17. júl. 2009 - 13:57Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Umsóknin samþykkt - hvað nú?

Þá er Alþingi búið að samþykkja að sækja um aðild að ESB. Það er mikið fagnaðarefni, og vonandi verður eftirleikurinn góður. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var raunar mjög í takt við það sem búast mátti við. Það er raunar sorglegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að einungis tveir þingmenn flokksins skyldu brjótast undan flokksaga og kjósa ESB annars vegar og hins vegar sitja hjá. Það er ósennilegt að það verði talið flokknum til tekna að hafa reynt að standa í vegi fyrir aðildarumsókninni.

Það var einnig hjákátlegt að hlusta á þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hvern á fætur öðrum í ræðustól og hneykslast á því að ríkisstjórnin skuli ekki vilja ekki að þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB samning verði bindandi. Vissulega er það hneyksli að ríkisstjórnin skuli fara þessa leið en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki úr háum söðli að detta í þessu máli. Öllum er í fersku minni þrotlaus barátta og málþóf sjálfstæðismanna á vorþingi fyrir kosningar, þegar þeir reyndu og tókst að koma í veg fyrir að gerðar yrðu breytingar á stjórnarskránni í þá veru að einfalda þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti til að breyta henni.

Sjálfstæðismenn í krísu

Það er holur hljómur í málflutningi sjálfstæðismanna og því miður lítur út fyrir að þeir séu í gamaldags skotgrafapólitík og noti hvert tækifæri til að koma pólitísku höggi á andstæðinga sína í stað þess að vinna að stefnumálum sínum á heilbrigðan hátt. Nú kom þetta í hausinn á Sjálfstæðisflokknum og með réttu. Flokkurinn má skammast sín fyrir að hafa stillt sér upp út frá stundarhagsmunum í pólitík í stað þess að horfa á hagsmuni íslenskrar þjóðar til framtíðar.

Það var greinilegt í atkvæðagreiðslunni um ESB tillöguna að varaformanni flokksins leið ekki vel og gat ekki fengið af sér að greiða atkvæði gegn ESB aðildarumsókn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á lof skilið fyrir pólitískt hugrekki. Hún gefur miklum fjölda núverandi og fyrrverandi kjósenda Sjálfstæðisflokksins von um að flokknum sé ekki alls varnað. Von um að útgerðaraðall, fjósafastistar og þjóðernissinnar eigi ekki Sjálfstæðisflokkinn skuldlaust.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir brást ekki heldur við atkvæðagreiðsluna um ESB. Ragnheiður er mikill skörungur. Hún er óhrædd að lýsa skoðun sinni og stendur fast á sínu. Það er ekki ónýtt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa þær Ragnheiði og Þorgerði Katrínu í sínu liði.

Það verður einnig að taka ofan fyrir þeim þingmönnum annarra flokka, sem stóður fastir á sannfæringu sinni. Í þann hóp er hægt að setja Atla Gíslason, Ásmund Einar Daðason, Sif Friðleifsdóttur, Guðmund Steingrímsson, Þráinn Bertelsson og fleiri. ESB er grundvallarmál fyrir íslensku þjóðina og augljóslega eitt af þeim veigamiklu málum sem kallar á að þingmenn fylgi sannfæringu sinni og samvisku en ekki flokkslínum. ESB gengur þvert á flokkslínur og eðlilegt að samherjar í pólitík hafi mismunandi skoðanir á því.

VG í hráskinnaleik

Það er minni reisn yfir afstöðu manna eins og ráðherra Vinstri grænna, sem kusu með ESB til þess eins að halda í ráðherrastóla sína, og þorra þingflokks sjálfstæðismanna, sem virðist enn vera í andlegri gíslingu afturhaldsaflanna, sem stjórnuðu flokknum á liðnum árum. Um Jón Bjarnason þarf ekki að hafa mörg orð. Hefði Jón Bjarnason snefil af sjálfsvirðingu segði hann af sér ráðherraembætti án tafar. Það er óheiðarlegt að sitja sem ráðherra í ríkisstjórn en kjósa gegn henni á Alþingi. Jón á að taka pokann sinn og setjast fram í sal sem óbreyttur þingmaður. Menn geta ekki bæði sleppt og haldið.

Það er raunar athyglisvert að allir þingmenn VG, sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu um ESB aðildarumsókn, sögðust vera á móti aðild og virtust ekki setja neinn fyrirvara við þá afstöðu sína. Þannig skiptir engu máli hver niðurstaða aðildarviðræðna verður. Þarna birtist náttúrulega grímulaust hvers konar hagsmunabandalag um völdin ein þessi ríkisstjórn er. Það er deginum ljósara að allir þingmenn VG, e.t.v. að undanskilinni Lilju Mósesdóttur, hefðu greitt atkvæði gegn ESB umsókn sæti flokkurinn í stjórnarandstöðu en ekki í ríkisstjórn. Raunar er líklegt að umræður stæðu enn yfir á Alþingi um málið vegna málþófs hinna fyrrum málglöðu þingmanna VG.

En stólarnir við gluggann í þingsalnum eru bara svo mjúkir og þægilegir!

Ríkisstjórn í vanda

Nú er niðurstaðan fengin og ljóst að aðildarumsókn verður send ESB á næstu dögum. Það er sannarlega mikið gleðiefni. Ekki vegna þess að þessi niðurstaða jafngildi því að Ísland muni ganga í ESB. Það er enn algerlega á huldu. Þetta er gleðilegt vegna þess að nú látum við á það reyna hvort ESB aðild er raunhæf fyrir Ísland og víkjum okkur undan tilraunum ESB andstæðinga til að tefja málið og þæfa.

Íslenska krónan er ónýt. Þeir sem halda öðru fram eru ýmist haldnir óskhyggju eða hafa ekki náð að tileinka sér þær upplýsingar, sem fyrir liggja. Þá eru einnig til þeir, sem hafa sérhagsmuni af því að krónan verði hér áfram gjaldmiðill. Þessir sérhagsmunir ganga gegn hagsmunum heildarinnar, sem hefur hag af því að hér á landi sé stöðugur gjaldmiðill, lágir vextir og eðlilegt fjármálakerfi.

Það er nærtækt og eðlilegt fyrir okkur Íslendinga að reyna fyrst fyrir okkur gagnvart Evrópu og ESB. Evrusvæðið er okkar stærsti markaður. Evran er langsamlega mikilvægasti gjaldmiðillinn í utanríkisverslun okkar. Þess vegna er óeðlilegt annað en að láta reyna á það hvort við getum sameinast því gjaldmiðilssvæði.

Nú stendur íslenska ríkisstjórnin frammi fyrir nokkrum vanda. Annar stjórnarflokkurinn hefur haft það að sinni stefnu að Ísland gangi í ESB. Þessi stefna Samfylkingarinnar er í grunninn ekki runnin upp úr þörf okkar fyrir nýjan og traustan gjaldmiðil. Samfylkingin skilgreinir sig sem evrópskan jafnaðarmannaflokk og vill sem slík sitja við Evrópuborðið með hinum. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Líklegt er að meirihluti þeirra Íslandinga, sem styðja aðild að ESB, geri það á þeim forsendum að það þjóni hagsmunum okkar að komast inn í gjaldmiðilssamstarfið.

Hinn stjórnarflokkurinn, VG, er alfarið andsnúinn aðild að ESB. VG aðhyllist gamaldags þjóðernissósíalisma líkt og forpokaðasti hluti Sjálfstæðisflokksins. Það er ljóst að þessi ríkisstjórn mun ekki landa ESB samningi og leiða málið til lykta hér innanlands.

Stóri vandinn, sem nú blasir við ríkisstjórninni snýr að öðru stóru máli. Þetta er Icesave málið. Þetta mál hefur verið handlað með fáránlegum hætti af íslenskum stjórnvöldum. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde var lánlaus í þessu máli sem öðrum. Málsmeðferð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið til þvílíkrar skammar að fordæmalaust er.

Samfylkingin vill greinilega semja um Icesave og gildir þá einu hvað það kostar. Þetta er ekki boðleg afstaða stjórnmálaflokks, sem vill láta taka sig alvarlega. Það hefur komið skýrt fram að Icesave skuldbindingin og áhættan, sem af henni stafar er algerlega óásættanleg fyrir Ísland. Sigurður Hannesson stærðfræðingur hefur sýnt rækilega fram á þá hrikalegu staðreynd að engar líkur eru á að íslenska þjóðarbúið muni afla nægs gjaldeyris til að hægt verði að standa við Icesave skuldbindinguna, jafnvel þó að björtustu spár ríkisstjórnarinnar rætist. En það er bara ekkert hlustað á þetta. Hvers vegna? Jú, vegna þess að Samfylkingin er staðráðin í að Ísland fari í ESB og lítur svo á að Icesave sé aðgöngumiðinn.

Klækjarefurinn Steingrímur J.

Erfiðara hefur verið að átta sig á því hvers vegna Steingrímur J. Sigfússon og hjörð hans í VG styður svo eindregið við þennan hræðilega Icesave samning. Tæplega vill Steingrímur borga inngönguna í ESB svo dýru verði. Steingrímur, sem vill raunar alls ekki ganga í ESB.

Eina lógíska skýringin á baráttu Steingríms J. fyrir Icesave samningnum er að hann sjái nokkra jákvæða pólitíska kosti fyrir sig og sinn flokk í því máli. Fyrir það fyrsta þarf hann að þvo af sér mistökin, sem hann gerði þegar hann setti gamla flokksjálkinn, Svavar Gestsson, fyrir samninganefndina. Það var afleikur hjá Steingrími því með því tók hann að sér alla pólitíska ábyrgð á Icesave. Nú verður hann einhvern veginn að klóra sig út úr því.

Líklegt er að Steingrímur telji sig fella pólitískar keilur með því að kostnaðurinn af Icesave verði sem hrikalegastur. Hann telur ábyrgðina á Icesave liggja hjá Sjálfstæðisflokknum og telur sig koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn með því að magna Icesave vandann. Sé þetta hugsunin hjá Steingrími jaðrar það við landráð.

Líklegt er að refurinn frá Gunnarsstöðum sjái enn einn kost við Icesave. Hann veit náttúrulega að íslenska þjóðin mun aldrei samþykkja aðild að ESB hafi Icesave verið keyrt ofan í kokið á henni fyrst. Með stuðningnum við Icesave tryggir Steingrímur J. að Ísland gengur ekki í ESB. Þetta sér hann þó að samstarfslokkurinn í ríkisstjórn sé svo blindur á þjóðareðlið að hann heldur að Íslendingar muni fyrst leyfa ESB að berja sig til hlýðni og síðan dilla rófunni og samþykkja inngöngu í klúbbinn.

Samfylkingin telur e.t.v. að hún hafi yfirhöndina í núverandi stjórnarsamstarfi en því er þveröfugt farið. VG ráða því sem þeir vilja og fara sínu fram. Stefnan í ríkisfjármálunum er grímulaus áætlunar- og haftabúskapur. Jafnframt þessu er fjármálaráðherrann að tryggja að helsta stefnumál Samfylkingarinnar, aðildin að ESB, fer út um þúfur.

Icesave ræður úrslitum

Vilji þingmenn Samfylkingarinnar búa svo um hnútana að einhver möguleiki sé á inngöngu Íslands í ESB eru þeir nauðbeygðir til að ganga til liðs við stjórnarandstöðuna og hafna Icesave ríkisábyrgðinni og þeim samningi, sem hún er byggð á. Annars er öruggt að þjóðin mun hafna ESB.

Alþingi verður að hafna fyrirliggjandi Icesave samningi. Við getum ekki staðið við hann og eigum þess vegna ekki að samþykkja hann. Þessu til viðbótar er auðvitað fáránlegt að Íslendingar axli einir ábyrgð á vitlausum og gölluðum reglum ESB um innistæðutryggingar.

Ýmsir hafa orðið til þess að lýsa áhyggjum sínum af því að ef Íslendingar hafni Icesave muni aðgangur að lánsfé lokast og við jafnvel verða rekin út úr EES. Í þessu felst auðvitað, að ESB muni ekki fara í aðildarviðræður við okkur nema við samþykkjum Icesave óbreytt.

Eigum við ekki að láta reyna á þetta? Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fullyrt að engin tengsl séu á milli Icesave og þess prógramms, sem er í gangi á hans vegum hér á landi. Við skulum bara fá upp á borðið hvort þetta er rétt.

Fjármálaráðherra hefur sagt að hann óttist mjög hvað verði fari svo að Icesave verði felldur í þinginu. Aðspurður segist hann ekkert hafa fyrir sér í því, hvorki hótanir annarra ríkja né alþjóðastofnana. Þetta sé einungis almennur ótti hans. Sé þetta rétt hjá fjármálaráðherra er ljóst að í brjósti hans slær lítið hérahjarta.

Auðvitað er það frumskylda alþingismanna að standa vörð um hagsmuni Íslands. Icesave samningurinn, eins og hann stendur nú, gengur gegn hagsmunum Íslands. Þetta er þannig sannkallaður landráðasamningur. Seint verður því trúað að meirihluti Alþingis samþykki slík ólög yfir íslensku þjóðina.

Komi í ljós að ESB neiti að hefja aðildarviðræður við Ísland vegna þess að Alþingi hafi hafnað þeim nauðungarsamningi, sem kenndur er við Icesave, er ljóst að ESB er klúbbur hrotta og yfirgangsseggja. Við viljum ekki vera í slíkum klúbbi. Það er hins vegar mikilvægt af fá þetta upp á borðið strax því ef þetta er raunin er ljóst að við Íslendingar munum aldrei fá það skjól, sem við sækjumst eftir í gjaldmiðilsmálum, í evrunni. Við verðum því að hugsa málin upp á nýtt og leita annarra leiða.

 Sé þetta raunin má búast við því að utanríkisviðskipti okkar færist í framhaldinu til annarra svæða í heiminum, t.d. Bandaríkjanna. Ef Evrópa er ekki kostur fyrir Ísland liggur beinast við að kanna möguleika á því að komast í gjaldmiðilsskjól hjá bandaríska seðlabankanum. Ef dollarinn verður okkar gjaldmiðill munu utanríkisviðskipti okkar færast að stærstum hluta frá Evrópu til Norður-Ameríku.

Því skal samt seint trúað að ESB muni hegða sér með þessum hætti gagnvart Íslandi vegna þess að þetta mál snýst ekki um Ísland. Þetta snýst um það hvort ESB er trúverðugt bandalag lýðræðisþjóða, sem virðir lög og reglur. Afstaðan gagnvart Íslandi hefur áhrif á framtíð ESB.

Eftir stendur að sú áhersla, sem ríkisstjórarflokkarnir leggja á samþykkt Icesave ríkisábyrgðarinnar, er með öllu óskiljanleg. Ein skýring, sem heyrst hefur, er sú, að fyrir hendi sé munnlegt samkomulag um að Íslendingar muni ekki verða látnir standa við Icesave ríkisábyrgðina ef hún reynist okkur um megn.

Er eitthvert slíkt baksamkomulag fyrir hendi? Sé svo er mjög undarlegt að það komi ekki fram. Það á þá væntanlega að vera tromp uppi í erminni hjá Samfylkingunni. Þegar ESB samningur liggur fyrir verður trompið dregið fram og þjóðin samþykkir ESB í sæluvímunni yfir því að þurfa ekki að borga Icesave.

Hvað sem öllu líður er ljóst að ekki er verið að birta opinberlega allar upplýsingar, sem máli skipta varðandi Icesave. Þess vegna ber Alþingi skylda til að fella Icesave ríkisábyrgðina að óbreyttu. Þannig köllum við líka fram innsta eðli ESB, sem er mikilvægt. 

 
01.okt. 2009 - 17:15 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Fjárlagafrumvarp Steingríms J. byggir á óskhyggju

Sérstök orku- umhverfis- og auðlindagjöld eiga að færa ríkissjóði 16 milljarða í tekjur á næsta ári. Þetta eru nýir skattar, sem ekki hafa þekkst hér á landi áður. Algerlega á eftir að skilgreina þessa skattheimtu að öðru leyti en því að hún á að skila umræddum 16 milljörðum á árinu. Ekkert mat er lagt á það hverjar afleiðingar þessarar skattheimtu geta orðið á orku- og auðlindanotendur. Nokkuð ljóst er þó öllum þeim, sem það vilja sjá, að einhvers staðar þarf að taka þessa 16 milljarða. Í fjárlagafrumvarpinu virðist vera gert ráð fyrir því að peningarnir annað hvort vaxi á trjánum eða falli af himnum ofan.
30.sep. 2009 - 18:15 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Icesave bjargaði Ögmundi - ríkisstjórnin líka hólpin

Svarið við þessum spurningum er, að afsögn Ögmundar Jónassonar snerist ekki á nokkurn hátt um Icesave. Icesave var hins vegar tilvalin tylliástæða fyrir Ögmund að nota fyrir afsögn sinni. Með þeim hætti getur hann slegið sig til riddara fyrir að hafa fylgt samvisku sinni. Svo fer Ömmi frændi bara í frí eða kallar inn varamann, þegar Icesave málamiðlunin verður tekin til atkvæða á Alþingi. Þannig hleypir hann því máli í gegn. Ögmundur mun svo svara gagnrýni á það að hann hafi hleypt Icesave í gegn með því að benda á að hann hafi nú fórnað heilu ráðherraembætti til að geta fylgt samvisku sinni án þess að fella ríkisstjórnina.
29.sep. 2009 - 15:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Bankarnir brjóta eigin reglur - og komast upp með það

Í skjóli íslenska ríkisins er að verða til ný forréttindastétt, sem skákar í skjóli óskilvirkni og ógegnsæis ríkisrekstrar. Í ríkisrekstri er það nefnilega svo að það er enginn eigandi. Stjórnendurnir virðast fara sínu fram og gefa eigendum og eftirlitsaðilum langt nef og jafnvel löngutöng ef því er að skipta.

Hverjir eru svo þessi stjórnendur? Jú, þetta eru að stórum hluta þeir sömu og fleyttu rjómann ofan af þeirri vitleysu og spillingu, sem viðgekkst innan bankakerfisins fyrir hrun að viðbættum nokkrum ríkisbubbum, sem í skjóli pólitískra tengsla hafa náð að olnboga sig að kjötkötlunum.

10.sep. 2009 - 09:05 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ræða Obama í nótt: Mótum framtíðina en óttumst hana ekki

Fyrirfram var vitað að ræðan í nótt yrði einhver hin mikilvægasta á forsetaferli Obama. Heilbrigðismál eru eitt helsta baráttumál hans og ljóst að, þegar kreppu og fjármálahruni sleppir, verða það heilbrigðismálin, sem munu skera úr um það hvort hann hefur haft erindi sem erfiði í þessu valdamikla og erfiða embætti. Það þarf engum að koma á óvart þó að Obama setji heilbrigðismál í öndvegi. Svartir íbúar Bandaríkjanna eru ríflega tíu hundraðshlutar þjóðarinnar. Rúmlega helmingur þeirra, sem ekki hafa sjúkratryggingar, eru hins vegar svartir. Umbætur í heilbrigðismálum eru því hluti af réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum.
08.sep. 2009 - 16:30 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Viljum við missa þetta fólk? Megum við missa það?

Það mun á endanum kosta Ísland miklu meira að gera ekkert fyrir heimilin en að viðurkenna vandann og taka myndarlega á honum – jafnvel þó að það þýði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Bretar og Hollendingar og einhverjir fleiri fari í fýlu út í okkur. Fulltrúar AGS þurfa ekki að búa í þessu landi og deila kjörum með þjóðinni. Ríkisstjórnin hagar sér eins og hún telji sig líka undanþegna því að deila kjörum með þjóðinni.
03.sep. 2009 - 09:40 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Þetta eru andlitin á bak við skuldirnar, kæra Jóhanna

Bankinn þeirra, sem er einn af nýju ríkisbönkunum, bauð þeim upp á þá lausn mála, að hann leysti húsið til sín fyrir 25 milljónir, ef þau gætu komið með góðar tryggingar fyrir afganginum af skuldinni, sem stóð í 70 milljónum. Þá væri örugglega hægt að semja um eitthvað greiðsluplan á 45 milljónunum, sem út af stóðu. Þetta var sama húsið og bankinn hafði metið á 60 milljónir 5 árum fyrr.
27.ágú. 2009 - 14:50 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ætlum við að drepa okkur?

Við verðum eitthvað að gera til að snúa af þeirri braut, sem við erum á. Það er sérlega óheppilegt að peningar safnist upp í bönkum, þegar þeirra er þörf til að drífa áfram hagkerfið. Þess vegna er mjög mikilvægt að afnema strax verðtrygginguna og lækka vexti niður á það stig, sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Við Íslendingar erum í dýpstu efnahagslægð, sem gengið hefur yfir nokkurt vestrænt ríki í áratugi, en keyrum vaxtastefnu eins og við séum að berjast við ofurþenslu. Þessu verðum við að hætta.
21.ágú. 2009 - 13:44 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hverjir ættu að biðjast afsökunar - og á hverju?

Úr hópi bankamanna færi sennilega vel á því að eigendur opg stjórnendur Landsbankans færu fremstir í flokki og bæðu íslensku þjóðina afsökunar á framferði sínu. Stjórnendur og ábyrgðarmenn Seðlabankans ættu að gera slíkt hið sama. Það er ekki vitað til þess að einn einasti seðlabanki, annar en Seðlabanki Íslands, hafi orðið tæknilega gjaldþrota vegna erfiðleika á fjármálamörkuðum. Flestir seðlabankar högnuðust á kreppunni vegna þess að þá jukust útlán þeirra og þar með vaxtatekjur. En, vel að merkja, aðrir seðlabankar en sá íslenski tóku tryggingar fyrir útlánum sínum.
13.ágú. 2009 - 14:05 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Fellur ríkisstjórnin? Hverjir yrðu þá ráðherrar?

Líklegt verður að telja að forsetinn sé búinn að koma sér upp nafnalista yfir þá, sem hann hefði áhuga á að kalla til ef hann neyðist til að setja á fót utanþingsstjórn. Hér á árum áður var altalað að til væri listi með nöfnum manna, sem kallaðir yrðu til í utanþingsstjórn, en oft munaði litlu að t.d. Kristján Eldjárn neyddist til að grípa til þess úrræðis þegar stjórnmálamenn gátu ekki komið sér saman um stjórnarmynstur.

Efsta nafn á þeim lista var nafn Jóhannesar Nordal, þáverandi seðlabankastjóra. Hann skyldi vera forsætisráðherra. Einnig var nafn Jónasar Haralz á listanum, en honum var ætlað að sjá um efnahags- og fjármál. Báðir eru þessir menn á lífi í dag og við góða heilsu að best er vitað. Þeir eru hins vegar orðnir mjög fullorðnir báðir og þrátt fyrir góða kosti beggja verður ekki leitað til þeirra að þessu sinni.

10.ágú. 2009 - 10:39 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Sjálfseyðingarhvöt Íslendinga

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur sagt að það gangi ekki að bankaleynd sé notuð til að fela markaðsmisnotkun og Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, telur rétt að láta hagsmuni bankaleyndar víkja fyrir almannahagsmunum. Þetta er athyglisverð afstaða af hálfu forráðamanna ríkisstjórnar og almannavalds. Halda ráðherrarnir virkilega að bankaleynd skýli lögbrotum? Til hvers halda þeir að FME og efnahagsbrotadeild séu, og til hvers halda þær stöllur að embætti sérstaks saksóknara hafi verið stofnað? Treysta þær kannski ekki „kerfinu“? Vilja þær dómstól götunnar? Er þetta uppbyggilegt framlag til endurreisnar Íslands?
06.ágú. 2009 - 12:04 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Köld eru kvennaráð

Þessari stjórn varð hins vegar á í messunni þegar hún kom aftan að forstjóra bankans og gróf undan honum með bókun sinni. Svona gera stjórnir fyrirtækja ekki! Annað hvort nýtur forstjórinn trausts og fullkomins stuðnings stjórnar eða stjórnin finnur sér annan forstjóra. Svo einfalt er það. Í þessu tilfelli kemur stjórnin í bakið á forstjóranum og fer með rangt mál í bókun sinni. Í því tilviki er það ekki forstjórinn, sem á að víkja, heldur stjórnin í heild sinni eða þeir stjórnarmenn, sem bera ábyrgð á því að hafa blekkt hina.
30.júl. 2009 - 10:57 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Íslendingar borga ekki Icesave...einir!

Ítrekað er hefur verið sýnt fram á að við Íslendingar ráðum ekki við að greiða Icesave. Þeir sem halda öðru fram lifa í einhverjum sýndarheimi þar sem hagvöxtur verður hærri næstu 15 árin en hann hefur verið á nokkru 15 ára tímabili í sögu þjóðarinnar. Þessum mikla hagvexti fylgir, í sýndarheiminum, jákvæður vöruskiptajöfnuður, sem er langt yfir því, sem nokkurn tíma hefur náðst yfir lengra tímabil en eitt ár í senn. Þetta er nauðsynlegt til að afla gjaldeyris til að borga Icesave. Gallinn er sá, að í þessu felst mótsögn. Miklum hagvaxtarskeiðum fylgir gjarnan vöruskiptahalli. Helsta leiðin til að koma í veg fyrir vöruskiptahalla er að hneppa atvinnu- og efnahagslífið í helsi hafta, sem núverandi ríkisstjórn virðist svo sannarlega ætla að gera. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar, að haftabúskapur hefur reynst máttlaus uppspretta hagvaxtar. Hér stöndum við sennilega frammi fyrir annarri Catch-22 stöðu.
23.júl. 2009 - 10:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hin vanhelgu vé Davíðs, Kjartans og Björgólfsfeðga

Það er ánægjuefni ef erlendir bankar hefja starfsemi hér á landi þó að aðdragandinn hafi því miður þurft að verða algert hrun íslenska efnahags- og bankakerfisins. Landsbankinn verður hins vegar áfram í eigu ríkisins. Staða hans er of hryllileg til að til greina komi að erlendir kröfuhafar taki hann yfir.

03.júl. 2009 - 09:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Icesave margfalt verri en Versalasamningurinn

Icesave samningurinn, sem ríkisstjórn Íslands reynir nú að fullvissa þing og þjóð um að sé besti samningur, sem við Íslendingar eigum völ á, leggur mun þyngri byrðar á herðar Íslendinga en Versalasamningurinn að lokinni Fyrri heimsstyrjöldinni lagði á herðar þýsku þjóðarinnar.
26.jún. 2009 - 12:35 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Þarf alltaf að byrja að skera á Grensás?

Á næstu þremur árum þurfum við Íslendingar að loka tæplega 200 milljarða fjárlagagati. Þetta verðum við að gera með því annað hvort að afla nýrra tekna eða að skera niður útgjöld. Í ljósi þeirrar stöðu, sem íslenskt efnahagslíf er nú um mundir, er líklegt að tekjuöflun muni lítið duga. Við okkur blasir því niðurskurður.

Fyrir nokkru var greint frá því að sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu myndi byrja á því að draga úr starfsemi Grensásdeildarinnar, sem hefur skilað ómetanlegu starfi í endurhæfingu þeirra, sem orðið hafa fyrir áföllum vegna slysa og veikinda. Fátt kemur á óvart í þessu. Þegar spara á í heilbrigðiskerfinu er yfirleitt byrjað þar sem síst skyldi. Með þeim hætti tekst stjórnendum heilbrigðiskerfisins gjarnan að búa til samúð með kerfinu úti í þjóðfélaginu og kalla fram kröfu um að ekki verði sparað þar.

19.jún. 2009 - 11:50 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Spron var tekinn af lífi

Laugardaginn 21. mars setti Fjármálaeftirlitið (FME) skilanefnd yfir SPRON. Þetta var lokaleikurinn í tryllingslegri baráttu um líf og dauða vinsælasta viðskiptabanka landsins.

12.jún. 2009 - 14:35 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Trúgirni og átrúnaður Íslendinga

Íslendingar hafa löngum liðið fyrir mikla trúgirni sína. Veröld Íslendinga er gjarnan svart hvít en ekki í gráskala og hvað þá í lit. Menn eru annað hvort góðir eða vondir. Hið sama gildir um málefnin.
05.jún. 2009 - 12:51 Björn Ingi

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ó vakna þú mín Þyrnirós...

Á Íslandi ríkir sofandaháttur. Seðlabankinn sefur, ríkisstjórnin sefur. Meira að segja þjóðin virðist sofa – eða er hún e.t.v. dofin?
22.maí 2009 - 10:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hvernig varð Seðlabankinn gjaldþrota?

Á haustdögum horfðum við á stóru bankana þrjá hrynja rétt eins og fúnir spítnakofar hefðu orðið fyrir jarðýtu. Síðan þá höfum við þurft að horfa á eftir þremur öðrum bönkum. Þannig eru fallnir sex íslenskir bankar; Landsbankinn, Glitnir, Kaupþing, Straumur, Sparisjóðabankinn og Spron. Það er mismikil eftirsjá eftir þessum bönkum. Sumir þeirra voru klárlega komnir í þrot og var ekki viðbjargandi. Öðrum virðist hafa verið synjað um fyrirgreiðslu, sem einhvers staðar og einhvern tíma hefði þótt eðlileg. Kaupþing var keyrt í þrot með ofbeldisverknaði breskra stjórnvalda.