21. jan. 2010 - 18:59

Bryndís Schram skrifar um Maybe I Should Have: Nýju fötin keisarans í nýjum búningi

Heimildamynd Gunnars Sigurðssonar um hrunið
„Maybe I should have”
Frumsýnd í Háskólabíói 20. jan.2010

Það er erfitt að ímynda sér fyrirfram, að hægt sé að búa til skemmtilega mynd um jafn dapurlegt efni og hrun heils þjóðfélags vissulega er. Þetta tekst Gunnari Sigurðssyni, leikstjóra, engu að síður í heimildamynd sinni um hrunið udir heitinu: “Maybe I should have”, sem sýnd var fyrir fullu húsi áhorfenda í Háskólabíói í gærkvöldi. Titillinn er sóttur í svar Geirs Haarde, þegar spyrillinn í Hard Talk á BBC þjarmaði að hinum lánlausa fyrrum forsætisráðherra og spurði, hvers vegna hann hefði ekki tekið upp málstað Íslands við George Brown, forsætisráðherra Breta. Svarið: “Ég hefði kannki átt að gera það” – verður lengi í minnum haft.

En hvernig fer Gunnar að því að halda athygli okkar óskertri í tæpa tvo tíma, meira að segja þannig, að salurinn veltist um af hlátri oftar en einu sinni? Skýringin er sú, að hann nálgast efnið eins barnið í dæmisögu H.C. Andersen um nýju fötin keisarans. Sjálfur er Gunnar fórnarlamb hrunsins – gjaldþrota Íslendingur – sem vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið. Einmitt þess vegna spyr hann einfaldra spurninga. Leit hans að svörum vítt og breytt um heiminn – í fjármálamiðstöðvum í London, New York og Luxemburg  - og frá Reykjavík til Berlínar, afhjúpar hann þann einfalda sannleika, að keisarinn er klæðlaus, að hinir rómuðu fjármálasnillingar voru í reynd grunnhyggnir aular, sem sjálfir voru leiksoppar afla, sem þeir hvorki skildu né réðu við.

Það var ömurlegt að horfa upp á og heyra Björgólf Thor junior fara með rulluna sína um, að hann skildi ekki sjálfur þann köngurlóarvef eignarhaldsfélaga, sem sérfræðingar í hans þjónustu höfðu spunnið utan um öll hans lánasöfn,  til þess að rugla eftirlitsstofnanir í ríminu og forða illa fengnu fé frá skattlagningu í þjónustu samfélagsins. Hann talaði um, að peningarnir væru bara horfnir og væru nú farnir  til himna – sem hann kallaði “money-heaven” og sitja þar væntanlega í skjóli peningaguðsins á himnum. Heitir hann ekki Mammon? En þegar Gunnar talaði við ellilífeyrisþegana á Guernsey, var alveg ljóst að ellilífeyrir þeirra samanstóð af raunverulegum peningum, sem þetta fólk hafði lagt fyrir til elliáranna. En það hafði verið brotist inn hjá þeim og ævisparnaðinum var stolið. Þjófarnir komu ekki af himnum ofan. Þeir komu frá Landsbankanum á Íslandi.

Það eru mörg eftirminnileg innslög í þessari mynd, þar sem söguþráðurinn er rakinn hratt og vafningalaust. Í einni senunni yfirheyrir Gunnar svo kallaða sérfræðinga hjá “Transparency International” í Berlín. Þetta er apparat, sem gegnir því sjálfskipaða hlutverki að gefa þjóðum heims siðferðisvottorð – eða eftir atvikum áminningu -  fyrir heiðarleika eða spillingu. Árum saman var Ísland í topp sætunum hjá þeim fyrir að vera eitt minnst spillta land í heimi. Hvernig funduð þið það út? spurði Gunnar. “Við tölum við leiðandi bissnissmenn, t.d. í bönkum og stórfyrirtækjum. Um þetta má segja: “if you ask a silly question, you get a silly answer.” Þarna hefði hann mátt bæta við viðtali við matsfyrirtækin, sem gáfu undirmáls- veðlánurunum í Ameríku og skuldapýramídunum, sem þöndu út íslenska bankakerfið, einkunnir upp á þrefalt A, allt fram undir daginn fyrir hrun.Það hefði verið fróðlegt að heyra þá svara því, hverjir borguðu kaupið þeirra – nefnilega bankarnir.

Einn  með þeim eftirminnilegari, sem talað var við, var William Black, bandarískur lög- og hagfræðingur, höfundur bókarinnar: “The Best Way to Rob a Bank is to Own a Bank”.
Þesssi maður kom til Íslands og talaði fyrir fullu húsi í háskólanum. Hann útskýrði, að peningar hverfa ekki, þeir skipta bara um hendur. Þótt litlu hluthafarnir tapi sínu, má treysta því, að hinir stóru hafa komið sínu illa fengna fé í öruggt skattaskjól í tæka tíð. Hann sagði, að nú reyndi á réttlætið á Íslandi og spurði: Hvað eru margir komnir á bak við lás og slá? Hann sagðist hafa lesið um réttlæti “of a sort” í Íslendingasögum. Þegar réttlætinu hefði verið fullnægt, væri rétt að tala við sinn betri mann um framhaldið. Ég skildi það svo, að áður en kæmi að fyrirgefningunni, yrðum við fyrst að sjá iðrun og yfirbót.

Það var kostulegt að fylgjast með viðtali Gunnars við landstjóra hennar hátignar á Tortolu – sólskinseyjunni í Karíbahafinu -  þar sem hundruð íslenskra skúffufyrirtækja, íslenskra fjárflóttamanna eru til húsa. Landstjórinn hafði aldrei séð Íslending af holdi og blóði áður. Hann fullvissasði Gunnar um það, að ef hann væri að leita að földum fjársjóðum, þá væri þá ekki þar að finna. Á Tortolu væru bara pósthólfin – peningarnir væru annars staðar.

Gunnar segir þessa tragikómísku sögu einfaldlega, eins og hún er. Þetta er saga af fákænum og karkaterbrengluðum mönnum, sem urðu af aurum apar. Þetta er saga af siðblindum hrokagikkjum, sem í sjálfbirgingshætti sínum og stærilæti hugsuðu aldrei til þess, að þeir voru að rústa lífi fjölda fólks, hvað þá heldur, að þeir væru að draga heila þjóð með sér í fallinu og ræna hana því sem dýrmætast er: mannorðinu.


Þetta er líka saga af fákænum og vanhæfum stjórnmálamönnum, sem hafði verið trúað til að varðveita fjöregg þjóða, en reyndust ekki vera traustsins verðir. Þótt við séum öll komin með ofnæmi fyrir argaþrasinu um Icesave – eða kannki einmitt þess vegna – ættu Íslendingar helst ekki að láta þessa mynd fram hjá sér fara, af því að Gunnar er ekki að verja eigin hagsmuni, draga taum einhvers eða fela spor annarra. Hann segir söguna einfaldlega eins og hún er út frá reynslu fórnarlambsins. Með því að stytta myndina og gera persónur og leikendur ögn aðgengilegri fyrir erlenda áhorfendur, ætti þessi mynd brýnt erindi í gegnum sjónvarpsstöðvar við miklu stærri hóp áhorfenda. Íslendingar eru nefnilega ekki einir á báti að spyrja sjálfa sig í forundran þessi misserin: hvers vegna eigum við að borga skuldir óreiðumanna?

 Bryndís Schram