08. jún. 2012 - 16:08Helgi Jean Claessen

Rosalegur einkaþjálfari! Bætti viljandi á sig 30 kílóum - og missti aftur! - Mynd

Einkaþjálfarinn Drew Manning hafði alltaf verið í góðu formi sjálfur en fékk til sín marga sem voru ekki að ná að snúa við blaðinu. Til að komast betur inn í hugarheim þessarra kúnna, þá ákvað hann að fara í sama ástand og þeir. Drew bætti á sig 30 kílóum til að sjá hvernig það væri að ná svona mikilli fitu af sér. 

Drew var oft mjög dómharður á kúnna sína og kenndi um skorti á sjálfsaga. Til að hann gæti betur fengið skilið hvernig væri að vera allt of þungur, tók hann sex mánuði í að bæta á sig 30 kílóum - og næstu sex mánuði að taka þau af sér. 

„Megrunin var mjög krefjandi, ég glímdi við hausverk þegar ég hætti að drekka gos - og öðrum slíkum einkennum sem ég hafði áunnið mér með óhóflegu áti mínu. En eftir þetta er ég mun hæfari til að skilja þá sem eru of þungir - þetta er ekki bara matarplan og æfingar. Þetta snýst um tilfinningalegu hliðina og þau vandamál sem við glímum við andlega. Þau atriði eru mun stærri en ég áður taldi", segir Drew.

Lynn, kona Drew, segir að hann hafi breyst mjög þegar hann tók að fita sig. Hann hafi misst gleðina úr sínu lífi, ekki verið eins orkumikill og síður nennt að gefa sig að börnunum. Fitan hafi haft virkilega vond andleg áhrif.

„Eitt er þó skárra eftir að hann komst aftur í gott form. Áður fyrr leit hann aldrei við sætindum sem ég bakaði, en núna er búið að kveikja á þeirri þörf hjá honum. Hann er orðinn aðeins mannlegri en áður."