11. des. 2011 - 09:16
Norðmaðurinn var stoppaður í tollinum með meira en þúsund lítra af áfengum drykkjum. Hann var dæmdur fyrir smygl en var talinn hafa átt rétt á litlum hluta af áfenginu. Þegar átti að skila honum því vantaði koníaksflösku.
Þá snerist taflið við.
Nú verður lögreglan að bæta manninum tjónið.
Í lok maí 2010 stöðvaði lögreglan í Svíþjóð manninn skammt norður af Torsby. Í bíl hans og tengivagni fundust 500 lítrar af áfengum bjór, 67 lítrar af sterku áfengi og meira en 400 lítrar af léttvíni. Hann hafði keypt birgðirnar í Danmörku og hugðist selja þær í Noregi.
Tilgangurinn var að bæta sér upp tjón sem hann hafði orðið fyrir skömmu áður í tollinum í Noregi þegar lagt var hald á áfengi við fyrri tilraun hans til að smygla því inn í landið. Aftur á móti sagði hann að 100 lítrar af bjór, 26 lítrar af sterku áfengi og 200 lítrar af léttvíni væru til eigin nota.
Þegar hann kom fyrir dómstólinn í Varmalandi hélt hann því fram að áfengið hefði verið allt til einkanota en dómarinn dró þá frásögn mannsins í efa og dæmdi hann til sektargreiðslna. Hins vegar var fallist á fyrri framburð hans um að hluti birgðanna hefði verið í einkaeigu. Þeim ætti því að skila.
Þá kom í ljós að tólf koníaksflöskur voru horfnar úr geymslu lögreglunnar. Við eftirgrennslan virtust þær hafa týnst við flutning hjá lögreglunni.
Þegar Norðmaðurinn loks fékk kassa með hliðstæðu koníaki var búið að hirða eina flösku úr kassanum. Ríkislögreglustjórinn hefur úrskurðað að lögreglan skuli bæta honum hana með andvirði hennar sem svarar til 130 danskra króna.
Ekki kemur fram í Nwt.se hvernig eða hvort Norðmaðurinn hafi farið með allt áfengið frá lögreglunni heim til Noregs.