.okt. 2014 - 13:00 Kristín Clausen

Afinn er fjögurra stjörnu skemmtun: Salurinn vældi úr hlátri þrátt fyrir alvarlegan undirtón

Kvikmyndin Afinn sem byggir á samnefndu leikriti sem sýnt var í Borgarleikhúsinu er frábær viðbót við íslenska kvikmyndaflóru. Persónusköpun myndarinnar er þétt og svo vel unnin að auðvelt er að lifa sig inn í tilvistarkreppu Guðjóns og fjölskylduerjurnar sem koma upp vegna þess hve hann virðist týndur í lífinu.
30.maí 2014 - 07:52

Der Klang der Offenbarung des Göttlichen – Kraftbirtíngarhljómur guðdómsins

Der Klang der Offenbarung des Göttlichen eða Kraftbirtíngarhljómur guðdómsins, er nokkuð sérstakur listviðburður.  Ragnar Kjartansson útfærir risavaxnar sviðsmyndir innblásnar úr Heimsljósi Halldórs Laxness á stóra sviði Borgarleikhússins og fær Kjartan Sveinsson, fyrrum hljómsveitarmeðlim í Sigur Rós,  í lið með sér til að semja tónlistina.
27.apr. 2014 - 12:58

Eldraunin - einn af hornsteinum leikritasögunnar - textanum treyst til að fylla sviðið

Leikararnir Hilmir Snær Guðnason, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir og Stefán Hallur Stefánsson voru sannfærandi og logandi heit á frumsýningarkvöldinu. Eftir seigt upphaf átti Sigurður Skúlason einnig flotta spretti. Bryndís Loftsdóttir fjallar um Eldraunina.