12. apr. 2015 - 10:00
„Þetta er maður sem lifir í mjög hörðum heimi og hefur aldrei verið númer eitt, en þegar vinur hans deyr þá opnast möguleikinn fyrir hann á að taka það skref og prófa að verða að ágengari persónu,“ segir Sverrir Guðnason um hlutverk sitt í sænsku kvikmyndinni Flugparken, opnunarmynd Stockfish-kvikmyndahátíðarinnar sem hófst í gær, fimmudaginn 19. febrúar. Myndin hefur hlotið fjölda verðlauna og var Sverrir valinn besti leikarinn á sænsku kvikmyndaverðlaununum fyrir leik sinn í myndinni. Sverrir hefur hægt og sígandi verið að klifra upp á stjörnuhimininn í sænska leiklistarheiminum og er um þessar mundir einn allra vinsælasti leikari Svíþjóðar.

Margverðlaunaður Sverrir Guðnason hefur hlotið verðlaun fyrir leik á sænsku kvikmyndaverðlaununum tvö ár í röð, nú síðast sem besti karlleikari í aðalhlutverki fyrir kvikmyndina Flugparken. / Mynd: Sigtryggur Ari - Birtist áður í DV.
Orðinn þekkt andlit
„Ég er kominn í betri stöðu til að vinna með því fólki sem ég vil vinna með og leika í því sem ég vil leika í. Það er náttúrlega erfitt að vita fyrirfram hvernig mynd verður. En þetta styrkir möguleikana á því að vera í góðri mynd,“ segir Sverrir. Eftir mörg ár af litlum hlutverkum í ýmsum leikritum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum er Sverrir loks kominn fremst í sviðsljósið. Á dögunum hlaut hann Gullbjölluna, kvikmyndaverðlaun Svíþjóðar, annað árið í röð. Nú sem besti karlleikari í aðalhlutverki, (auk þess að vera tilnefndur sem besti karlleikari í aukahlutverki fyrir hlutverk í myndinni Gentleman) en í fyrra var hann kosinn bestur í aukahlutverki fyrir myndina Monika Z.
Hann segir að í heimaborginni, Stokkhólmi, sé hann ekki mikið stoppaður úti á götu en með athyglinni sé það þó smám saman að breytast. „Það var frekar lengi sem mér tókst að leika í myndum og vera að taka þátt í mörgum verkefnum án þess að fólk kannaðist við mig úti á götu – ég hef kannski líka þannig útlit að fólk þekkir mig ekki endilega. En nú er þetta farið að breytast og miklu fleiri farnir að vita hver ég er.“
Ákvað að gerast leikari eftir Heimsljós
Sverrir hefur stefnt á að lifa af leiklistinni allt frá unga aldri, en hann hóf ferilinn á Íslandi. Hann er fæddur í Svíþjóð árið 1978 en ólst upp á Íslandi til 12 ára aldurs og steig sín fyrstu skref í leiklistinni í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins árið 1989 og í Borgarleikhúsinu. Þar lék hann ungan Ólaf Kárason Ljósvíking í uppsetningu Kjartans Ragnarssonar á Heimsljósi Halldórs Laxness – allt upp frá því ætlaði hann sér að verða leikari.
Það var svolítið gott að hafa fengið að prófa að leika í alvörusýningu á alvörusviði í Borgarleikhúsinu. Við vorum alveg átta mánuði að vinna í þessu. Það gerði það að verkum að ég fattaði hvernig það er að vera leikari í alvörunni. Ég var mjög sáttur við það og vildi halda áfram.“
Sverrir segir foreldrana hafa stutt hann í að gera listina að ævistarfi: „Jú, þau sáu hvað mér fannst þetta gaman. En þegar maður er svona ungur þá á maður kannski ekki heldur að vera að loka öllum dyrum.“
Fjölskyldan flutti til Stokkhólms í Svíþjóð og var fyrst um sinn erfitt fyrir Sverri að sinna leiklistinni á meðan tungumálakunnáttan var af skornum skammti. „Það tók eiginlega ekki nema nokkra mánuði að ná hreimnum og svona, en það tók náttúrlega lengri tíma að fá orðaforða. Jafnvel eftir eitt og hálft ár í Svíþjóð komu stundum einhver orð sem 13 ára krakki ætti að kunna – eins og „stofa“ eða eitthvað – sem ég þekkti ekki.“
Hann segir það þó ekki hafa verið þannig að hann hafi alltaf þurft að leika útlending með bjagaðan talanda. „Þegar ég fór í menntaskóla var ég náttúrlega alveg kominn með sænskuna. Þar fór ég á leiklistarbraut og var svo alltaf að vinna með í sjónvarpinu. Síðan fékk ég vinnu í leikhúsi í Stokkhólmi og fór líka að leika í myndum.“
En hvað með íslenskuna, myndir þú treysta þér til að leika Reykvíking í dag? „Það væri svolítið spennandi,“ segir Sverrir og hlær. „Ég hef náttúrlega búið svo lengi úti. Maður getur leikið hvað sem er – ég hef leikið morðingja og hokkíhetju – maður þarf bara að setja sig inn í það. Ég þyrfti kannski að koma og búa í Reykjavík í einhvern tíma.“
Sænskur Taxi Driver
Sverrir segir að undirbúningurinn fyrir Flugparken hafi fyrst og fremst verið tilfinningalegur. Hann leikur ungan leikskólakennara og fyrrverandi íshokkíleikmann, Kille, sem verður óbeint valdur að dauða besta vinar síns, bullunnar Alex. Hegðun Kille, sem virkar mjúkur maður á yfirborðinu, fer smám saman að verða óútreiknanlegri og árásargjarnari. Hann gerir sér grein fyrir eigin undirlægjuskap, stefnir að því að koma í stað vinarins hjá eiginkonu og syni hans og gerir upp eineltisæskuna með því að siða til vandræðaunglinga þessa kuldalega sænska smábæjar. Sverrir hlaut ekki aðeins Gullbjölluna fyrir frammistöðuna heldur einnig verðlaun sem besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Thessaloniki í Grikklandi fyrir leik sinn.
„Ég hitti leikstjórann, Jens Östberg, yfir kaffibolla en í staðinn fyrir að láta mig fá handrit og segja mér að fara heim og lesa, sat hann og sagði mér alla myndina eins og sögu, senu fyrir senu og setningu fyrir setningu. Þegar hann hafði sagt mér alla söguna var ég búinn að drekka mitt kaffi en hann hafði ekki fengið sér sopa af sínu og drakk það bara kalt. Þetta gerði það að verkum að við vorum alveg á sömu línu með hvernig við vildum gera þetta, ég vissi hver sýn hans var á myndina. Við ræddum líka um þær myndir sem okkur fannst góðar, það var til dæmis Gerry, sem hann fílar mjög vel. Ég fann bara einhvern veginn að við vorum á sömu línu.“
Taxi Driver, eftir Martin Scorcese, er önnur mynd sem kemur upp í hugann, en þar er það sálrænt óstöðugi leigubílstjórinn og fyrrverandi hermaðurinn Travis Bickle sem ofbýður spilling og úrkynjun samfélagsins og ákveður að grípa til ofbeldis. „Það er líklega ein þeirra mynda sem hefur haft áhrif á Jens. En kannski ekki beint hjá mér, þetta var meira skrifað inn í handritinu. En margt í myndinni unnum við saman og byggðum karakterinn upp í sameiningu. Það gerðist að stórum hluta eftir að tökur hófust.“
Leikstjórinn Jens Östberg hóf ferilinn sem ballettdansari og danshöfundur. Hann vann aðalverðlaunin á einum helstu danshöfundaverðlaunum heims, Rencontres chorégraphiques internationales de Seine-Saint-Denis, aðeins 23 ára gamall. Sverrir segir þetta hafa nokkur áhrif á það hvernig hann nálgast leikstjórnina. „Ekki þannig að við séum að dansa einhver spor, en það hefur auðvitað áhrif að hann kemur úr dansheiminum og líka að áður en hann varð dansari þá var hann raunar í fótbolta og var kominn langt með það að verða atvinnumaður. Þú þarft að vera sérstök týpa til að meika það. Maður finnur það þegar hann er að vinna í handritinu og myndinni, þá hefur hann rosalega orku til að halda áfram. Hann er algjör hestur og það hlýtur að vera þetta hugarfar sem kemur úr þessum tveimur heimum sem hefur áhrif.“
ABBA og mamma Svarthöfða
Sverrir er þriggja barna faðir, afkvæmin eru tíu, átta og tveggja ára. Hann segir það ganga vel að samtvinna ferilinn og fjölskyldulífið. „Þegar ég er í leikhúsinu er þetta eiginlega erfiðara. Þá er maður svo rosalega lengi að vinna á daginn og kvöldin. Það er eiginlega þess vegna sem ég hef valið að vera meira í kvikmyndum. Þá ert þú „intensíft“ í tökum í nokkrar vikur og alveg brjálað að gera en svo er maður í fríi á milli. En fólk heldur náttúrlega að ég sé rosalega mikið að vinna af því að það komu út þrjár myndir á síðasta ári,“ segir Sverrir.
Og það eru enn fleiri verkefni í pípunum hjá Sverri. „Á mánudag var frumsýning á Cirkeln, mynd byggðri á sænskri unglingafantasíubók eftir Mats Strandberg. Hún er framleidd af Benny Anderson sem var í ABBA. Ég er svo byrjaður á næstu mynd sem byggð er á bókinni Alvarlegi leikurinn, Den allvarsamma leken, en það er Pernilla August – sem lék mömmu Anakin Skywalker, Svarthöfða – sem leikstýrir.“
Kristján Guðjónsson / birtist áður í DV.