21. ágú. 2009 - 13:44Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hverjir ættu að biðjast afsökunar - og á hverju?

Það er mikið í tísku nú um stundir að krefjast afsökunarbeiðni frá hinum og þessum. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fór mikinn á Hólahátíð um síðustu helgi og krafðist afsökunarbeiðni frá þeim, sem bera ábyrgð á hruninu, og vildi sérstaklega fá að heyra í Landsbankamönnum, sem bera ábyrgð á Icesave hryllingnum. Það mátti skilja hann svo að aðrir bankamenn mættu svo sem alveg biðjast afsökunar líka.

Sjálfsagt var Steingrímur einnig að vísa til forystumanna ríkisstjórna, sem komu á undan þeirri, sem nú situr. Hann hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni að forystumenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og, til skamms tíma, Samfylkingarinnar skuldi þjóðinni afsökunarbeiðni.

Bankamenn

En hverjir eru það, sem eiga að biðjast afsökunar á framferði sínu og ábyrgð á bankahruninu? Og hvers vegna ættu þeir að biðjast afsökunar?

Sjálfsagt geta flestir verið sammála um að stjórnendur íslensku bankanna beri mikla ábyrgð á því hvernig fór. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, kom í Kastljósið í vikunni og bað kröfuhafa, hluthafa og starfsfólk Kaupþings afsökunar á því hvernig fór hjá þeim banka. Mörgum fannst að hann hefði átt að biðja þjóðina sjálfa afsökunar en hann kaus að gera það ekki og sagði að það stæði þá upp á einhverja aðra en hann að leggja fram slíka afsökunarbeiðni.

Án þess að það kæmi skýrt fram hjá Hreiðari fannst mörgum það skína í gegn að þarna ætti hann við forsvarsmenn Landsbankans og Seðlabankans, en íslenskir skattgreiðendur munu þurfa að greiða hundruð milljarða vegna gjaldþrota Landsbankans og Seðlabankans en ekki krónu vegna falls Kaupþings. Hreiðar virðist því þarna hafa nokkuð til síns máls.

Það er auðvitað fráleitt að leggja alla íslensku bankana og stjórnendur þeirra að jöfnu. Á sama tíma og dótturfyrirtæki Kaupþings, sem ekki urðu fyrir árás ríkisstjórnar Gordons Brown, eru í blómlegum rekstri þrátt fyrir hrunið í fyrrahaust stendur ekki steinn yfir steini af því sem áður hét Landsbanki Íslands. Eignasafn Landsbankans er einhvers konar svarthol – svarthol, sem á að standa undir Icesave skuldbindingunum, sem forsvarsmenn bankans skildu okkur Íslendinga eftir með. Íslenska ríkið er þegar búið að taka á sig 270 milljarða skuldbindingu vegna gjalþrots Seðlabankans. Stjórnendur Seðlabanka Íslands lánuðu villt og galið út úr bankanum án haldbærra trygginga þangað til allt eigið fé bankans var uppurið og gott betur. Eina lánið, sem Seðlabankinn virðist hafa tekið einhverjar tryggingar fyrir, er 500 milljón evra lánið, sem Kaupþing fékk í sömu vikunni og Gordon Brown felldi bankann. Það lán var með veði í FIH bankanum í Danmörku, sem enn er í blómlegum rekstri.

Úr hópi bankamanna færi sennilega vel á því að eigendur og stjórnendur Landsbankans færu fremstir í flokki og bæðu íslensku þjóðina afsökunar á framferði sínu. Stjórnendur og ábyrgðarmenn Seðlabankans ættu að gera slíkt hið sama. Það er ekki vitað til þess að einn einasti seðlabanki, annar en Seðlabanki Íslands, hafi orðið tæknilega gjaldþrota vegna erfiðleika á fjármálamörkuðum. Flestir seðlabankar högnuðust á kreppunni vegna þess að þá jukust útlán þeirra og þar með vaxtatekjur. En, vel að merkja, aðrir seðlabankar en sá íslenski tóku tryggingar fyrir útlánum sínum.

Stjórnkerfið og eftirlitsaðilar

Stjórnendur Seðlabankans skulda ekki aðeins afsökunarbeiðni fyrir að hafa rekið bankann í þrot. Seðlabankinn bar líka ábyrgð á að viðhalda stöðugleika á íslenskum fjármálamarkaði, halda verðbólgu í skefjum og standa vörð um gjaldmiðilinn. Á öllum þessum sviðum brást Seðlabankinn þrátt fyrir að aðilar úti í bæ og utan úr heimi hafi reynt að koma vitinu fyrir hann. Seðlabankanum hefur aldrei tekist að halda verðbólgu innan eðlilegra marka. Seðlabankinn keyrði upp verðgildi krónunnar með vitlausri peningamálastefnu, sem kynnti undir verðbólgu, og réð svo ekkert við að verja krónuna þegar harðnaði á dalnum á alþjóðlegum mörkuðum. Ekki þarf að fara mörgum orðum um árangur Seðlabankans við að halda uppi stöðugleika á íslenskum fjármálamarkaði.

Þegar íslenska bankakerfið var orðið allt of stórt fyrir íslenska hagkerfið og Seðlabankann, stóð Seðlabankinn í vegi fyrir því að bankarnir fengju að færa reikninga sína í evrum og framkallaði þar með hrun íslensku krónunnar. Það væri ekki úr vegi að bankastjórar Seðlabankans og helstu hugmyndafræðingar bankans bæðu íslensku þjóðina afsökunar.

Fjármálaeftirlitið var lítið og gagnslaust. Getuleysi þess verður að skoðast í því ljósi. Þó má fullyrða að betra hefði verið ef stjórnarformaður FME hefði látið það vera að styðja sérstaklega við kynningu á Icesave reikningunum í Hollandi vorið 2008, þegar FME, Seðlabankanum, stjórnvöldum og ekki síst Landsbankanum var ljóst að Icesave í Bretlandi var komið í alvarleg vandræði. Ekki væri úr vegi fyrir Jón Sigurðsson, þáverandi formann stjórnar FME, að biðja þjóð sína afsökunar á sínum mistökum.

Ábyrgðin á lélegu Fjármálaeftirliti lá þó fyrst og fremst hjá íslenskum stjórnvöldum. Þeir viðskiptaráðherrar, sem sátu á uppgangstíma íslenska bankakerfisins, ættu að biðja þjóð sína afsökunar á því að hafa ekki gætt þess að efla FME svo sem þurfti þegar bankakerfið margfaldaðist að stærð.

Stjórnmálamenn

Þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, kippti einkavæðingarferli bankanna úr höndum einkavæðingarnefndarinnar og hlutaðist sjálfur til um að koma Landsbankanum í hendur Björgólfsfeðga og til að enginn í ríkisstjórn hans yrði nú útundan fengu framsóknarmenn að velja kaupendur að Búnaðarbankanum. Afleiðingin varð skelfileg og sennilega stendur einkavæðing ríkisbankanna upp úr sem helsti orsakavaldur þess bankahruns, sem síðar varð. Davíð Oddsson á því að biðja þjóð sína afsökunar. Það er síðan smekksatriði hvort hann á að koma með eina allsherjarafsökunarbeiðni eða hvort hann á að skipta þessu niður í hólf og biðjast sérstaklega afsökunar á afglöpum sínum í embætti forsætisráðherra og sérstaklega vegna starfa sinna sem seðlabankastjóri.

Á uppgangstíma bankanna varð íslenski ríkissjóðurinn því sem næst skuldlaus. Himinháar skattgreiðslur bankanna og annarra stórfyrirtækja leiddu af sér rekstrarafgang á ríkissjóði. Þetta var hins vegar ekki merki um að ríkisfjármálum á Íslandi væri vel stjórnað, vegna þess að afgangurinn stafaði af gríðarlegri tekjuaukningu – aukningu, sem við nú vitum að var aðeins tímabundin. Útgjöldin þutu upp og þau reyndust ekki vera tímabundin. Útgjöldin sitjum við uppi með núna þegar tekjurnar hafa skroppið saman. Fjármálaráðherrar Íslands undanfarin ár hafa ekki valdið starfi sínu. Geir H. Haarde og Árni Mathiesen ættu að biðja þjóð sína afsökunar fyrir að hafa ekki skilað sínu í fjármálaráðuneytinu.

Sökin á útgjaldasprengingunni liggu þó engan veginn öll hjá fjármálaráðherrunum. Allir þeir, sem setið hafa á þingi undanfarin ár og hugsunarlaust samþykkt endalaus ný útgjöld, eiga að biðja þjóð sína afsökunar á því að hafa brugðist henni. Þar er enginn þingmaður undanskilinn – enginn!

Evrópuandstæðingar

Samkvæmt könnun getum við Íslendingar að jafnaði keypt 15 prósent minna fyrir launin okkar nú en fyrir ári. Í þessu samhengi má minna á að maður sem er með annan fótinn í áttatíu gráðu heitu vatni og hinn í núll gráðu heitu vatni hefur það að jafnaði ágætt. Hann fær hins vegar kalsár á annan fótinn og brunasár á hinn. Þessu til viðbótar virðist könnunin ekki hafa tekið tillit til þess að afborganir af öllum lánum hafa hækkað gríðarlega og jafnvel tvöfaldast. Þessi könnun er því ekkert annað en fölsun. Við, sem þurfum að reka heimili, vitum vel að kaupmáttur launanna hefur lækkað miklu meira en sem nemur 15 prósentum.

Þeir, sem hafa misst atvinnuna og sitja uppi með lán sem hafa tvöfaldast, eru í miklu verri stöðu en meðaltalið gefur til kynna.

Það sem hefur gerst á Íslandi er að gjaldmiðillinn er hruninn. Við finnum fyrir þessu þegar við dælum eldsneyti á bílinn. Við finnum fyrir þessu þegar við verslum í matinn, þegar við förum í bíó eða fáum okkur kaffibolla á kaffihúsi. Hvergi sjáum við þetta betur en í einokunarverslun ríkisins með áfengi. Við finnum þetta ekki svo mikið þegar við kaupum nýjan bíl vegna þess að við erum hætt að kaupa nýja bíla. Við höfum ekki efni á því. Við erum líka mikið til hætt að ferðast til útlanda vegna þess að þó að við getum e.t.v. skrapað saman fyrir farmiðanum og sköttum höfum við ekki efni á að halda okkur uppi í útlöndum.

Við erum komin í átthagafjötra vegna þess að krónan er rusl.

Þeir stjórnmálamenn, sem aldrei máttu heyra minnst á Evrópusambandið eða upptöku evru, fengu sínu framgengt. Í fimmtán ár hafa þeir með útúrsnúningum og hræðsluáróðri komið í veg fyrir að Ísland sækti um aðild að ESB og upptöku evru. Það mátti ekki einu sinni ræða um þessi mál vegna þess að hér á Íslandi var allt svo gott og úti í Evrópu var allt svo vont. Svo þegar allt var hrunið hér á Íslandi en ekki í Evrópu mátti ekki heldur nefna þetta vegna þess að ekki gengi að við færum að sækja um aðild í veikleika.

Gjarnan var andstaða Sjálfstæðisflokksins sett í búning þess að „hagsmunamat“ sýndi að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan ESB en innan. Forsendur „hagsmunamatsins“ hafa jafnan verið þær að ekki yrði með nokkru móti hægt að semja við ESB um sjávarútvegsmál og ESB myndi leggja landbúnað á Íslandi í rúst. Báðar forsendur eru vægast sagt hæpnar.

Vinstri grænir virðast svo einfaldlega vera á móti öllu því sem útlenskt er, nema það sé norskt. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins og VG eiga að biðja þjóðina afsökunar á því að hafa með þjóðernishyggju sinni og einangrunarstefnu orsakað stórfellda lífskjaraskerðingu íslensku þjóðarinnar auk þess að hneppa Íslendinga í átthagafjötra. Þá er ónefnd sú óbeina skattheimta á heimili og fyrirtæki, sem felst í því að halda úti smæsta gjaldmiðli í heimi með þeim ofurvöxtum, sem því fylgir. Þetta kallar á afsökunarbeiðni.

Ríkisábyrgðin á Íbúðalánasjóði

Við sjáum nú í fréttum á hverjum degi, að bankarnir íhuga að afskrifa stórar fjárhæðir, sem viðskiptajöfrar tóku að láni. Talað er um að Landsbankinn, eða skilanefnd hans, muni afskrifa 50 milljarða lán á Magnús Kristinsson útgerðarmann og viðskiptajöfur úr Vestmannaeyjum. Hvers vegna? Jú, bankinn hafði lánað honum þessa peninga án þess að fá almennilegar tryggingar á móti. Þess vegna breytir það engu fyrir bankann hvort lánin eru gjaldfelld eða afskrifuð. Það fæst ekkert upp í þau. Svo er þetta líka allt í lagi því það verða bara kröfuhafarnir sem tapa á þessu.

Á sama tíma koma talsmenn ríkisstjórnarinnar og lýsa því yfir að ekki komi til greina að afskrifa skuldir almennings. Hvers vegna? Jú, ef farið verður í afskriftir á lánum til almennings, svo sem íbúðalán, verður Íbúðalánasjóður gjaldþrota. Eigið fé hans nemur eitthvað vel innan við 10 prósent þannig að hann þolir ekki afskriftir. Auðvitað er þetta hundalógík hjá talsmönnum ríkisstjórnarinnar vegna þess að almenn afskrift lána til heimila og fyrirtækja er ætluð til þess að koma í veg fyrir að öll hjól efnahagslífsins stöðvist.

Hvaðan eiga peningarnir að koma? Öll lán, sem nýju bankarnir fá í eignasafn sitt, eru tekin yfir með miklum afföllum þannig að vissulega er borð fyrir báru í þeim efnum. Vitanlega kostar það peninga að afskrifa lán en hafa menn velt því fyrir sér hve mikla peninga það kostar ef nær allur einkageirinn stöðvast og heimili fara þúsundum saman í gjaldþrot?

Það er eins og sumir séu óskaplega flinkir við að reikna en geti samt ekki lagt saman tvo og tvo.

Stóra málið við afskriftirnar er hins vegar það, að það er ekkert mál að afskrifa lán til viðskiptajöfra inni í gömlu bönkunum vegna þess að þær afskriftir lenda á erlendum kröfuhöfum. Það má hins vegar ekki afskrifa íbúðalán vegna þess að þá er ÍLS gjaldþrota. Og ÍLS er ríkisstofnun með ótakmarkaðri ríkisábyrgð á öllum sínum rekstri. Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Ef ríkisábyrgðin hefði verið afnumin af skuldbindingum ÍLS og hann einkavæddur á sínum tíma væri vel hægt að afskrifa íbúðalán.

Þeir stjórnmálamenn, sem stóðu í vegi fyrir einkavæðingu ÍLS, bera fulla ábyrgð á því að nú telja menn sig ekki geta afskrifað skuldir heimila vegna þeirrar ábyrgðar, sem þá fellur á ríkið. Það væri ekkert vandamál að leyfa nýju bönkunum að afskrifa lán vegna þess að þeir keyptu lánin á afföllum af gömlu bönkunum. Það er ÍLS sem er vandamálið. Þeir stjórnmálamenn, sem vildu „standa vörð um ÍLS“ bera því ábyrgð á því að nú er „ekki hægt“ að afskrifa íbúðalán almennings.

Forystumenn VG, Samfylkingar og Framsóknarflokks, sem stóðu hvað dyggastan vörð um ríkisrekinn ÍLS, eiga því að biðjast afsökunar á afleiðingum þessarar stefnu sinnar. Heimilin eru að komast í þrot vegna misskilinnar góðmennsku þessa fólks. Þeir stjórnmálamenn, sem ekki hafa dug og þor til að heimila afskriftir á íbúðalánum þrátt fyrir þessa ríkisábyrgð eiga líka að biðjast afsökunar. Þjóðin hefur engan tíma eða þolinmæði fyrir kjarklausa stjórnmálamenn.

AGS og Icesave

Þeir stjórnmálamenn, sem láta Alþjóða gjaldeyrissjóðinn segja sér algerlega fyrir verkum eru rislitlir menn, sem marka fá gæfuspor fyrir þjóð sína. Þeir, sem ekki þora að hafa skoðun og berjast fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar, ættu að biðjast afsökunar um leið og þeir segja af sér. Það fólk, sem reyndi í allt sumar að keyra ríkisábyrgð á Icesave samningana ofan í kok þings og þjóðar án nokkurra fyrirvara, á að biðjast afsökunar. Það er vandséð að þetta fólk muni nokkurn tíma gegna uppbyggilegu hlutverki í endurreisn íslensks efnahagslífs. Það ætti því að nota tækifærið og segja af sér embætti um leið og það biðst afsökunnar.

Hér hef ég aðeins tiplað á stóru og sjálfsagt gleymt mörgum, sem ættu að biðjast afsökunar.

(Ath. vegna mistaka höfundar í vinnslu úttektarinnar féll út kafli, sem breytir merkingu úttektarinnar hér að ofan. Ég ákvað að birta kaflann í sérstökum pistli og biðst afsökunar á mistökum mínum. ÓA)
01.okt. 2009 - 17:15 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Fjárlagafrumvarp Steingríms J. byggir á óskhyggju

Sérstök orku- umhverfis- og auðlindagjöld eiga að færa ríkissjóði 16 milljarða í tekjur á næsta ári. Þetta eru nýir skattar, sem ekki hafa þekkst hér á landi áður. Algerlega á eftir að skilgreina þessa skattheimtu að öðru leyti en því að hún á að skila umræddum 16 milljörðum á árinu. Ekkert mat er lagt á það hverjar afleiðingar þessarar skattheimtu geta orðið á orku- og auðlindanotendur. Nokkuð ljóst er þó öllum þeim, sem það vilja sjá, að einhvers staðar þarf að taka þessa 16 milljarða. Í fjárlagafrumvarpinu virðist vera gert ráð fyrir því að peningarnir annað hvort vaxi á trjánum eða falli af himnum ofan.
30.sep. 2009 - 18:15 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Icesave bjargaði Ögmundi - ríkisstjórnin líka hólpin

Svarið við þessum spurningum er, að afsögn Ögmundar Jónassonar snerist ekki á nokkurn hátt um Icesave. Icesave var hins vegar tilvalin tylliástæða fyrir Ögmund að nota fyrir afsögn sinni. Með þeim hætti getur hann slegið sig til riddara fyrir að hafa fylgt samvisku sinni. Svo fer Ömmi frændi bara í frí eða kallar inn varamann, þegar Icesave málamiðlunin verður tekin til atkvæða á Alþingi. Þannig hleypir hann því máli í gegn. Ögmundur mun svo svara gagnrýni á það að hann hafi hleypt Icesave í gegn með því að benda á að hann hafi nú fórnað heilu ráðherraembætti til að geta fylgt samvisku sinni án þess að fella ríkisstjórnina.
29.sep. 2009 - 15:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Bankarnir brjóta eigin reglur - og komast upp með það

Í skjóli íslenska ríkisins er að verða til ný forréttindastétt, sem skákar í skjóli óskilvirkni og ógegnsæis ríkisrekstrar. Í ríkisrekstri er það nefnilega svo að það er enginn eigandi. Stjórnendurnir virðast fara sínu fram og gefa eigendum og eftirlitsaðilum langt nef og jafnvel löngutöng ef því er að skipta.

Hverjir eru svo þessi stjórnendur? Jú, þetta eru að stórum hluta þeir sömu og fleyttu rjómann ofan af þeirri vitleysu og spillingu, sem viðgekkst innan bankakerfisins fyrir hrun að viðbættum nokkrum ríkisbubbum, sem í skjóli pólitískra tengsla hafa náð að olnboga sig að kjötkötlunum.

10.sep. 2009 - 09:05 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ræða Obama í nótt: Mótum framtíðina en óttumst hana ekki

Fyrirfram var vitað að ræðan í nótt yrði einhver hin mikilvægasta á forsetaferli Obama. Heilbrigðismál eru eitt helsta baráttumál hans og ljóst að, þegar kreppu og fjármálahruni sleppir, verða það heilbrigðismálin, sem munu skera úr um það hvort hann hefur haft erindi sem erfiði í þessu valdamikla og erfiða embætti. Það þarf engum að koma á óvart þó að Obama setji heilbrigðismál í öndvegi. Svartir íbúar Bandaríkjanna eru ríflega tíu hundraðshlutar þjóðarinnar. Rúmlega helmingur þeirra, sem ekki hafa sjúkratryggingar, eru hins vegar svartir. Umbætur í heilbrigðismálum eru því hluti af réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum.
08.sep. 2009 - 16:30 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Viljum við missa þetta fólk? Megum við missa það?

Það mun á endanum kosta Ísland miklu meira að gera ekkert fyrir heimilin en að viðurkenna vandann og taka myndarlega á honum – jafnvel þó að það þýði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Bretar og Hollendingar og einhverjir fleiri fari í fýlu út í okkur. Fulltrúar AGS þurfa ekki að búa í þessu landi og deila kjörum með þjóðinni. Ríkisstjórnin hagar sér eins og hún telji sig líka undanþegna því að deila kjörum með þjóðinni.
03.sep. 2009 - 09:40 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Þetta eru andlitin á bak við skuldirnar, kæra Jóhanna

Bankinn þeirra, sem er einn af nýju ríkisbönkunum, bauð þeim upp á þá lausn mála, að hann leysti húsið til sín fyrir 25 milljónir, ef þau gætu komið með góðar tryggingar fyrir afganginum af skuldinni, sem stóð í 70 milljónum. Þá væri örugglega hægt að semja um eitthvað greiðsluplan á 45 milljónunum, sem út af stóðu. Þetta var sama húsið og bankinn hafði metið á 60 milljónir 5 árum fyrr.
27.ágú. 2009 - 14:50 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ætlum við að drepa okkur?

Við verðum eitthvað að gera til að snúa af þeirri braut, sem við erum á. Það er sérlega óheppilegt að peningar safnist upp í bönkum, þegar þeirra er þörf til að drífa áfram hagkerfið. Þess vegna er mjög mikilvægt að afnema strax verðtrygginguna og lækka vexti niður á það stig, sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Við Íslendingar erum í dýpstu efnahagslægð, sem gengið hefur yfir nokkurt vestrænt ríki í áratugi, en keyrum vaxtastefnu eins og við séum að berjast við ofurþenslu. Þessu verðum við að hætta.
13.ágú. 2009 - 14:05 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Fellur ríkisstjórnin? Hverjir yrðu þá ráðherrar?

Líklegt verður að telja að forsetinn sé búinn að koma sér upp nafnalista yfir þá, sem hann hefði áhuga á að kalla til ef hann neyðist til að setja á fót utanþingsstjórn. Hér á árum áður var altalað að til væri listi með nöfnum manna, sem kallaðir yrðu til í utanþingsstjórn, en oft munaði litlu að t.d. Kristján Eldjárn neyddist til að grípa til þess úrræðis þegar stjórnmálamenn gátu ekki komið sér saman um stjórnarmynstur.

Efsta nafn á þeim lista var nafn Jóhannesar Nordal, þáverandi seðlabankastjóra. Hann skyldi vera forsætisráðherra. Einnig var nafn Jónasar Haralz á listanum, en honum var ætlað að sjá um efnahags- og fjármál. Báðir eru þessir menn á lífi í dag og við góða heilsu að best er vitað. Þeir eru hins vegar orðnir mjög fullorðnir báðir og þrátt fyrir góða kosti beggja verður ekki leitað til þeirra að þessu sinni.

10.ágú. 2009 - 10:39 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Sjálfseyðingarhvöt Íslendinga

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur sagt að það gangi ekki að bankaleynd sé notuð til að fela markaðsmisnotkun og Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, telur rétt að láta hagsmuni bankaleyndar víkja fyrir almannahagsmunum. Þetta er athyglisverð afstaða af hálfu forráðamanna ríkisstjórnar og almannavalds. Halda ráðherrarnir virkilega að bankaleynd skýli lögbrotum? Til hvers halda þeir að FME og efnahagsbrotadeild séu, og til hvers halda þær stöllur að embætti sérstaks saksóknara hafi verið stofnað? Treysta þær kannski ekki „kerfinu“? Vilja þær dómstól götunnar? Er þetta uppbyggilegt framlag til endurreisnar Íslands?
06.ágú. 2009 - 12:04 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Köld eru kvennaráð

Þessari stjórn varð hins vegar á í messunni þegar hún kom aftan að forstjóra bankans og gróf undan honum með bókun sinni. Svona gera stjórnir fyrirtækja ekki! Annað hvort nýtur forstjórinn trausts og fullkomins stuðnings stjórnar eða stjórnin finnur sér annan forstjóra. Svo einfalt er það. Í þessu tilfelli kemur stjórnin í bakið á forstjóranum og fer með rangt mál í bókun sinni. Í því tilviki er það ekki forstjórinn, sem á að víkja, heldur stjórnin í heild sinni eða þeir stjórnarmenn, sem bera ábyrgð á því að hafa blekkt hina.
30.júl. 2009 - 10:57 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Íslendingar borga ekki Icesave...einir!

Ítrekað er hefur verið sýnt fram á að við Íslendingar ráðum ekki við að greiða Icesave. Þeir sem halda öðru fram lifa í einhverjum sýndarheimi þar sem hagvöxtur verður hærri næstu 15 árin en hann hefur verið á nokkru 15 ára tímabili í sögu þjóðarinnar. Þessum mikla hagvexti fylgir, í sýndarheiminum, jákvæður vöruskiptajöfnuður, sem er langt yfir því, sem nokkurn tíma hefur náðst yfir lengra tímabil en eitt ár í senn. Þetta er nauðsynlegt til að afla gjaldeyris til að borga Icesave. Gallinn er sá, að í þessu felst mótsögn. Miklum hagvaxtarskeiðum fylgir gjarnan vöruskiptahalli. Helsta leiðin til að koma í veg fyrir vöruskiptahalla er að hneppa atvinnu- og efnahagslífið í helsi hafta, sem núverandi ríkisstjórn virðist svo sannarlega ætla að gera. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar, að haftabúskapur hefur reynst máttlaus uppspretta hagvaxtar. Hér stöndum við sennilega frammi fyrir annarri Catch-22 stöðu.
23.júl. 2009 - 10:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hin vanhelgu vé Davíðs, Kjartans og Björgólfsfeðga

Það er ánægjuefni ef erlendir bankar hefja starfsemi hér á landi þó að aðdragandinn hafi því miður þurft að verða algert hrun íslenska efnahags- og bankakerfisins. Landsbankinn verður hins vegar áfram í eigu ríkisins. Staða hans er of hryllileg til að til greina komi að erlendir kröfuhafar taki hann yfir.

17.júl. 2009 - 13:57 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Umsóknin samþykkt - hvað nú?

Nú stendur íslenska ríkisstjórnin frammi fyrir nokkrum vanda. Annar stjórnarflokkurinn hefur haft það að sinni stefnu að Ísland gangi í ESB. Þessi stefna Samfylkingarinnar er í grunninn ekki runnin upp úr þörf okkar fyrir nýjan og traustan gjaldmiðil. Samfylkingin skilgreinir sig sem evrópskan jafnaðarmannaflokk og vill sem slík sitja við Evrópuborðið með hinum. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Líklegt er að meirihluti þeirra Íslandinga, sem styðja aðild að ESB, geri það á þeim forsendum að það þjóni hagsmunum okkar að komast inn í gjaldmiðilssamstarfið.
03.júl. 2009 - 09:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Icesave margfalt verri en Versalasamningurinn

Icesave samningurinn, sem ríkisstjórn Íslands reynir nú að fullvissa þing og þjóð um að sé besti samningur, sem við Íslendingar eigum völ á, leggur mun þyngri byrðar á herðar Íslendinga en Versalasamningurinn að lokinni Fyrri heimsstyrjöldinni lagði á herðar þýsku þjóðarinnar.
26.jún. 2009 - 12:35 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Þarf alltaf að byrja að skera á Grensás?

Á næstu þremur árum þurfum við Íslendingar að loka tæplega 200 milljarða fjárlagagati. Þetta verðum við að gera með því annað hvort að afla nýrra tekna eða að skera niður útgjöld. Í ljósi þeirrar stöðu, sem íslenskt efnahagslíf er nú um mundir, er líklegt að tekjuöflun muni lítið duga. Við okkur blasir því niðurskurður.

Fyrir nokkru var greint frá því að sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu myndi byrja á því að draga úr starfsemi Grensásdeildarinnar, sem hefur skilað ómetanlegu starfi í endurhæfingu þeirra, sem orðið hafa fyrir áföllum vegna slysa og veikinda. Fátt kemur á óvart í þessu. Þegar spara á í heilbrigðiskerfinu er yfirleitt byrjað þar sem síst skyldi. Með þeim hætti tekst stjórnendum heilbrigðiskerfisins gjarnan að búa til samúð með kerfinu úti í þjóðfélaginu og kalla fram kröfu um að ekki verði sparað þar.

19.jún. 2009 - 11:50 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Spron var tekinn af lífi

Laugardaginn 21. mars setti Fjármálaeftirlitið (FME) skilanefnd yfir SPRON. Þetta var lokaleikurinn í tryllingslegri baráttu um líf og dauða vinsælasta viðskiptabanka landsins.

12.jún. 2009 - 14:35 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Trúgirni og átrúnaður Íslendinga

Íslendingar hafa löngum liðið fyrir mikla trúgirni sína. Veröld Íslendinga er gjarnan svart hvít en ekki í gráskala og hvað þá í lit. Menn eru annað hvort góðir eða vondir. Hið sama gildir um málefnin.
05.jún. 2009 - 12:51 Björn Ingi

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Ó vakna þú mín Þyrnirós...

Á Íslandi ríkir sofandaháttur. Seðlabankinn sefur, ríkisstjórnin sefur. Meira að segja þjóðin virðist sofa – eða er hún e.t.v. dofin?
22.maí 2009 - 10:00 Ólafur Arnarson

Pressuúttekt Ólafs Arnarsonar: Hvernig varð Seðlabankinn gjaldþrota?

Á haustdögum horfðum við á stóru bankana þrjá hrynja rétt eins og fúnir spítnakofar hefðu orðið fyrir jarðýtu. Síðan þá höfum við þurft að horfa á eftir þremur öðrum bönkum. Þannig eru fallnir sex íslenskir bankar; Landsbankinn, Glitnir, Kaupþing, Straumur, Sparisjóðabankinn og Spron. Það er mismikil eftirsjá eftir þessum bönkum. Sumir þeirra voru klárlega komnir í þrot og var ekki viðbjargandi. Öðrum virðist hafa verið synjað um fyrirgreiðslu, sem einhvers staðar og einhvern tíma hefði þótt eðlileg. Kaupþing var keyrt í þrot með ofbeldisverknaði breskra stjórnvalda.